Jafntefli og tap

  • Fréttir
  • 23. maí 2011

Karlalið Grindavíkur gerði markalaust jafntefli við Víking í Víkinni í gærkvöld og kvennalið félagsins tapaði fyrir Þór/KA á Grindavíkurvelli 2-1. Karlaliðið er með 4 stig eftir 5 umferðir en kvennaliðið án stiga eftir 2 umferðir.

Leikur karlaliða Grindavíkur og Víkings var ekki mikið fyrir augað enda aðstæður í Víkinni erfiðar. Völlurinn eins og kartöflugarður og mikill vindur. Grindavík átti tvö bestu færin en líkt og í undanförnum leikjum voru okkar menn ekki á skotskónum.

,,Þetta var bara mjög daufur leikur. Við fáum 2-3 góð færi í þessum leik og þar lá okkar tækifæri til þess að ná í öll stigin sem í boði voru. Þetta er búið að vera svona í síðustu þrem leikjum hjá okkur. Við höfum verið að fá færin en ekki verið að nýta þau og á meðan við nýtum ekki færin þá er alltaf ákveðin hætta á því að missa leikinn niður í tap eða jafntefli. Það vantar einhvern kraft í liðið. Á meðan við erum að skapa okkur færi þá verðum við bara að halda áfram. Róa okkur aðeins niður í færunum og eins og ég segi byrja að nýta það sem við fáum. 0-0 er ef til vill sanngjörn niðustaða en auðvitað hefði alveg verið hægt að sigra," sagði Ólafur Örn Bjarnason, þjálfari Grindavíkur við Vísi eftir leik.

Aðspurður um það af hverju fyrsta og eina skipting Grindvíkinga hafi ekki komið fyrr en á 86 mínútu hafði Ólafur þetta að segja.

„Leikurinn var í ákveðnu jafnvægi. Maður veit aldrei hvað gerist með skiptingum og leikurinn hefði vissulega getað snúist í báðar áttir. Undir lokin setti ég svo Ramsay inn á til þess að fá aukið líf fram á við. Auðvitað er alltaf hægt að velta sér skiptingunum eftir á en ég sé bara engan tilgang í því núna."

Hér má sjá myndaveislu frá leiknum hjá fótbolta.net.


Kvennalið Grindavík komst yfir gegn Þór/KA í rokinu á Grindavíkurvelli með marki frá Shaniku Gordon. En Þór/KA tókst að knýja fram sigur sem verður að teljast afar ósanngjarnt því Grindavík var betra liðið og komu marksúlurnar norðanstúlkum til bjargar.

,,Það má segja að aðstæður hafi verið erfiðar fyrir bæði lið og leikurinn mótaðist svolítið á rokinu," sagði Jón Þór Brandsson þjálfari kvennaliðs Grindavíkur við fótbolta.net.

,,Okkur gekk illa að spila boltanum eins og við hefðum gert frekar, en það átti við um bæði lið og þetta var svolítið tilviljunarkennt. Bæði liðin fengu góð færi og öll mörkin komu gegn vindi."

,,Þetta var frekar jafn leikur, mikil barátta og menn börðust fyrir stigunum. Þetta datt þeirra megin í dag."

Hólmfríður Ósk Samúelsdóttir átti skot sem fór í stöng, markvörð Þór/KA og aftur í stöng en hlutirnir féllu ekki með þeim í seinni hálfleik.

,,Já, ég held að bæði liðin hafi fengið töluvert af færum sem ekki nýttust, en þær voru með heldur betri nýtingu, og skoruðu úr tveimur færum. Glæsileg mörk."


Deildu ţessari frétt

AĐRAR FRÉTTIR

Fréttir / 9. apríl 2024

Pistill bćjarstjórnar 9. apríl

Fréttir / 5. apríl 2024

Zimna woda w Grindavík

Fréttir / 3. apríl 2024

Hlúum ađ heilsunni. Ókeypis kostir