?Starfsandinn lyftist upp á hćrra plan viđ ađ hreyfa sig"

  • Fréttir
  • 29. nóvember 2010

„Það skiptir miklu máli hvernig okkur líður saman. Við höfum hist eftir vinnu, farið í göngu saman og á hverjum vetri förum við saman í leikfimi, sem fyrirtækið styrkir okkur til. Þróunarverkefnið okkar með umhyggju og snertingu meðal barnanna hefur líka smitast til starfsfólks," sagði Hulda Jóhannsdóttir, skólastjóri leikskólans Króks í Grindavík, en hún hefur náð þeim einstaka árangri að byggja upp samábyrgð sem hefur orðið til þess að minnka verulega veikindatíðni meðal starfsfólks. Hún er ítarlegu viðtali í Morgunblaðinu í dag.

Í bæði heilsustefnu og grænfánaverkefni er fjallað um mikilvægi kennarans sem fyrirmyndar. Hulda sagði að í fyrstu hefði skólinn strítt við vandamál í starfsmannahaldi, mikið hafi verið um mannabreytingar og veikindi, sem hafði áhrif á starfsandann. Hún ákvað að svona vildi hún ekki hafa þetta. „Ég og aðstoðarleikskólastjórinn settumst yfir þetta og byrjuðum á því að einblína á jákvæð samskipti. Við fengum til okkar fyrirlesara til að fjalla um jákvæð samskipti og vinnusiðferði og við höfum fylgt þessu sjálfar eftir með fyrirlestrum reglulega síðan."

Farið var reglulega yfir starfsmannahandbók á fundum þar sem eru stuttar og hnitmiðaðar lýsingar, t.d. um samskipti, fjölskyldustefnu skólans, reglur, umgengni og starfslýsingar. Hulda sagði þetta lið í góðu upplýsingaflæði til starfsfólks. Það skiptir máli að starfsfólk viti hvernig á að haga sér í vinnunni. Hún segir það mikilvægt að talað sé tæpitungulaust um ábyrgð starfsmanna og að hrósa því sem vel er gert. „Í þessari vinnu settum við okkur markmið um að líta á vandamál sem verkefni til að leysa og að gagnrýni væri tækifæri til að rýna til gagns og breyttum með því neikvæðum viðhorfum í jákvæð."

Starfsandinn á hærra plan
Leikskólinn Krókur er samningsrekinn leikskóli sem rekinn er af einkafyrirtækinu Skólum ehf. Hulda sagðist hafa fengið fyrirtækið til liðs við starfsfólk með þeim hætti að bjóða því 8 vikna líkamsræktarnámskeið á hverjum vetri. Fyrir þann tíma höfðu þær sjálfar búið til hreyfiprógramm þar sem starfsfólk fór saman í göngutúra, hittist í húsakynnum leikskólans með hreyfingu á myndbandsspólum og tók þátt í heilsuátaki Lýðheilsustöðvar á landsvísu.

„Við vorum ekki lengi að finna það að starfsandinn lyftist á hærra plan við að hreyfa sig. Á milli áranna 2003 og 2004 fækkaði veikindadögum svo um munaði og hefur fækkað jafnt og þétt síðan þá. Í dag býður fyrirtækið starfsfólki að fara í líkamsræktarstöð og til að koma á móts við sem flesta fengum við jógakennara til að koma tvisvar í viku í sal leikskólans sem við greiðum sjálfar."

Framúrskarandi stundvísi
Hulda sagði ekki síður mikilvægt að gera vel við starfsfólk og sagði í því sambandi að kraftmikil stjórnun skapi verðmæti sem í þeirra tilfelli liggur bæði í framúrskarandi stundvísi starfsfólks og fagmennsku. „Ég hef lagt á það áherslu að styðja við mitt starfsfólk, t.d. þegar það þarf að koma með börn sín í vinnuna eða fá leyfi til að sinna foreldrasamstarfi við skóla þeirra. Við höfum ávallt verið með hollt kaffimeðlæti og boðið starfsfólki upp á ávexti. Allt þetta tel ég skipta sköpum um líðan starfsfólks sem skilar sér í stundvísi og sterkri ábyrgðartilfinningu. Ég hef einnig hvatt ófaglært starfsfólk til að afla sér frekari menntunar. Faglærðu starfsfólki hefur fjölgað um átta á þessum 10 árum, þar af hafa sex farið í fjarnám með vinnu hér og lokið leikskólakennaranámi. Leiðbeinendur sem starfa við skólann hafa rúmlega 6 ára starfsreynslu að meðaltali og hafa á þessum tíma sótt ýmis námskeið um starfshætti í leikskóla og hafa víðtæka reynslu," sagði Hulda að lokum.

Viðtal: Morgunblaðið. Mynd: Frá heimsókn starfsfólks Króks til Svíþjóðar.


Deildu ţessari frétt

AĐRAR FRÉTTIR

Fréttir / 9. apríl 2024

Pistill bćjarstjórnar 9. apríl

Fréttir / 5. apríl 2024

Zimna woda w Grindavík

Fréttir / 3. apríl 2024

Hlúum ađ heilsunni. Ókeypis kostir