Fundur nr. 18

  • Atvinnu- og ferđamál
  • 15. september 2011

18. fundur Ferða- og atvinnumálanefndar Grindavíkur haldinn í bæjarstjórnarsal, þriðjudaginn 6. september 2011 og hófst hann kl. 20:00

Fundinn sátu:
Heiðar Hrafn Eiríksson (HHE), Lovísa Hilmarsdóttir (LH), Helga Kristjánsdóttir (HK) og Ingimar Waldorff (IW).
Fundargerð ritaði: Þorsteinn Gunnarsson, Upplýsinga- og þróunarfulltrúi

Dagskrá:

1. 1106030 - Sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd Alþingis óskar eftir umsögn um frumvarp til laga um stjórn fiskveiða (heildarlög), 827. mál

Sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd Alþingis.
Skrifstofa Alþingis
150 Reykjavík

Grindavík 2. september 2011

Efni Umsögn Grindavíkurbæjar um frumvarp til breytinga á stjórn fiskveiða, þingmál nr. 827.

Grindavík er ein stærsta verstöð landsins. Á yfirstandandi fiskveiðiári 2011/2012 er Grindavík með 9,5% af heildarúthlutun afla í þorskígildistonnum. Fimm stærstu sjávarútvegsfyrirtækin skapa rúmlega 700 bein störf í Grindavík við veiðar og vinnslu. Auk þess eru fyrirtækin með rekstur víða annarsstaðar um landið sem skapar hundruði starfa til viðbótar, m.a. í Vogum, á Þingeyri, Húsavík og Djúpavogi. Það má því hæglega halda því fram að sjávarútvegsfyrirtækin í Grindavík skapi um 1.000 bein störf við veiðar og vinnslu á Íslandi, sem eru álíka mörg störf eru til í áliðnaði á Íslandi! Eru þá ótalin störf við fjölda smærri sjávarútvegsfyrirtækja. Fjöldi afleiddra starfa sem sjávarútvegur í Grindavík skapar hleypur á hundruðum. Í ljósi þessa er augljóst hvers vegna sjávarútvegur er Grindvíkingum mikið hjartans mál og leggur bæjarstjórn mikla áherslu á að Alþingismenn og ríkisstjórn vandi sig og hlusti á sjónarmið þeirra sem lifa og hrærast í sjávarbyggðum landsins áður en breytingar eru gerðar á íslenskum sjávarútvegi. Í trausti þess að hlustað verði á okkar raddir leggur bæjarstjórn fram þessa umsögn um frumvarp til breytinga á stjórn fiskveiða, þingmál nr. 827.

Bæjarstjórn Grindavíkurbæjar hefur undanfarin misseri fylgst með og ályktað um þær breytingar sem ýmist hafa verið lögfestar, eða lagðar hafa verið til á stjórn fiskveiða. Með þessu nýja frumvarpi er fyrst og fremst verið að færa byggðavandann á milli staða. Sjávarútvegurinn einn getur ekki borið ábyrgð á því að leysa byggðavanda á Íslandi.

Markmið þeirra breytinga sem unnið hefur verið að undanfarin misseri virðast fyrst og fremst vera tvennskonar. Annars vegar að auka skattlagningu á sjávarbyggðir og flytja féð til Reykjavíkur. Hinsvegar að taka atvinnu af þeim stöðum sem hafa byggt upp atvinnu fyrir hundruði einstaklinga við sjómennsku og fiskvinnslu allt árið um kring og flytja til þeirra sem vilja stunda sjómennsku í frítíma sínum og skapa vertíðarmennsku í fiskvinnslu. Það hefur vissulega yfir sér rómantískan blæ að allir sem vettlingi geta valdið sæki sjóinn og dragi björg í bú, skapi líf við bryggjur landsins og rífi upp vertíðarstemningu í fiskvinnslu, rétt eins og það er rómantísk hugsun að börn og unglingar geti streymt til sveita á sumrin að taka ærlega til hendinni í heyskap. Raunveruleikinn er hinsvegar sá að hvorutveggja, landbúnaður og sjávarútvegur, hafa breyst hratt og vélvæðst á undanförnum árum, sérstaklega sjávarútvegurinn. Það liggur því í augum uppi að færri hendur og skip þarf til að vinna verkin og skapa verðmætin. Það sem meira er, gæðin og þar með verðmæti afurðanna hafa aukist jafnt og þétt, þrátt fyrir minnkandi afla.

