Mikil áhersla á varnarleikinn

  • Fréttir
  • 17. október 2010

Gulldrengur körfuboltans í Grindavík, Helgi Jónas Guðfinnsson, tók við stjórnartaumum í Grindavíkurliðinu í vor eftir að Friðrik Ragnarsson hætti störfum. Þetta er frumraun hans í þjálfun en Helgi Jónas þekkir þessa íþrótt út og inn enda hokinn af reynslu sem margreyndur landsliðsmaður og atvinnumaður.  Grindavík hefur byrjað vel undir hans stjórn og hefur unnið þrjá fyrstu leikina.

Helgi Jónas er fæddur 1976. Hann lék sitt fyrsta tímabil með Grindavík 1992-1993 og varð Íslandsmeistari með liðinu 1995. Síðan bættust bikarmeistaratitlar í safnið og hann var lykilmaður liðsins. Sem leikmaður lék hann 190 leiki með Grindavík, skoraði 2695 stig og þriggja stiga nýting hans var ekkert slor eða 38,5%.

Síðari ár hefur Helgi Jónas haslað sér völl sem einkaþjálfari og kennari í líkams- og heilsurækt, það var hins vegar ekki á dagskrá að fara út í þjálfun.

,,Það blundaði í mér þegar ég var yngri að fara út í þjálfun seinna meir. En segja má að þær hugmyndir hafi svo fjarað út. En þegar mér bauðst að taka meistaraflokkinn núna ákvað að ég að slá til og sjá hvort þjálfun eigi við mig. Það hjálpar mér auðvitað gríðarlega að hafa starfað við einstaklingsþjálfun undanfarin ár og nýtist mér vel í þessu starfi," segir Helgi Jónas sem hefur aðallega lært sín þjálfarafræði í Bandaríkjunum og hann hefur m.a. kynnt sér þjálfunaraðferðir hjá NBA liðum.

 - En hvers konar þjálfari er þú?

,,Ég veit það eiginlega ekki. Það er erfitt fyrir mig að svara því enda komin lítil reynsla á það. Ég er rétt að byrja."

Helgi Jónas er hins vegar með nokkuð skýra hugmyndafræði hvernig hann vill spila körfubolta. Hann var mest áberandi í sóknarleik Grindavíkurliðsins á sínum tíma og því kemur nokkuð á óvart hann hefur eytt mestu púðri í varnarleikinn á undirbúningstímabilinu.

 ,,Já, ég vildi bæta varnarleikinn og koma betra skipulagi á hann. Það tekur sinn tíma að endurskipuleggja hann en segja má að við séum að byggja hann upp frá grunni, án þess að ég ætli að ljóstra upp leyndarmálinu þar á bak við. Mesti tíminn hefur farið í þessa vinnu en er það ekki sammerkt með flestum hópíþróttum að góður varnarleikur er grunnuriunn að góðum árangri?" spyr Helgi Jónas. Það þarf auðvitað engan geimvísindamann til að finna svarið við því.

Töluverðar breytingar urðu á leikmannahópi Grindavíkurliðsins fyrir mótið. Liðið missti tvo máttarstólpa, Arnar Freyr Jónsson og Brenton Birmingham og þá er Þorleifur Ólafsson meiddur í hásin og nýbyrjaður að æfa en ætti að geta komið inn af fullum krafti þegar líður á veturinn. Grindavík hefur fengið sér nýjan Kana og svo annan með ítalskt vegabréf. Helgi Jónas segir að strákarnir hafi staðið sig vel á undirbúningstímabilinu og mæti vel undirbúnir til leiks en auðvitað taki sinn tíma að púsla saman liðinu eftir þessar breytingar.

En er Helgi Jónas nokkuð að gleyma sóknarleiknum?

,,Nei. Ég mun auka áhersluna á hann eftir því sem líður á og við náum betri tökum á varnarleiknum. Ég vil halda uppi hraðanum í sókninni en engu að síður getað stjórnað leiknum og það hefur gengið þokkalega," sagði Helgi Jónas.

Viðtalið í heild við Helga Jónas verður birt í leikskrá körfuknattleiksdeildarinnar sem kemur út í vikunni.


Deildu ţessari frétt

AĐRAR FRÉTTIR

Fréttir / 9. apríl 2024

Pistill bćjarstjórnar 9. apríl

Fréttir / 5. apríl 2024

Zimna woda w Grindavík

Fréttir / 3. apríl 2024

Hlúum ađ heilsunni. Ókeypis kostir