Golfklúbbur Grindavíkur hugsar til hins almenna kylfings

  • Fréttir
  • 27. september 2010

Í Fréttablaðinu var fjallað um stækkun Húsatóftavallar fyrir skömmu undir fyrirsögninni ,,Golfklúbbur Grindavíkur hugsar til hins almenna kylfings." Þar er viðtal við Pál Erlingsson formann GG og segir m.a. í fréttinni.  ,,Rífandi gangur" er í stækkun á Húsatóftavelli við Grindavík sem verður 18 holur. Formaður Golfklúbbs Grindavíkur segir stækkunina til að mæta þörfum félagsmanna en vonast til að höfða til kylfinga af höfuðborgarsvæðinu.

Miklar framkvæmdir hafa verið við Húsatóftavöll í Grindavík upp á síðkastið þar sem verið er að stækka völlinn upp í fullgildan 18 holu völl. Vinna hefur gengið afar vel og er vonast til að hægt verði að opna völlinn árið 2012.

Nú er búið að ryðja út þær fimm brautir sem bætt var við og sá í bæði brautir og flatir.

"Það er ekkert hálfkák í íþróttamálum hér í Grindavík og það er búinn að vera rífandi gangur í þessu í sumar," segir Páll Erlingsson, formaður Golfklúbbs Grindavíkur. Hann vill þakka sérlega vallarstjóranum Bjarna Þór Hannesssyni fyrir skörulega framgöngu, en einnig bæjaryfirvöldum sem hafa styrkt verkefnið myndarlega.

Húsatóftavöllur liggur skammt utan við bæjarmörk Grindavíkur og var lengst af níu holur. Fjórum holum var svo bætt við í tilefni af 20 ára afmæli klúbbsins 2001 og segir Páll að vonast sé til að völlurinn verði búinn að taka sig nógu vel næsta sumar svo að hægt verði að taka forskot á sæluna og halda þar 30 ára afmælismót.

"Því það er með ólíkindum hvað þetta hefur gróið vel. Þetta er líka mjög næringarríkur jarðvegur."

Hönnun nýju brautanna var í höndum Hannesar Þorsteinssonar, sem sá líka um síðustu stækkun.

Páll segir að þrátt fyrir að vera komnir með fullgildan 18 holu völl sé stefnan ekki sú að fá þangað stór mót.

"Við erum frekar að hugsa um hinn almenna kylfing sem getur komist úr ys og þys borgarinnar hingað í sveitasælu í frábæru umhverfi. Spilað sitt golf í rólegheitum og átt góðan dag. Svo er þetta líka auðvitað til að þjóna okkar félagsmönnum betur."

Páll segir augljóst að vellir á höfuðborgarsvæðinu séu sprungnir. Erfitt sé að fá rástíma og Húsatóftavöllur geti verið góður valkostur í þeim efnum. Leiðin sé styttri en margan grunar. "Það er til dæmis styttra til Grindavíkur en inn í Leiru."

Sérstaða vallarins liggur í umhverfinu, segir Páll. "Við erum hér, innan þessara 18 brauta, í raun með þrjá velli. Við erum með strandvöll, almennan túnvöll og svo með hraunvöll."

Völlurinn sé auk þess ekki mjög langur og eigi að henta öllum.

"Við lítum á það þannig að fólk komi hingað og eigi góðan dag, skori misjafnlega eins og gengur, en fari með þá tilfinningu að hafa átt góðan dag."


Deildu ţessari frétt

AĐRAR FRÉTTIR

Fréttir / 9. apríl 2024

Pistill bćjarstjórnar 9. apríl

Fréttir / 5. apríl 2024

Zimna woda w Grindavík

Fréttir / 3. apríl 2024

Hlúum ađ heilsunni. Ókeypis kostir