Hvarflađi aldrei ađ okkur ađ gefast upp

  • Fréttir
  • 20. október 2010

Tvær grindvískar hlaupakonur, Christine Buchholz og Anna Sigríður Sigurjónsdóttir náðu frábærum árangri í ofurmaraþonhlaupi á Spáni sem fram fór í byrjun október. Vegalengdin sem þær hlupu er hvorki meira né minna en 100 km og tókst þeim báðum að klára hlaupið sem er mikið afrek út af fyrir sig. Heimasíðan ræddi við Christine og Önnu Sigríði um þetta ótrúlega afrek.

Christine hljóp vegalengdina á fjórtán og hálfri klukkustund og Anna Sigríður á tæpri sextán og hálfri.

Hlaupið nefnist Madrid-Segovia hlaupið en hlaupið er á milli samnefndra borga. Þær voru á meðal tíu efstu í kvennaflokki sem sýnir hversu góður árangur þetta er.

Chrstine kemur í mark eftir 100 km

Anna og Christine ákváðu fljótlega upp úr áramótum að takast á við þetta ofurmaraþon og voru meðal þeirra fyrstu sem skráðu sig í hlaupið enda fengu þær númerin 5 og 6, þar með hófst undirbúningurinn. Þær voru með fjarþjálfara sem heitir Daníel Smári Guðmundsson en hann sendi þeim vikulega prógramm. Daníel Smári nefndi að eina vandamálið við þær stöllur væri að bremsa þær af.

Anna: „Síðastliðið vor byrjuðum við að lengja hlaupin, við fórum meðal annars hluta af Reykjaveginum í nokkrum áföngum. Í raun og veru var það ekki fyrr en eftir mitt sumar sem ég fór verulega að bæta við, þ.e.a.s. lengja löngu rólegu hlaupin. Tók þátt í nokkrum utanvegahlaupum eins og Jökulsárhlaupinu og Barðsneshlaupinu. Einnig hljóp ég Reykjavíkurmaraþon og hjólaði Bláa lóns hjólreiðakeppnina, hjólið hef ég notað töluvert með hlaupunum vegna þess að mér finns mjög gaman að hjóla og góð leið til að dreifa álaginu. Það gengur ágætlega að smita Christine af hjólabakteríunni. Ég notaði skráningu í 100 km hlaupið sem gulrót til að byggja mig upp eftir erfiða krabbameinsmeðferð."

Anna með Sólveigu við markið.

Christine: „Ég var skráð í Laugavegshlaupið (55km), æfði markvisst fyrir það, ca. 60-80 km á viku á ca. 4 æfingum, (3 æfingar ca.1 tími og 1 æfing 3-4 tímar). Allar þessar æfingar voru utan vega eins og við Þorbjörn og þessa frábæru stíga og slóða í kringum Grindavík og nágrenni. Eins og Anna tók ég þátt í nokkrum löngum keppnishlaupum sem æfingu eins og 7 tinda hlaupið, Jökulsárhlaupið og Reykjavíkurmaraþon."

Þær æfðu samviskusamlega að hlaupa með bakpoka og gott nesti. Í byrjun september voru 3 æfingar í viku, 3-5 tímar hver æfing. Punkturinn yfir i-ið var lokaæfingin sem tók 9 tíma! Þær hjóluðu fyrst í Hafnir og tilbaka en það tók ca. 3 tíma, hlupu síðan frá Grindavík með suðurströndinni; Vigdísarvellir, Sogið, Höskuldavellir og Keilisafleggjara út að Reykjanesbraut, ca. 6 tímar, í frábæru íslensku haustveðri. Þær segjast líka mjög heppnar að eiga góðar vinkonur sem hlaupa með þeim og kjafta stanslaust. Þær kallast Majurnar og eru kennarar. Gamla klisjan með skynsamlegt mataræði, fjölbreytt og hollt, er bara sannleikur og borða þær mjög sjaldan eitthvað ruslfæði, sjálfsagi er í öllu þessu hreint út sagt það mikilvægasta.

Þið fóruð út hálfum mánuði fyrir hlaupið. Hvernig undirbjugguð þið þennan lokasprett fyrir hlaupið?
„Í sjálfu sér var undirbúningi lokið fyrir hlaupið og í raun hefðum við átt að hvíla. En við freistuðumst til að skrá okkur í fjallaæfingabúðir einnig með það fyrir augum að venjast hitanum. Þetta var ógleymanleg vika í stórkostlegu landslagi með frábæru fólki."