Í meðfylgjandi línuriti má sjá þróun aflaverðmæti þorsks á hvert tonn sem flutt hefur verið úr landi. Sjá má á þessu að aflaverðmæti á hvert tonn er að aukast töluvert á tímabilinu. Í rauðu línunni er búið að taka út áhrif af gengissveiflum. Árangur íslenskra sjávarúvegsfyrirtækja undanfarin ár við verðmætasköpun við þröngar aðstæður er augljós. Árangurinn má fyrst og fremst þakka bættu gæðastarfi fyrirtækjanna og markvissara markaðsstarfi. Sjávarútvegsfyrirtækin eru ekki lengur útgerðarfyrirtæki, heldur markaðsdrifin matvælaframleiðslufyrirtæki sem veiða hráefni í samræmi við eftirspurn og verð á markaði. Sú breyting sem hefur orðið á starfsemi fyrirtækjanna hefur leitt til þess að störf í sjávarútvegi hafa breyst frá því að vera að uppistöðu ófaglærð verkamannastörf í að vera störf fyrir faglært tæknifólk og matvælatækna. Grindvíkingar hafa lagt mikið upp úr menntun og þjálfun sinna starfsmanna og eru brautryðjendur í endurvakningu fiskvinnslunáms á Íslandi í gegnum Fisktækniskóla Íslands. Bæjarstjórn Grindavíkur væri heiður af því að fá sjávarútvegsnefnd í heimsókn til Grindavíkur og sýna nefndarmönnum tæknivæddar fiskvinnslur dagsins í dag og Fisktækniskóla Íslands. Viðbúið er að slík heimsókn muni hafa áhrif á marga nefndarmenn.

Áhrif frumvarpsins á Grindavík
Undanfarnar vikur hafa birst athuganir og skýrslur fjölmargra aðila, sérfræðinga og hagsmunaaðila sem sýna að nýlega lögfestar breytingar og þær sem kynntar eru í máli nr. 827 munu hafa veruleg neikvæð áhrif á sjávarútveg í landinu öllu og þar með í Grindavík. Um 4000 þorskígildistonn munu tapast úr Grindavík á 15 árum verði frumvarpið að lögum, miðað við 15% skerðingu. Aldrei í sögunni hefur byggðakvóta verið úthlutað til Grindavíkur og ekkert sem bendir til þess að breyting verði á því. Grindvíkingar hafa þess utan litla trú á miðstýrðum aðgerðum eins og úthlutun byggðakvóta og vilja heldur treysta að sjávarútvegur dafni þar sem hann á best vaxtarskilyrði.

Fyrir utan þá skerðingu sem fyrirliggjandi frumvarp boðar er vert að rifja upp að sjávarútvegsfyrirtækin í Grindavík hafa orðið fyrir miklum skerðingum á aflaheimildum undanfarin ár sem þau hafa þurft að sætta sig við, í því trausti að þau fái að njóta aukningarinnar þegar betur árar. Sú aukning myndi skapa fjölda starfa að nýju við fiskvinnslu og veiðar í Grindavík. Í nýju frumvarpi er lagt til að það traust verið rofið og fyrirtækin fá aukninguna aðeins að helmingi til baka.

Ef heildarafli yrði aukinn þannig að hann yrði sá sami og hann var fiskveiðiárið 2005/2006 þá fengi Grindavík um 7.000 þorskíldistonnum meira en í dag skv. núgildandi lögum. Verði frumvarpið að lögum myndu Grindvíkingar aðeins njóta um helmings, eða aðeins 3.500 þorskígildistonna. Skerðingin er því í raun tvíþætt. Annars 15% samdráttur á núverandi heimildum og hinsvegar að fyrirtækin fái aðeins um helming skerðingar undanfarinna ára til baka. Það er lítið réttlæti í slíkum vinnubrögðum.

