Um Grindavík

  • Grindavíkurbćr
  • 23. apríl 2021

Grindavík er rótgróinn sjávarútvegsbær á sunnanverðum Reykjanesskaga. Helsta einkenni skagans er einstök náttúra og fjölskrúðugt landslag sem einkennist af flekaskilum Evrasíuflekans og Norður-Ameríkuflekans. Þá einkennist svæðið af mikilli orku og nálægð við hrá náttúruöflin. Reykjanesskaginn er um ýmis atriði sérstakt land í jarðfræðilegu tilliti. Hann er allur myndaður af jarðeldi og það á tiltölulega stuttum tíma. Jarðhiti er mikill og víða á skaganum eru mikil not af þessari ómetanlegu auðlind. Grindavíkurhöfn hefur lengi verið í hópi þeirra 4 - 5 hafna sem mestum afla skila á land á hverju ári. Grindavík er einn öflugasti útgerðarbær landsins með fjölda báta og togara og sterkum sjávarútvegsfyrirtækjum.

Fyrr á öldum

Landnámsmenn í Grindavíkurhreppi voru tveir: Molda-Gnúpur Hrólfsson, er nam Grindavík, og Þórir haustmyrkir Vígbjóðsson, er nam Selvog og Krýsuvík. Erfitt er að ársetja landnám Grindavíkur nákvæmlega en talið að Gnúpur, eða ættmenn hans, hafi komið til Grindavíkur á fjórða tug 10.aldar og líklega valið sér vetursetu í námunda við Hópið.

Eitt af því sem helst einkenndi gerð og þróun byggðar í Grindavík allt fram á síðustu öld var skipting hennar í þrjú hverfi: Staðarhverfi, Járngerðarstaðahverfi og Þórkötlustaðahverfi. Margt er á huldu um aldur og upphaf hverfanna en sitthvað bendir til þess að rekja megi hverfaskiptinguna allt aftur undir landnámsöld. Þetta voru þrír hreppshlutar og milli þeirra voru engin lögákveðin hverfamörk.

Engar óyggjandi heimildir eru tiltækar um mannfjölda í Grindavík fyrir 1703 en það ár voru íbúar 214 á 33 heimilum. Fólki fækkaði verulega á næstu árum vegna stóru bólu og ýmissa harðinda.

Um Jónsmessuleytið 1627 varð sá atburður, sem lengi var Grindvíkingum minnisstæður og setti mikinn svip á allt líf fólks í víkinni næstu árin. Þetta var Tyrkjaránið svonefnda, strandhögg sjóvíkinga sunnan úr Alsír en eitt af fjórum skipum þeirra bar að landi í Grindavík hinn 20. júní. Aldrei hefur orðið fullljóst hversu mörgu fólki „Tyrkir" rændu en líklega voru þeir um 12.

Grindavíkurland þótti ákaflega hrjóstrugt og grýtt og gerði vatnsleysi mörgum erfitt fyrir. Náttúruöflin léku bændur í Grindavíkurhreppi oft á tíðum grátt. Grindvíkingar voru drjúgir með aðdrætti af lyngi og hrísi til heydrýginda og þannig gátu bændur að nokkru bætt sér upp grasleysi og skort á góðum bithögum. Bændur gáfu kúnum söl, sem dæmi. Seljabúskapur skipti miklu fyrir afkomu fólksins í sveitinni en talið að hann hafi verið stundaður frá miðöldum, jafnvel allt frá landnámsöld. Örnefni í Grindavíkurhreppi er benda til selfara eru vafalaust ævaforn. Fjörunytjar voru góð búbót eins og sölvi, þang, fjörugrös ýmiss konar er nýtt voru til manneldis og skepnufóðurs, marhálmur, slý, skelfiskur, fjörumaðkur, hrognkelsi í pollum, sel í látrum o.fl.

Sjávarútvegur 

En Grindavík var fyrst og fremst verstöð, sjávarútvegur hefur lengstum verið höfuðatvinnuvegur Grindvíkinga sem smíðuðu báta af rekaviði fram yfir 1500. Einkum var róið til fiskjar til að afla soðmetis. Vinnubrögð, siðir og venjur sem sjósókninni tengdust voru með líkum hætti og tíðkast hafði um aldir og á landi var einnig flest í sömu skorðum árhundrað eftir árhundrað. Þannig hélst þetta framundir aldamótin 1900 en þá voru íbúar 357 talsins. Þá tók fólki Grindavík að fjölga, ný hús risu af grunni, þar sem engin höfðu áður staðið, þorp tók að myndast, akfærir vegir voru lagðir til Grindavíkur, fólkið fór að stofna félög og samtök til að létta sér lífsbaráttuna og átökin við náttúruöflin. Dugmiklir aðilar réðust í framkvæmdir sem skiptu sköpum fyrir þróun byggðarlagsins, atvinnulífið tók kipp, fólkinu fjölgaði enn meira, enn fleiri hús voru reist og ýmiss konar nútímaþægindi urðu sjálfsögð. Nú er risinn í Grindavík myndarlegur bær sem eftir er tekið. 