- Lýsið hlaupinu sjálfu, hvernig það gekk fyrir sig?
„Snemma morguns vorum við mættar á torgið Plaza Castillla, með Ester mömmu Christine, og Sólveigu. Þar sem þetta er hluti af Jakobsveginum fræga vorum við með Jakobsvegabréf og fengum við þar fyrsta stimpilinn af 13, það var mjög mikilvægt að fá stimplana á öllum drykkjarstöðvum, í lok hlaups varð maður að sýna vegabréfið sem sönnum fyrir því að þú laukst öllum áföngum. Öll hersýningin gekk rösklega (nema Ester og Sólveig þurftu að hlaupa við fót) fyrstu 4 km í lögreglufylgd að borgarmörkum, þar sem hið eiginlega 100 km hlaup var ræst. Við pössuðum okkur á að byrja rólega, dagurinn leið áfram eins og í draumi, stöðugt nýtt að upplifa varðandi landslag og dýralíf. Meðal annars nautgripir með bjöllur og geitur á beit, falleg þorp, skógar og fjöll.

Hitinn var um 30 gráður yfir daginn og 15 um nóttina og leið okkur vel með það, hvorki of heitt né of kalt. Af því að við byrjum rólega og áttum nóg inni tókum við eftir því að síðustu 40 km fórum við fram úr mjög mörgum en enginn fram úr okkur. Flestir hlaupararnir voru Spánverjar og fáir töluðu ensku en allir voru þeir afslappaðir og elskulegir eins og þeim einum er lagið. Drykkjarstöðvar til fyrirmyndar, nóg að bíta og brenna, heitur matur meðal annars á tveimur stöðum, bakpokinn þar af leiðandi of þungur með óþarfa mat. Starfsfólk og sjálfboðaliðar mjög elskulegir og hjálpsamir. Mikil upplifun að hlaupa einn í myrkrinu, það var oft langt á milli hlaupara, horfa upp í stjörnubjartan himinn og heyra í skordýrunum og kúabjöllunum. Christine sá rándýrsaugu og þegar nær var komið var þetta eitthvert kattadýr."

- Hvað var erfiðast í hlaupinu?
„Okkar upplifun var langt því frá að þetta væri erfitt."

- Kom eitthvað upp á í hlaupinu?
Anna: „Smá núningsár sem varla tekur að nefna."
Christine: „Blöðrur á fótum sem ég hefði auðveldlega getað fyrirbyggt."

- Voruð þið á einhverjum tímapunkti komnar að því að gefast upp?
„Næsta spurning takk, grínlaust það hvarflaði aldrei að okkur."

Hvernig var svo að komast í mark?
„Algjört æði, gaman að sjá Sólveigu, Ester og Kidda við markið og fagnaðarlæti áhorfenda.
Og ekki leiðinlegt að fá koss og faðmalag frá aðalskipuleggjanda hlaupsins."

- Hvað tekur svo við hjá ykkur, hvað er næsta markmið?
„Við stefnum á fimm daga hlaup, 216 km á Spáni í júlí næst sumar. Fyrir áhugasam þá heitir hlaupið Al Andalus Ultra Trail, þar vorum við í æfingabúðunum og hlupum við þar hluta af þeirri leið. En við eigum örugglega eftir að gera ýmislegt á næstu mánuðum."

- Eitthvað að lokum?
Christine: „Mig langar að þakka mínum nánustu stuðninginn og sérstaklega Pálma fyrir skilning á svona tímafreku áhugamáli því oft hefur þetta forgang fyrir ýmsu, annars næði maður ekki þessum árangri. Þetta væri vonlaust með fúlan maka."

Anna: „Mig langar að þakka Sólveigu minni fyrir stuðninginn og áhugann, ómetanlegt að hafa hana með í ferðinni. Og ekki síst vil ég þakka mínum hlaupavinkonum allan móralskan stuðning, þær biðu eftir mér þegar ég silaðist áfram fyrstu skrefin. Að klára þetta hlaup var stórkostlegur sigur fyrir mig. „Yes"

Eins og áður segir er afrek Christine og Önnu Sigríður einstakt því þær hlutu tæplega tvö og hálft maraþon. Allt þarf að ganga upp. Til að setja þetta í samhengi þá eru þær núna orðnar meðlimir í félagi 100 km hlaupara á Íslandi. Þeir eru núna aðeins 30 og þar af aðeins tvær aðrar konur aðrar konur, Bryndís Baldursdóttir og Elín Reed.


Deildu ţessari frétt

AĐRAR FRÉTTIR

Fréttir / 9. apríl 2024

Pistill bćjarstjórnar 9. apríl

Fréttir / 5. apríl 2024

Zimna woda w Grindavík

Fréttir / 3. apríl 2024

Hlúum ađ heilsunni. Ókeypis kostir