Ađ losa um höftin

  • Fréttir
  • 18. maí 2010
Ađ losa um höftin

Tólf myndlistakonur voru á námskeiði á myndlistastofu Helgu Kristjánsdóttur í Grindavík í síðustu viku þar sem kennarinn kom frá Úkraínu, Serhiy Savchenko að nafni. Að sögn Helgu sá hún myndirnar hans fyrst í galleríi í Danmörku og varð svo hrifin að hún bauð honum að koma til Grindavíkur og halda námskeið og smalaði hún saman 12 konum.

,,Hann kenndi okkur nýja blandaða tækni sem felst í því að nota spónarplötur, trélím, matarlím, spasl, duftliti og fleira sem við pússuðum niður með sandpappír og máluðum yfir. Þannig verður yfirborðið hrjúft. Þetta er mjög spennandi. Jafnframt kenndi hann okkur blöndun lita og að losa um höftin og það var skemmtileg lífsreynsla," segir Helga.

Sá úkraínski lagði áherslu á að listamaðurinn festist ekki í sínu formi og reyni að þroskast með því að losa um höftin og segir Helga að það hafi fengið konurnar til þess að hugsa málin upp á nýtt.

Hópurinn fór einnig í Bót og málaði þar. Savchenko kenndi þeim að mála með þremur litum, jörð, haf og himinn. Að sögn Helgu var hann ánægður með heimsóknina og stefnir hann að því að koma til Íslands næsta sumar og mála hér í viku.

Þess má geta að Helga opnar sjálf málverkasýningu í Saltfisksetrinu á Sjóaranum síkáta.

Á efstu myndinni eru Savchenko og Helga.

Deildu ţessari frétt