Mjög vel heppnađ frćđslukvöld um fjöldahjálparstöđ

  • Rauđi krossinn
  • 25. mars 2011

Neyðarvarnarnefnd Grindavíkurdeildar Rauða kross Íslands stóð fyrir fræðslukvöldi um opnun fjöldahjálparstöðva á miðvikudagskvöldið í Hópsskóla. Jón Brynjar Birgisson, verkefnisstjóri neyðarvarna hjá landsskrifstofu Rauða kross Íslands hélt mjög góðan fyrirlestur um opnun og starfsemi innan fjöldahjálparstöðva.

Fyrirlesturinn gaf góða sýn á þau verkefni sem fylgja því að opna fjöldahjálparstöð sem geta verið mjög mismunandi eftir hver ástæðan fyrir opnun er en víst er að þau geta verið ansi fjölbreytt.  Það var einnig mjög fróðlegt að heyra reynslusögur úr raunveruleikanum en eins og allir vita þá hefur nýverið reynt töluvert á þessi viðbrögð bæði í Árnes- og Rangárvallarsýslum en einnig víðar um land í gegnum tíðina vegna t.d snjóflóða og rútuslysa og á höfuðborgarsvæðinu þá oftast vegna bruna.

Eftir kaffihlé var síðan stutt æfing sem fólst í því að gera fjöldahjálparstöðina, Hópsskóla í þessu tilfelli, tilbúna til opnunar fyrir þolendur rútuslyss. Þátttakendum var skipt í tvo hópa sem skiptu skólanum á milli sín og skipulögðu opnunina samkvæmt teikningum sem neyðarvarnarnefndin hefur útbúið og sýnir skipulag fjöldahjálparstöðvar í Hópsskóla (slíkt skipulag hefur nefndin einnig gert fyrir Grunnskólann við Ásabraut). Mikið kapp og glens var í mannskapnum og tók ekki langan tíma að merkja allan skólann og skipa valinn mann í hvert sæti/verkefni en um 20-25 manns þarf til að manna eina vakt í fjöldahjálparstöð.

Það var svo um svipað leyti og Stjarnan náði rétt að merja fram sigur á strákunum okkar í körfunni að fjöldahjálparstöðin var tilbúin til opnunar og þá varð gárungunm það á orði að nú gætum við tekið á móti þeim Grindvíkingum sem voru á leiknum í sálræna skyndihjálp og hughreystingu.

Mikilvægt er að íbúar hér sem og annar staðar viti að ALLIR geta lagt sitt af mörkum í þessari starfsemi - það þarf bara að taka ákvörðun um að vilja hjálpa þegar á reynir.

Ef þú hefur áhuga á að gerast fjöldahjálparstjóri eða að vera á lista sem liðsauki þá endilega hafið samband við Rósu 6617041 rosy@internet.is, eða Brynju 8979035, grimurorn@simnet.is 


Deildu ţessari frétt

AĐRAR FRÉTTIR

Fréttir / 9. apríl 2024

Pistill bćjarstjórnar 9. apríl

Fréttir / 5. apríl 2024

Zimna woda w Grindavík

Fréttir / 3. apríl 2024

Hlúum ađ heilsunni. Ókeypis kostir