Enn er von

  • Fréttir
  • 25. september 2011

Grindavík tapaði fyrir Fram 1-2 í Pepsideild karla í dag en Magnús Björgvinsson skoraði mark Grindavíkur. Leikurinn var bráðfjörugur fyrir framan 1250 áhorfendur sem fjölmenntu á leikinn. Þar með komst Fram upp fyrir Grindavík sem er í fallsæti fyrir lokaumferðina. Engu að síður getur Grindavík bjargað sér með sigri á erfiðum útivelli í Eyjum.

Það var vitað mál að sigur hér í dag hefði sett okkur í mjög góða stöðu. Þetta er því mjög svekkjandi niðurstaða," sagði Ólafur Örn Bjarnason, leikmaður og þjálfari Grindavíkur eftir tap sinna manna gegn Fram í dag, 2-1, við Vísi.

Grindavík er því í fallsæti með sín 20 stig, einu á eftir Keflavík, Fram og Þór. Það verður því mikil spenna í lokaumferðinni en þá mætir Grindavík liði ÍBV í Vestmannaeyjum.

Ólafur segir að sínir menn geti fyrst og fremst sjálfum sér um kennt. „Alveg eins og í síðustu leikjum komu augnablik í dag þar sem við hefðum getað gert betur, bæði í sókn og vörn. Sérstaklega í okkar vítateig enda skoruðu þeir mörk sem hefði mátt koma í veg fyrir."

„Svo eftir að við jöfnum hendum við okkur fram og þeir ganga á lagið með sínum skyndisóknum. Óskar varði nokkrum sinnum mjög vel en svo kom markið. Við vorum því einfaldlega ekki nógu skynsamir í okkar leik."

Hann segir ljóst að leikmenn eru ekki að takast nógu vel á þá pressu sem fylgir því að vera í botnbaráttunni. „Við erum búnir að koma okkur í vonda stöðu og nú fá menn alvöru verkefni til að bjarga liðinu frá falli. Nú þurfum við að fara til Eyja og mæta ÍBV þar í hörkuleik. Það er hægt að vinna leiki þar eins og annars staðar."

„Maður verður að halda í vonina. Ef maður gerir það ekki getur maður alveg eins hætt þessu. Ég hef fulla trú á því að við getum farið til Eyja og fengið eitthvað þar. Við gerðum það í fyrra og vitum vel að það er hægt."


Deildu ţessari frétt

AĐRAR FRÉTTIR

Fréttir / 5. apríl 2024

Zimna woda w Grindavík

Fréttir / 3. apríl 2024

Hlúum ađ heilsunni. Ókeypis kostir

Fréttir / 3. apríl 2024

Höfum gleđina međ!

Fréttir / 2. apríl 2024

Ađstođ viđ fjármál