Skerðing á aflaheimildum í Grindavík um 4.000 þorskígildistonn mun hafa mjög miklar og alvarlegar afleiðingar fyrir samfélagið í Grindavík og nágrenni og fækka störfum. Atvinnuástand á Suðurnesjum er vel þekkt og má samfélagið ekki við því að höggin verði skörð í þá atvinnuvegi sem þó standa styrkum stoðum á svæðinu og skapa hundruði starfa.

Eins og áður segir skapar sjávarútvegur í Grindavík um 1.000 bein störf. Skerðing á aflaheimildum um 15% ætti því að öðru jöfn að leiða til 15% fækkun starfa, eða um 150 bein störf. Gera má ráð fyrir annari eins fækkun afleiddra starfa í vélsmiðjum, hjá iðnaðarmönnum og fleiri þjónustuaðilum. Þeir aðilar hafa raunar þegar dregið úr sínum umsvifum þar sem óvissa um framtíð sjávarútvegs á Íslandi hefur nærri lamað nýfjárfestingar og viðhald umfram það allra nauðsynlegasta. Heildaráhrif skerðingar aflaheimilda í Grindavík mun því að líkindum fækka störfum um 200-300. Það er hlutfallslega mjög mikil fækkun og jafnast á við um 8.000 störf í Reykjavík myndu tapast vegna vanhugsaðra stjórnvaldsaðgerða.

Bein áhrif á rekstur Grindavíkurbæjar
Fækkun starfa um 200 mun hafa mikil áhrif á íbúaþróun í Grindavík, útsvarstekjur og tekjur hafnarinnar. Viðbúið er að margar fjölskyldur sem byggt hafa afkomu sína af sjávarútvegi muni flytja úr bænum og leita gæfunnar annarsstaðar. Varlega áætlað má gera ráð fyrir að íbúum muni fækka um 200-250, sem þýðir hlutfallsleg fækkun 7-9%.

Lækkun tekna og fækkun starfa vegna skerðingar aflaheimilda mun leiða til lækkunar á útsvari bæjarins. Verðmæti veiddra 4000 þorskígildistonna er áætlað um 1.850 milljónir. Gera má ráð fyrir að af þeim verðmætum fari 27% í laun, eða um 500 milljónir. Útsvar af þeirri af fjárhæð er um 70 milljónir kr. Grindavíkurbær var rekinn með rúmlega 80 milljóna kr. halla á árinu 2010 og má alls ekki við viðlíka höggi á sinn rekstur.

Grindavíkurhöfn er umsvifamesta fiskihöfn landsins, en á árinu 2010 var landað um 35.000 þorskígildistonnum í Grindavík. Heildartekjur hafnarinnar það ár voru um 165 milljónir, sem gera um 4700 kr/ÞÍG. Dragist landaður afli saman um 4.000 þorskígildstonn mun það leiða til tekjutaps upp á um tæpar 20 milljónir á ári. Raunar má vera að skerðingin verði enn meiri ef löndun dregst saman um 15%, en ekki bara veiðiheimildir. Afkoma hafnarinnar er mjög slæm fyrir þar sem tekjur hrundu við það að fiskimjölsverksmiðjan brann fyrir fáeinum árum og var ekki endurreist. Grindvíkingar fóru ekki fram á sérmeðferð eftir það reiðarhögg, heldur börðust áfram í öðrum greinum sjávarútvegs eins og þeir hafa alltaf gert og vilja fá að gera í friði.