Sjávarútvegur og fiskvinnsla hefur lengstum verið burðarás atvinnulífs í Grindavík og bærinn er einhver öflugasta verstöð landsins. Að meðaltali hefur þar verið landað hartnær 40.000 tonnum á ári undanfarin ár og þar er uppistaðan bolfiskur. Úthlutað aflamark Grindavíkurhafnar er það næsthæsta á landinu, næst á eftir Reykjavíkurhöfn. Útgerðar- og fiskvinnslufyrirtækin Þorbjörn og Vísir eru ekki aðeins með þeim öflugustu hérlendis, heldur einnig á sinn hátt til eftirbreytni ýmsum öðrum þjóðum hvað varðar nýtingu á hráefninu. Þau hafa sýnt mikið frumkvæði í því að fullnýta allan fisk sem að landi kemur og er það til fyrirmyndar. Fiskeldi á landi er einnig mikil í Grindvík og uppi eru áform um stóraukna framleiðslu á næstu árum. 

Upphaf kaupstaðarins sem nú stendur má rekja til þess að Einar Einarsson í Garðhúsum hóf verslun í húsi sem hann byggði árið 1897 í Járngerðarstaðarhverfi. 1939 var grafið skipalægi inn í Hópið og upp úr 1950 hófst alvöru hafnargerð. Grindavík fékk kaupstaðarréttindi 1974. Þá voru íbúar um 1.600. Síðan hefur bærinn vaxið og dafnað jafnt og þétt. Í ársbyrjun 2010 voru íbúarnir 2.837 og réttum 10 árum síðar voru þeir 3.512. Fjölgunin var því 23,8% á þessum áratug. 

Ferðaþjónusta

Í Grindavík er mjög öflug ferðaþjónusta og ber þar hæst Bláa Lónið í útjaðri bæjarins sem er einn vinsælasti viðkomustaður ferðamanna á Íslandi, enda tilvalið að slaka á í ylvolgu lóninu en lækningamáttur þess hefur reynst vel á ýmsa húðkvilla. Kvikan, menningarhús Grindavíkur, er tilvalið fyrir ferðamanninn að stoppa og kynna sér sögu saltfiskverkunnar í gegnum tíðina. Þar má líka skoða Guðbergsstofu en þar má finna helstu verk Grindavíkurskáldsins Guðbergs Bergssonar. 

Ferðamenn sækjast eftir stórkostlegri náttúru svæðisins og þeirri hrjúfu fegurð sem Reykjanesið býr yfir. Grindavíkurbær er aðili að Reykjanes jarðvangi og er þar með aðili að UNESCO Global Geoparks. Jarðvangurinn er samstarfsvettvangur allra sveitarfélaganna á Suðurnesjum sem byggir á því að nýta sérstöðu svæðisins til verðmætasköpunar.  Í bæjarfélaginu eru hágæða veitinga- og gistihús, fjölbreyttir afþreyingarmöguleikar, listrænt handverksfólk, fyrirtaks 18 holu golfvöllur og glæsilegt tjaldsvæði sem margir telja eitt það besta á landinu. HS Orka rekur jarðvarmaver í Svartsengi við Grindavík og hefur byggt upp auðlindagarð í grenndinni sem er einstakur á heimsvísu. Meðal fyrirtækja sem njóta góðs af starfseminni má nefna Bláa Lónið, snyrtivöruframleiðendur, auk líftækni- og fiskeldisfyrirtækja. 

Í Grindavík eru mörg veitingahús, gistihús, hótel og fjögurra stjörnu tjaldstæði, góð útisundlaug með heitum pottum, heilsuræktarmiðstöð, verslanir, bankar, bílaleigur og öll nauðsynleg þjónusta. Margt er hægt að gera sér til afþreyingar. Hér er fjórhjólaævintýri, eldfjallaferðir og hestaleiga. Við mælum með ferðavef bæjarins, Visit grindavík.

Margar merktar gönguleiðir eru í nágrenni Grindavíkur fyrir þá sem hafa gaman af göngu í fallegu og stórbrotnu landslagi. Í klettunum meðfram ströndinni á Reykjanestá er mjög fjölbreytt fuglalíf. Þaðan er gott útsýni að Eldey en þar er einmitt mesta súlubyggð í heimi. Einnig er margt að skoða með ströndinni og tilvalið að ganga fjörurnar út frá höfninni.

Skólastarf

Skólastarf í Grindavík er blómlegt. Grunnskóli Grindavíkur er heildstæður skóli sem byggir á Uppbyggingarstefnunni. Skólinn er rekinn í tveimur byggingum. Í húsnæði við Suðurhóp er 1. til 3. bekkur en í húsnæði við Ásabraut er 4. til 10. bekkur. Hafnar eru framkvæmdir við umtalsverða stækkun skólans við Suðurhóp. Leiðarljós skólans er að skapa þannig umhverfi, í samráði við foreldra, þar sem allir eru virkir, að öllum líði vel og allir læri að bera virðingu fyrir sjálfum sér og umhverfi sínu. Frá skólanum fari einstaklingar sem eru tilbúnir til þess að takast á við eigin framtíð.

