Hvernig voru jólin í gamla daga?

  • Fréttir
  • 21. desember 2010

Jólablaðið heimsótti tvo eldri borgara í Víðihlíð til að fá hugmynd um jólahald fyrr á tímum. Gísli Hólm Jónsson, fyrrverandi sjómaður sem fagnaði níræðisafmæli á dögunum, var inntur eftir því hvernig jólahaldi var háttað á æskuheimili hans, bænum Miðhúsum í Skagafirði.

„Þar sem við bjuggum í sveit þurftum við alltaf að brynna dýrunum, hinum hversdagslegu störfum þurfti ávallt að sinna. En við athöfðumst sitthvað til að gera okkur dagamun.

Á aðfangadagskvöld var boðið upp á hangikjöt og jafnvel eftirrétt, en það var ekki daglegur viðburður. Mamma mallaði hrísgrjónagraut sem hún setti eina möndlu út í. Möndlugjöfin var konfektpoki eða eitthvað í þeim dúrnum. Mikil keppni ríkti meðal okkar systkinanna hver hreppti hnossið," segir Gísli og skellir upp úr.

„Það tíðkaðist hvorki að gefa gjafir né að skreyta bæinn hjá okkur. En öll fjölskyldan fór til kirkju. Um kvöldið var svo hápunktur kvöldsins; húslestur. Þá las pabbi upp úr Guðbrandsbiblíunni og sálmar voru sungnir. Foreldrar mínir voru guðhrætt fólk og ólu okkur börnin til að mynda upp í þeirri trú að ef við blótuðum myndum við fá svartan blett á tunguna.

Jólin voru ekki jafn gasalegt húllumhæ þá eins og þau eru í dag. Lífsbaráttan var erfið og við gátum ekki legið með tærnar upp í loftið heilu og hálfu dægrin líkt og ungdómurinn gerir í dag. En ég viðurkenni að það var skemmtilegt að geta gert eitthvað öðruvísi."

MINNA UMSTANG ÁÐUR FYRR

Blaðamaður Jólablaðsins tók á tal Sæunni Kristjánsdóttur eða Sæju, fyrrum umsjónarmann Víðihlíðar. Sæja ólst upp á heimili móðurbróður síns Magnúsar Guðmundssonar og eiginkonu hans Sigríðar Jónsdóttur frá Garðbæ. Hús þeirra hét Austurbær.

„Það var miklu minna umstang í kringum jólin á mínum bernskuárum en þekkist í dag. Fólk hafði minna á milli handanna. En á jólunum var alltaf brotið upp á hversdaginn. Sparimatur var hafður á borðum, t.d. hangikjöt á aðfangadagskvöld. Við gáfum gjafir, en þær komast ekki í hálfkvisti við gjafafargan nútímans. Helst voru þetta nauðsynjar, svo sem einhverjar spjarir.

Að sjálfsögðu sóttum við kirkju. Fósturmóðir mín Sigríður var meðlimur kirkjukórsins sem hvatti okkur enn frekar til að rækta trúna. Kirkjusókn var líka mun almennari á þeim tíma.

Við krakkarnir vorum æst í að skreyta eins og barna er siður. Við bjuggum til kynstrin öll af pappírsmúsastigum sem við hengdum upp um alla veggi. Rafmagn var ekki í húsinu og voru olíulampar notaðir dags daglega til lýsingar. En um jólaleytið tendruðu Magnús og Sigríður jafnan lifandi ljós fyrir okkur. Jólin voru ekki jafn gríðarstór hátíð á þessum árum og þau eru í dag. En við nutum þeirra samt og minningarnar frá þessum tíma eru notalegar og góðar."


Deildu ţessari frétt

AĐRAR FRÉTTIR

Fréttir / 9. apríl 2024

Pistill bćjarstjórnar 9. apríl

Fréttir / 5. apríl 2024

Zimna woda w Grindavík

Fréttir / 3. apríl 2024

Hlúum ađ heilsunni. Ókeypis kostir