Grindavíkurbær hefur undanfarin ár byggt upp innviði til að geta sem best sinnt íbúum bæjarins. Leiði skerðing aflaheimilda til 7-9% fækkunar íbúa er viðbúið að fjárfestingar í skólum, leikskólum og öðrum mannvirkjum nýtist ekki eins vel og til var stofnað og að færri skattgreiðendur verði til að standa undir rekstri þjónustunnar. Auk þess má gera ráð fyrir auknum kostnaði við fjárhagsaðstoð og aðra félagsþjónustu í kjölfar atvinnumissis og lækkandi tekna fjölskyldna í bænum og atvinnumissis. Áhrifin koma því víðar fram en í beinum tekjum.
Landsbyggðarskatturinn.

Auðlindagjaldið er sértækur skattur á sjávarútvegsfyrirtæki og þar með íbúa sjávarbyggða. Frá árinu 2004 hafa sjávarútvegsfyrirtæki í Grindavík greitt um einn milljarð króna í veiðileyfagjald sem runnið hefur til ríkisins í stað þess að nýtast að minnsta kosti að hluta í þágu þess bæjarfélags þar sem arðurinn skapast. Bæjarfélögin sem bera kostnaðinn af höfnunum og öðrum innviðum sem nýtast landsmönnum öllum. Í upphafi var gjaldið 9,5% af reiknaðri framlegð útgerða. Nú er gert ráð fyrir því að hækka gjaldið í um 19%, eða hækka um 100%! Gjaldið leggst ofan á aðra skatta sem þessir sömu íbúar og þessi sömu fyrirtæki greiða til jafns við aðra landsmenn og önnur fyrirtæki og berst ekki aftur til þessara bæjarfélaga.
Bæjarstjórn Grindavíkurbæjar leggur til að frumvarpið verði dregið til baka og reynt verði að ná sátt um íslenskan sjávarútveg með reglum sem hafi það að markmiði að þær styrki greinina í heild sinni og skapi hvata til þess að hámarka verðmæti, draga úr framleiðslukostnaði og auka þar með arðsemi og tekjur þjóðarbúsins. Þannig skapast svigrúm fyrir greinina til að greiða góð laun til starfsmanna allt árið, greiða hærri gjöld til hins opinbera og sinna rannsóknum og þróun til að auka enn frekar verðmæti íslenskra sjávarafurða.

Virðingarfyllst

__________________________
Róbert Ragnarsson, bæjarstjóri

Afrit sent:
Sjávarútvegsráðherra Jón Bjarnason
Þingmenn Suðurkjördæmis
Sveitarfélög á Suðurnesjum

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.

Athugasemd við 3. gr.
Grindavíkurbær tekur undir álit sérfræðihóps hagfræðinga sem skipaður var af sjávarútvegsráðherra. Sérfræðihópurinn skilaði af sér greinargerð 14. júní 2011 en þar kemur glögglega fram að strandveiðar séu óhagkvæmt kerfi. Í greinargerðinni segir m.a.:

,,Hugmyndin um strandveiðar er nokkuð sérstök í ljósi reynslu stjórnvalda hér á landi og víða um heim af ólympískum veiðum, en svo eru nefndar veiðar þar sem heildarafli er takmarkaður en afli hvers báts ræðst fyrst og fremst af sókn. Reynslan af slíkum veiðum er almennt mjög slæm (sjá t.d. Hilborn og fél. 2003). Sókn heldur áfram að aukast þar til allri auðlindarentu hefur verið sóað, annars vegar með hækkun sóknarkostnaðar og hins vegar með samdrætti í aflaverðmæti sem skapast af hvatanum til að sækja meiri fremur en betri afla. Rétt er að benda á að einu afkomutölur sem til eru fyrir strandveiðar benda til þess að afkoma í þeim sé umtalsvert lakari en í smábátaútgerð almennt"

Grindavíkurbær gerir einnig athugasemd við að færa eigi 15% af aflaheimildum allra tegunda (utan þorsks, ýsu, ufsa og steinbíts) í leigu. Grindavíkurbær gerir ennfremur alvarlegar athugasemdir við að innleiða eigi pottakerfi undir beinni stjórn fulltrúa á alþingi og ráðherra en slíkt fyrirkomulag býður hættunni heim á pólitískri spillingu og sóun.