Tónlistarskóli Grindvíkur er í nýlegri og rúmgóðri viðbyggingu við grunnskólann og þar er einnig sameinað almennings- og skólabókasafn bæjarfélagsins. Auk framangreindrar starfsemi er félagsmiðstöðin Þruman með aðsetur í skólanum þar sem fram fer skipulögð félags- og tómstundastarfsemi fyrir börn og ungmenni. Fisktækniskóli Íslands er staðsettur í Grindavík. Skólinn var settur á laggirnar 2009 og starfar á grundvelli laga um framhaldsskóla og framhaldsfræðslu. Starfseminni hefur vaxið fiskur um hrygg síðan þá og er nú öflug menntastofnun á sínu sviði. 

Í Grindavík eru tveir leikskólar, Laut og Krókur. Leikskólinn Laut er rekinn af bæjarfélaginu. Uppbyggingarstefnan er uppeldisaðferð Lautar og sérstaða skólans liggur í umhverfinu og nálægðinni við náttúruna. Leiðarljós Lautar er gleði, hlýja og virðing. Heilsuskólinn Krókur er rekinn af Skólum ehf. í samvinnu við Grindavíkurbæ. Leikskólinn starfar eftir hugmyndafræði Heilsustefnunnar en markmið hennar er að stuðla að heilsueflingu leikskólasamfélagsins með áherslu á næringu, hreyfingu og listsköpun í leik.

Íþróttalífið

Íþróttalífið í Grindavík er geysilega öflugt og mjög vel hlúð að barna- og unglingastarfi með því að bjóða upp ódýr kort sem börn og unglingar geta notað til að stunda hvaða íþrótt sem er, eina eða fleiri. Körfubolti og fótbolti hafa lengi verið mjög sterkar keppnisíþróttir í Grindavík og nú hafa grindvískir pílukastarar skipað sér í raðir þeirra bestu á landsvísu. 

Að stofni til eru íþróttamannvirkin frá 1985. Það ár var tekin í notkun bygging með tveimur íþróttasölum auk búningsklefa og annars rýmis. Sundlaug Grindavíkur var tekin notkun 1994. Auk útisundlaugar er þar barnalaug, heitir og kaldir pottar, gufubað, rennibraut og líkamsræktarstöð. Nýr og glæsilegur aðalleikvangur með 1500 manna stúku var vígður 17. júní 2001 en völlurinn er 72x105 m. Gamli aðalvöllurinn er notaður sem æfinga- og keppnissvæði. Fjölnota knattspyrnuhús var vígt 2009. Húsið ber nafnið Hópið og er 50 x 70 metra stálgrindarhús með nýjustu kynslóð gervigrass og 60 metra hlaupabraut. Árið 2015 var byggð rúmgóð félags- og íþróttaaðstaða við íþróttamiðstöðina sem ber nafnið Gjáin. Enn var bætt um betur með því að árið 2020 var tekið í notkun nýtt og glæsilegt 2.130 m² fjölnota íþróttahús. 

Menningarlífið

Í Grindavík er öflugt menningar- og listalíf. Kvikan, auðlinda- og menningarhús Grindavíkur er sérhannað sýningarhús í eigu bæjarfélagsins. Þar er að finna þrjár sýningar um auðlindir í Grindavík; Saltfisksetur Íslands, Jarðorkuna og Guðbergsstofu. Í húsinu fara fram ýmsir menningarviðburðir og minni sýningar og þar er upplýsingamiðstöð fyrir ferðamenn. Sjómannadagurinn er stærsti viðburður ársins í Grindavík en þá er haldin sjómanna- og fjölskylduhátíðin Sjóarinn síkáti. Þar er fjölbreytt dagskrá alla sjómannadagshelgina, en hátíðin hefur fest sig í sessi sem ein skemmtilegasta og fjölbreyttasta bæjarhátíð landsins. Blásið er til mikillar menningarveislu í mars ár hvert. Dagskráin er fjölbreytt og að miklu leyti haldið uppi af grindvískum listamönnum á öllum aldri. Í bæjarfélaginu eru starfræktir kórar og tónlistarfólk af ýmsum toga auðgar menningarlíf bæjarbúa. 

 

Textinn hér að ofan er að hluta unninn uppúr bókunum Saga Grindavíkur, en Minja- og sögufélag Grindavíkur hefur þær bækur til sölu fyrir áhugasama. Ítarefni um sögu Grindavíkur, náttúru og aðrar minjar má finna á glæsilegri vefsíðu FERLIRs.

 


Deildu ţessari frétt

AĐRAR SÍĐUR