Grindavík vann Fjölni - Friđrik međ nýjungar í ţjálfuninni

  • Fréttir
  • 20. október 2009

Grindavík lagði Fjölni í úrvalsdeild karla í körfubolta í gærkvöldi með 90 stigum gegn 85. Grindavík lenti í töluverðum vandræðum en skaust fram úr á lokasprettinum. Amani Daanish var stigahæstur með 29 stig og Páll Axel skoraði 20. Þar með hefur Grindavík unnið báða leiki sína í deildinni. Grindavík var sem kunnugt er spáð titlinum en Friðrik Ragnarsson, þjálfari Grindavíkur, varar við of mikilli bjartsýni.

„Menn verða að passa sig á því að tala ekki um þetta allt í einum pakka að vinna alla titla. Við erum búnir að vinna einn titil, Poweradebikarinn, en það gefur okkur ekkert forskot á önnur lið í deildinni. Það er bara einn leikur og eitt verkefni í einu. Fólk á það til að komast of auðveldlega á flug þótt undirbúningstímabilið hafi gengið vel."

Friðrik segist vera afar ánægður í Grindavík. Hér sé gott vinnuumhverfi, góður hópur og góð umgjörð. Markmiðið sé að vinna stóra titilinn sem stuðningsmenn liðsins eru orðnir langeygir að vinna. En það er langur vegur að takmarkinu.

Friðrik er metnaðarfullur og reynir sífellt að bæta við þekkingu sína sem þjálfari. Í haust hóf hann einkaþjálfaranám við Keili til þess að fá dýpri sýn og meiri þekkingu á styrktarþjálfun. Hann segir að þetta nýtist sér vel með Grindavíkurliðið.

„Leikmaður okkar Helgi Jónas Guðfinnsson er að kenna við Keili og hefur aðstoðað mig við líkamlega undirbúninginn á leikmönnum og hefur komið með ferskan blæ inn í þetta. Í náminu lærum við að greina fólk og Helgi Jónas hefur farið nýjar leið í þessu. Þetta er afar áhugavert og byggist fyrst og fremst á því að leggja áherslu á kraft- og snerpuþjálfun, að fá leikmenn til þess hoppa hærra og vera sneggri í snúningum. Til þess að auka hraða verður hámarksálag að vera styttra en við höfum gert fram að þessu. Þessi nýja þjálfunarfræði hefur virkað og leikmennirnir eru ánægðir með þetta. Við eigum að vera óhræddir að prófa eitthvað nýtt," segir Friðrik sem er bjartsýnn fyrir veturinn að vanda.


Deildu ţessari frétt

AĐRAR FRÉTTIR

Fréttir / 9. apríl 2024

Pistill bćjarstjórnar 9. apríl

Fréttir / 5. apríl 2024

Zimna woda w Grindavík

Fréttir / 3. apríl 2024

Hlúum ađ heilsunni. Ókeypis kostir