Í greinagerð sérfræðihópsins segir m.a.:
"Alvarlegur ágalli er jafnframt á því að fella byggðaaðgerðir inn í fiskveiðistjórnunina. Við það verður raunverulegur kostnaður þjóðfélagins af aðgerðunum ósýnilegur, en slíkt fyrirkomulag ber að varast. Ef ekki er hægt að sjá með skýrum hætti hver kostnaður byggðaaðgerða er, verður erfitt að dæma um hvort kostnaðurinn sé réttlætanlegur í ljósi árangursins sem aðgerðirnar leiða til. Hættan á dýrum ómarkvissum aðgerðum eykst."
Í þessu samhengi er rétt að benda á að byggðakvóti hefur aldrei komið til Grindavíkur enda hafa útgerðaraðilar hér haft að leiðarljósi að fjárfesta í atvinnugreininni en ekki selja kvótann úr byggðarlaginu.
Grindavíkurbær gerir alvarlegar athugasemdir við hið mikla valdaframsal sem frumvarpið hefur í för með sér. Vald ráðherra verður ógnvænlega mikið og í raun verður ráðherra stærsti útgerðaraðili landsins. Í frumvarpinu kemur orðið ráðherra fyrir 119 sinnum! Í frumvarpinu gætir víðsjárverðra hugmynda sem færa ráðherra alræðisvöld til að stjórna fiskveiðum eftir eigin duttlungum.

Í greinagerð sérfræðinganna segir m.a.:

"Ef ráðherra getur hyglt ákveðnum sveitarfélögum, með því t.d. að breyta innihaldi reglugerða um úthlutun, skapast tvíþættur vandi. Annars vegar getur ráðherra fallið í þá freistni að kaupa sér velvilja eða hygla vinum með því að hagræða reglum um úthlutun. Í öðru lagi skapar vald ráðherra hvata hjá byggðarlögum til að reyna að hafa áhrif á reglurnar svo þær henti þeirra hagsmunum betur. Hvort tveggja leiðir til sóunar."

Athugasemd við 6. gr.
Grindavíkurbær gerir alvarlegar athugasemdir við að lögfesta eigi nýtingarleyfi að hámarki 15 ára og svo með mögulegri framlengingu um átta ár. Allar fjárfestingar í sjávarútvegi eru fjárfrekar, samkeppnisumhverfið mikið og þegar fjárfesta á í veiðarfærum, skipum, hátæknitækjum og markaðsmálum er slíkt til áratuga en ekki fárra ára.

Í greinagerð sérfræðinganna segir m.a.:
"Almennt voru þau tuttugu félög í aflamarkskerfinu sem voru skoðuð nokkuð skuldug en félögin í krókaaflamarkskerfinu sem voru flest mjög skuldug. Því eru íslensk sjávarútvegsfyrirtæki mjög viðkvæm fyrir mikilli lækkun á verðmæti aflaheimilda. Lögin leiða því til þess að mun erfiðara verður fyrir fyrirtækin að halda áfram rekstri og vart réttlætanlegt hjá mörgum þegar raunverulegt verðmæti eigna verður langtum minna en virði skulda."

Athugasemd við 7. gr.
Grindavíkurbær gerir alvarlegar athugasemdir við að varanlegt framsal aflahlutdeilda verði óheimilt en þessi grein kollvarpar í raun forsendum sjávarútvegs á Íslandi því varanlegt framsal er grundvöllur hagræðis í greininni. Grindavíkurbær tekur undir sjónarmið sérfræðinga sjávarútvegsráðherra þar sem segir að hömlur á framsali, bann við veðsetningu aflaheimilda, o.fl. hafi neikvæð áhrif á reksturinn og m.a. dregurverulega úr virði aflaheimilda, hagræðingarmöguleikum og gerir hana óhagkvæmari til lengri tíma litið.
Þá er það grafalvaregt að einungis sjávarútvegsráðherra sé áskilinn réttur til forkaupsréttar í bráðabirgðaákvæði VI. Eða eins og segir í greinagerð sérfræðinganna:
"Ákveðinn blær er yfir frumvarpinu um að miðstýring fremur en markaðir eigi að ráða ferðinni. Markaðir búa margir hverjir við markaðsbresti og til þess þarf umgjörð sem sníður af helstu vankanta. Þeir vankantar verða hins vegar ekki sniðnir af með því að færa úthlutunarvald í pólitískan rann með tilheyrandi brestum á stjórnmálamarkaði."

