Föstutónleikaröđin - Hörđur og Inga Rós í Grindavíkurkirkju

  • Fréttir
  • 22. febrúar 2010

„Föstutónleikaröðin: Leyndardómur trúarinnar" hófst síðasta miðvikudag í Grindavíkurkirkju og heldur áfram út mars. Næsta miðvikudag verður sannkölluð veisla þegar Hörður Áskellsson organisti og Inga Rós Ingólfsdóttir sellóleikari leika verk eftir J.S. Bach, Kirchner og Saint-Saëns í Grinadvíkurkirkju kl. 20.

Aðgangseyrir er 1.000 kr. og eru allir velkomnir.

Hörður Áskelsson hefur verið organisti og kantor Hallgrímskirkju í Reykjavík allt frá því hann sneri aftur til Íslands að loknu framhaldsnámi í Düsseldorf í Þýskalandi árið 1982. Hann hefur gegnt lykilhlutverki í uppbyggingu listalífs Hallgrímskirkju, stofnaði Listvinafélag Hallgrímskirkju og Mótettukór Hallgrímskirkju árið sem hann kom til starfa og kammerkórinn Schola cantorum árið 1996. Hann er upphafsmaður og listrænn stjórnandi Kirkjulistahátíðar, sem haldin er annað hvert ár, og einnig stofnaði hann til árlegu tónleika¬raðarinnar Alþjóðlegt orgelsumar í Hallgrímskirkju eftir vígslu Klaisorgelsins 1992. Hörður hefur stjórnað flutningi margra af stærstu verkum kirkjutónlistarsögunnar, m.a. með Sinfóníuhljómsveit Íslands, og frumflutt fjölmörg íslensk tónverk. Hörður hefur hlotið margs háttar viðurkenningu fyrir starf sitt. Hann hlaut til að mynda Íslensku tónlistarverðlaunin og Menningarverðlaun DV fyrir störf sín árið 2001, var útnefndur borgarlistamaður Reykjavíkur 2002 og var sæmdur riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu árið 2004. Haustið 2005 var Hörður skipaður söngmálastjóri þjóðkirkjunnar. Í desember 2006 hlaut hann Íslensku bjartsýnisverðlaunin. Sem kórstjóri Schola cantorum hefur Hörður tekið þátt í fjöldamörgum upptökum BIS á verkum Jóns Leifs með Sinfóníuhljómsveit Íslands, m.a í frumflutningi óratóríunnar Eddu I 2006 og einnig komið fram með kórnum í keppnum og á hátíðum víða um heim við góðan orðstír.
Hörður hefur haldið orgeltónleika víða um Evrópu m.a. í St. Sulpice í París og Kölnardómkirkju og komið fram á fjölmörgum tónlistarhátíðum, þ.s. hann hefur verið öflugur fulltrúi íslenskrar orgeltónlistar. Nokkur tónskáld hafa skrifað orgelverk f. Hörð, m.a. John Speight, Þorkell Sigurbjörnsson, Jón Hlöðver Áskelsson og Kjell Mörk Karlssen.

Inga Rós Ingólfsdóttir sellóleikari hóf ung fiðlunám hjá Einari Sveinbjörnssyni, en heillaðist af sellóinu 14 ára gömul og lærði hjá Einari Vigfússyni, Gisela Depkat og Deborah Davis við Tónlistarskólann í Reykjavík og lauk einleikaraprófi þaðan 1976. Framhaldsnám stundaði hún við Tónlistarháskóla Rínarlanda, Robert Schumann Institut í Düsseldorf hjá prófessor Johannes Goritzki 1976- 1981, er hún lauk með diploma gráðu 1981. Frá árinu 1982 hefur Inga Rós verið fastráðinn sellóleikari við Sinfóníuhljómsveit Íslands og verið mjög virk í tónlistarlífi höfuðborgarinnar. Hún hefur frumflutt mikið af nútímatónlist og verið virk í flutningi kammertónlistar, einkum með Kammersveit Reykjavíkur, Reykjavíkurkvartettinum og Mótettukór Hallgrímskirkju og komið fram með þeim á tónleikum og tónlistarhátíðum víða um heim. Þá hefur Inga Rós leikið inn á fjölda geisladiska og í útvarp og sjónvarp. Inga Rós hefur unnið mikið að félagsmálum, m.a. var hún formaður Félags Íslenskra Tónlistarmanna 1995- 1998, í stjórn Bandalags íslenskra listamanna, Nordisk Solistråd og í fulltrúaráði Listahátíðar í Reykjavík á sama tíma og í stjórn Kammersveitar Reykjavíkur um margra ára skeið. Þá hefur hún gegnt ýmsum trúnaðarstörfum á vegum Sinfóníuhljómsveitar Íslands.

Jafnframt störfum sínum sem sellóleikari hefur Inga Rós verið framkvæmdastjóri Kirkjulistahátíðar í Reykjavík frá 2001 og auk þess að vera framkvæmdastjóri Listvinafélags Hallgrímskirkju frá árinu 2003. Inga Rós og Hörður hafa leikið saman á selló og orgel allt frá árinu 1974 og haldið tónleika víða um Ísland og Þýskaland auk þess að leika saman við ýmsar kirkjulegar athafnir.
Inga Rós leikur á franskt selló frá árinu 1859.

Föstutónleikaröðin: Leyndardómur trúarinnar, í Grindavíkurkirkju 2010.

17. febrúar kl. 20:00. „Föstutónleikaröðin: Leyndardómur trúarinnar". Eyþór Ingi Jónsson organisti leikur verk eftir Buxtehude, Böhm og Bach ásamt orgelspuna.

24. febrúar kl. 20:00. „Föstutónleikaröðin: Leyndardómur trúarinnar". Hörður Áskellsson organisti og Inga Rós Ingólfsdóttir sellóleikari leika verk eftir J.S. Bach, Kirchner og Saint-Saëns.

3. mars kl. 20:00. „Föstutónleikaröðin: Leyndardómur trúarinnar". Sönghópurinn Kordía undir
stjórn Guðnýjar Einarsdóttur organista, Elfa Dröfn Stefánsdóttir
mezzó-sópran, Ásdís Arnalds sópran og Ástríður Alda Sigurðardóttir píanó.
Flutt verða verk eftir m.a. Gabriel Fauré og J.S. Bach.

10.mars kl.20:00. „Föstutónleikaröðin: Leyndardómur trúarinnar". Guðmundur Sigurðsson organisti og Gunnar Gunnarsson flautuleikari leika verk eftir Otto Olsson, Otar Taktakishvili, J. S. Bach og
Albinoni.

17. mars kl. 20:00. „Föstutónleikaröðin: Leyndardómur trúarinnar". Sigrún Magna Þórsteinsdóttir organisti leikur tónlist eftir Mendelssohn, Samuel Scheidt og fleiri.

24.mars kl. 20:00. „Föstutónleikaröðin: Leyndardómur trúarinnar". Björn Steinar Sólbergsson organisti leikur verk eftir Johann Sebastian
Bach, Dietrich Buxtehude, Páll Ísólfsson og Felix Mendelssohn-Bartholdy.

Aðgangseyrir er 1000 kr.
Nánari upplýsingar á grindavik.is


Deildu ţessari frétt

AĐRAR FRÉTTIR

Fréttir / 5. apríl 2024

Zimna woda w Grindavík

Fréttir / 3. apríl 2024

Hlúum ađ heilsunni. Ókeypis kostir

Fréttir / 3. apríl 2024

Höfum gleđina međ!

Fréttir / 2. apríl 2024

Ađstođ viđ fjármál