Nýtt og betra upplýsingakerfi um veđur og sjólag

  • Fréttir
  • 15. ágúst 2012

Hjá Siglingastofnun Íslands hefur nú verið aukið við upplýsingakerfi um veður og sjólag og framsetning gagna jafnframt verið gerð aðgengilegri. Veður og sjólag er öllum opið án endurgjalds. Aðgang má finna á slóðinni www.sigling.is/vs.

Tilgangur upplýsingakerfisins er að auka öryggi sjófarenda og gera þeim kleift að forðast truflanir vegna veðurs og sjólags. Þar er að finna mælingar sem lýsa ástandi veðurs og sjávar á tilteknum stöðum á tilteknum tíma og spár sem meta líklega þróun veðurs og sjávar fram í tímann og lýsa væntanlegu ástandi með ýmsu móti.

Lögð er aukin áhersla á myndræna framsetningu með kortum sem sýna veður- og ölduathuganir og spákortum um veður, öldur, sjávarföll og strauma, lofthita og sjávarhita. Einnig má skoða mælingar og spár fyrir einstaka staði sem tímaraðir á töfluformi. Birtar eru nýjustu mælingar frá veðurstöðvum og ölduduflum og hægt að skoða upplýsingar um einstaka staði með því að smella á kortið eða velja landsfjórðung á hliðarvali.

Í nýjum tengli fyrir tilraunaverkefni má meðal annars finna ölduspár á landgrunninu með mikilli upplausn fyrir nokkra staði. Þá má líka finna svokallaða klasaspá sem ber saman ölduspár gerðar á mismunandi tímum, en samhljóða spár gefa vísbendingu um áreiðanleika. Skoða má gögn áratugi aftur í tímann og spár um yfirborðssjávarhita og ísingarhættu fyrir fiskiskip. Þar hefur verið sett upp reklíkan fyrir fljótandi hluti svo sem gúmmíbáta og fiskibáta en reklíkan fyrir dreifingu olíu var áður til hjá Siglingastofnun. Líkönin eru í þróun og eru því enn sem komið er einvörðungu aðgengileg innan stofnunar.

Veður og sjólag er sem fyrr vistað hjá Siglingastofnun og að mestu leyti hannað og þróað af starfsmönnum hennar en ýmsir voru þó með í ráðum, t.d. frá Veðurstofu Íslands, þaðan sem hluti gagna kerfisins er fenginn. Þá er vísað annað eftir því sem tilefni er til, svo sem veðurspár og viðvaranir veðurstofunnar sem samkvæmt íslenskum lögum og alþjóðlegum samþykktum annast sjóveðurþjónustu fyrir Íslandsmið.

Það er eindregin ósk Siglingastofnunar að betra upplýsingakerfi stuðli að auknu öryggi sjófarenda og auðveldi sjósókn á Íslandsmiðum og á N- Atlantshafi. Veður og sjólag verður áfram í stöðugri þróun og eru ábendingar um það sem betur má fara vel þegnar.


Deildu ţessari frétt

AĐRAR FRÉTTIR

Fréttir / 9. apríl 2024

Pistill bćjarstjórnar 9. apríl

Fréttir / 5. apríl 2024

Zimna woda w Grindavík

Fréttir / 3. apríl 2024

Hlúum ađ heilsunni. Ókeypis kostir