Athugasemdir við 13., 15. og 19. gr.
Hér er enn verið að færa ráðherra geðþóttavald í hendur og er í anda þeirrar miðstýringar og einræðis sem frumvarpið stuðlar að. Ráðherra getur, einn og sér, ákveðið úthlutun á nýjum tegundum sem færðar eru í kvóta, án þess að taka tillit til veiðireynslu og þannig notað aðrar aðferðir við fiskveiðistjórnun tímabundið. Gengið er svo langt að ráðherra hafi vit fyrir útgerðarmönnum hvernig skuli hámarka aflaverðmæti og að útgerðir séu alveg háðar geðþótta ákvörðun ráðherra um heimild til flutnings á aflaheimildum.

Athugasemd við 25. gr.
Grindavíkurbær leggst alfarið gegn veiðigjaldi í núverandi mynd. Hinsvegar mætti hugsa sér hóflegt gjald fyrir aðgang að auðlindinni sem myndi að stærstum hluta renna til þeirra samfélaga sem skapa auðinn. Tekjurnar sem af gjaldinu hljótast myndu nýtast til viðhalds og rekstrar hafnarmannvirkja og annarra innviða fyrir sjávarútveg. Forsenda þess að hægt sé að innheimta frekari gjöld eða skatta af sjávarútvegsfyrirtækjunum er að rekstrarumhverfið sé tryggt og stöðugt, þannig að fyrirtækin fái frið til að afla verðmæta.


Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 21:00


Deildu ţessari frétt

AĐRAR FUNDARGERĐIR

Bćjarstjórn / 17. apríl 2024

Fundur 564

Skipulagsnefnd / 10. apríl 2024

Fundur 131

Bćjarstjórn / 4. apríl 2024

Fundur 562

Bćjarstjórn / 10. apríl 2024

Fundur 563

Bćjarstjórn / 26. mars 2024

Fundur 561

Skipulagsnefnd / 25. mars 2024

Fundur 130

Skipulagsnefnd / 21. febrúar 2024

Fundur 129

Skipulagsnefnd / 25. mars 2024

Fundur 130

Skipulagsnefnd / 25. mars 2024

Fundur 130

Skipulagsnefnd / 25. mars 2024

Fundur 130

Bćjarstjórn / 19. mars 2024

Fundur 560

Bćjarstjórn / 12. mars 2024

Fundur 559

Bćjarstjórn / 5. mars 2024

Bćjarstjórn / 20. febrúar 2024

Fundur 556

Bćjarstjórn / 13. febrúar 2024

Fundur 555

Bćjarstjórn / 8. febrúar 2024

Fundur 554

Bćjarstjórn / 30. janúar 2024

Fundur 553

Bćjarstjórn / 23. janúar 2024

Fundur 552

Bćjarstjórn / 16. janúar 2024

Fundur 551

Bćjarstjórn / 9. janúar 2024

Fundur bćjarstjórnar nr. 550

Bćjarstjórn / 29. desember 2023

Fundur bćjarstjórnar nr. 549

Bćjarstjórn / 27. desember 2023

Fundur bćjarstjórnar nr. 548

Bćjarráđ / 5. desember 2023

Fundur 1659

Bćjarstjórn / 28. nóvember 2023

Fundur 547

Bćjarráđ / 7. nóvember 2023

Fundur 1658

Bćjarstjórn / 31. október 2023

Fundur 544

Afgreiđslunefnd byggingamála / 17. október 2023

Fundur 78

Skipulagsnefnd / 16. október 2023

Fundur 127

Frćđslunefnd / 12. október 2023

Fundur 136

Frćđslunefnd / 21. september 2023

Fundur 135