Grindvísk menning

  • Fréttir
  • 11. nóvember 2011

Þriðja sýning GRAL á Endalokum alheimsins fór fram í gær í Kvikunni og var hún vel sótt. Næsta sýning er á sunnudagskvöld. Signý Gunnarsdóttir blaðamaður á Morgunblaðinu fór á frumsýninguna síðasta föstudag og skrifar skemmtilega grein um sýninguna sem má lesa hér:

Rigningin buldi á rúðunni og vinnukonurnar höfðu ekki undan að hrista hana af sér. Nú reyndi á þær að sinna starfi sínu og gæta þess að ökumaðurinn sæi út. Ég keyrði meðfram ljósastaurunum, það var slökkt á öðrum hverjum staur. Hjákátlegur sparnaður. Hvers vegna í ósköpunum settu þeir ekki bara upp færri staura? Við erum í það minnsta komin með ákveðinn viðmiðunarpunkt á hvenær er hætt að herða að okkur, þegar kveikt verður á ljósunum á Reykjanesbrautinni aftur. Nú skyldi sækja menningu til Grindavíkur. Já, til Grindavíkur af öllum stöðum. Já, það er ekki bara menning í Grindavík, þar er atvinnuleikhús og þangað skyldi ég fara á frumsýningu. Endalok alheimsins, nýtt íslenskt verk eftir þá Berg Þór Ingólfsson og Guðmund Brynjólfsson.

Mitt innbyggða menningarsnobb kemur alloft í veg fyrir að ég sæki menningu utan höfuðborgarsvæðisins, eins og þar sé vagga allra listrænna hugsana. Ég hef ekki farið oft til Grindavíkur. Ég átti þar leið um þegar ég var fjórtán ára. Þá var ég í skólaferðalagi með bekknum mínum og það var pissustopp í sjoppunni. Strákarnir notuðu tækifærið og leigðu sér nokkrar myndbandsspólur. Þetta var áður en allt var á tölvutæku formi og leigusamningurinn var handskrifaður. Þeir lugu til um nöfn, aldur og heimilisfang og höfðu á auðfenginn hátt komist yfir nokkrar spólur sem þeir eignuðu sér. Ég man hversu illa mér leið yfir þessum þjófnaði þeirra en á sama tíma hló ég með þeim í rútunni. Minningar mínar um Grindavík tengjast sem sagt röð á klósettið og því að ég var vitorðsmaður í brotamáli bæjarins.

Sýningin er í Kvikunni, menningarhúsi þeirra Grindvíkinga. Það er upplifun ein að koma þar inn. „Þetta er alvörumenningarhús," stóð ég sjálfa mig að því að hugsa. Rétt áður en sýningin hófst hljóp Bergur Þór, leikstjórinn, upp í miðjar tröppur og ávarpaði leikhúsgesti. Í kallkerfislausu húsi minnti hann gesti á að slökkva á farsímum sínum um leið og hann bauð alla velkomna. Sá heimilislegi bragur var skemmtilegur. Sýningin var svolítið lengi í gang og örlítið torskilin í byrjun. Þetta er gamansamur harmleikur um fjóra einstaklinga sem eru þeir síðustu hér á jörð. Það sem stendur uppi eftir þessa sýningu er að það virðist sama hversu oft við rekum okkur á, lífsgildi okkar breytast aldrei. Gróðinn er svo fyrirferðamikill í hugsunum okkar að þrátt fyrir hindranir kunnum við ekki að meta það sem raunverulega skiptir máli, samveru með fjölskyldu og vinum, ást og umhyggju.

Mikið sem ég hló þegar ég horfði á Víði Guðmundsson, í hlutverki Jóns, flaka fisk. Ekki bara af því að það var svo klaufalega gert heldur af því að þetta var ekki ólíkt frumraun minni af flökun í sumar þar sem ég reyndi að gera að silungi með aðstoð Youtube. Leikararnir standa sig allir með stakri prýði og sýningin sækir á þegar á líður. Það er líka svo mikil hvíld að komast í alvöruleikhús og sjá alvöruleik þar sem áhorfandinn er ekki mataður á öllu sem fram fer á sviðinu. Sprengjur, aríur og ljósasýningar eru ekki nauðsyn til að fanga athygli áhorfandans, leikararnir gera það með nærveru sinni. Það er því vel hægt að mæla með því að fólk geri sér far um að skella sér í menningarferð til Grindavíkur.

 


Deildu ţessari frétt

AĐRAR FRÉTTIR

Fréttir / 10. apríl 2024

NIE ZAPOMINAJMY O OKAZJACH DO RADOSCI

Fréttir / 9. apríl 2024

Pistill bćjarstjórnar 9. apríl

Fréttir / 5. apríl 2024

Zimna woda w Grindavík

Fréttir / 3. apríl 2024

Hlúum ađ heilsunni. Ókeypis kostir

Fréttir / 3. apríl 2024

Höfum gleđina međ!