Kvennahlaup ÍSÍ á laugardaginn

  • Fréttir
  • 15. júní 2010

21. Sjóvá Kvennahlaup ÍSÍ fer fram á sjálfan kvenréttindadaginn 19. júní nk. Það er því við hæfi að tileinka hlaupið í ár krafti og elju íslenskra kvenfélaga. Að vanda verður hlaupið frá Sundlaug Grindavíkur kl. 11:00. Vegalengdir í boði: 5 km og 7 km. Forskráning í sundlauginni.

Bolurinn í ár er appelsínugulur úr "dry fit" gæðaefni og er með V-hálsmáli.  Skráningagjald er 1.250 krónur, bolur og verðlaunapeningur innifalinn. Verðinu er eins og áður stillt mjög í hóf til að gera sem flestum mögulegt að taka þátt. Fyrsta Kvennahlaup ÍSÍ var haldið 30. júní árið 1990.  

Með samstöðu, áræðni og dugnaði hafa kvenfélagskonur á Íslandi hrint í framkvæmd fjölmörgum framfara- og velferðamálum fyrir samfélagið. Fyrir 80 árum stofnuðu þær Kvenfélagasamband Íslands, KÍ, sem sameiningar og samstafsvettvang kvenfélaganna í landinu. Undir merkjum KÍ starfa þúsundir kvenna á öllum aldri og mynda þannig keðju góðra verka og vináttu.

Kvenfélagasamband Íslands, KÍ, var stofnað þann 1. febrúar 1930.  Markmiðið með stofnun Kvenfélagasambandsins var að sameina kvenfélög landsins í eina heild. Innan KÍ eru 18 héraðs- og svæðasambönd með um 200 kvenfélög innanborðs.

Fyrir utan fjölmörg samfélagsleg og mannúðarverkefni hefur Kvenfélagasambandið gefið út tímaritið Húsfreyjuna frá árinu 1949. Tímaritið er þar með eitt elsta útgefna tímarit landsins. KÍ rekur einnig Leiðbeiningarstöð heimilanna þar sem fólk getur leitað ráða í sambandi við allt mögulegt sem snertir rekstur heimilis og fjölskyldu.

Samfélag okkar væri snauðara ef kvenfélaganna nyti ekki við. Við hvetjum konur á öllum aldri til að kynna sér og taka þátt í gefandi starfi félaganna.


Deildu ţessari frétt

AĐRAR FRÉTTIR

Fréttir / 9. apríl 2024

Pistill bćjarstjórnar 9. apríl

Fréttir / 5. apríl 2024

Zimna woda w Grindavík

Fréttir / 3. apríl 2024

Hlúum ađ heilsunni. Ókeypis kostir