Eysteinn og Óli Stefán hćtta

  • Fréttir
  • 21. september 2009

Tveir reynslumestu leikmenn Grindavíkurliðsins, Óli Stefán Flóventsson og Eysteinn Hauksson, hafa ákveðið að hætta með Grindavík og snúa sér að þjálfun. Óli Stefán ætlar að þjálfa og jafnvel spila með liði í neðri deild en Eysteinn ætlar að þjálfa yngri flokka Grindavíkur og hætta alfarið sjálfur að spila. Mikil eftirsjá verður í þessum tveimur mögnuðu köppum, Óli Stefán er leikjahæsti leikmaður Grindavík frá upphafi og Eysteinn einnig búinn að spila yfir 100 leiki með Grindavík og 201 í efstu deild.

,,Það eru engin leiðindi, særindi eða neitt svoleiðis. Ég hef lítið verið að spila í sumar og mér fannst tankurinn vera tæmdur," sagði Eysteinn við Fótbolta.net í dag.

,,Mér fannst ekki vera nein þörf fyrir mig þarna og eftir leikinn á móti ÍBV um daginn settist ég niður og hugsaði þessi mál til enda. Ég talaði við gott fólk í mínu umhverfi og tók þá ákvörðun að þetta væri orðið gott. Mér finnst ég vera búinn að skila mínu í þessu."

,,Ég upplifði þetta þannig að það væri engin þörf fyrir mig í ár og þá fannst mér allt eins gott að segja þetta gott. Ég tók ákvörðunina í góðu samráði við Luka (Kostic) sem mér finnst fyrirmyndarþjálfari."

Eysteinn lék tíu leiki með Grindavík í sumar en í einum þeirra fékk hann að líta gula spjaldið fyrir að rífast við Zoran Stamenic samherja sinn.

,,Á síðasta árinu þá upplifði ég það að koma inn á móti KR á útivelli í hægri bakvörð og það var nokkuð skrautlegt. Í síðasta leiknum mínum á móti Val þá fékk ég síðan spjald fyrir að ræða taktík við samherja mínu."

,,Ég held að ég hafi aldrei lent í leikbanni þannig að það var ,,gaman" að enda á spjaldi í síðasta leiknum."

Eysteinn fékk þó eitt rautt spjald á ferlinum en það kom þegar að hann spilaði í Hong Kong í nokkra mánuði. ,,Ég fékk rautt í Hong Kong fyrir að þruma niður einhvern Brasilíumann."

Eysteinn hættir ekki öllum afskiptum af fótbolta því hann ætlar í þjálfun. Eysteinn hefur verið viðloðandi þjálfun í yngri flokkum Grindavíkur í gegnum tíðina og býst við að halda áfram þar.

,,Þjálfunin er gríðarlega mikið áhugamál hjá mér og ég hef ekkert þurft að kvíða því að hætta að spila því mig hefur hlakkað til að takast á við þjálfunina. Ég stefni á að vinna að uppbyggingarstarfi í yngri flokkunum í Grindavík. Það er ekki búið að skrifa undir en það stefnir allt í það. Það er ýmislegt uppi á borðinu sem er áhugavert en mig langar að vinna hér," sagði Eysteinn að lokum við Fótbolta.net.

Óli Stefán Flóventsson mun að öllum líkindum leika sinn síðasta leik með Grindavík þegar að liðið mætir Breiðablik í lokaumferð Pepsi-deildarinnar um næstu helgi. Óli Stefán stefnir á að gerast spilandi þjálfari í neðri deildunum.

,,Ég er búinn að tala við Luka (Kostic, þjálfara Grindavíkur) og stjórnarmenn og þeir sýna mér mikinn skilning á þessu. Að öllum líkindum fer ég út í þjálfun núna enda orðinn hundgamall," sagði Óli Stefán við Fótbolta.net í dag.

Þrjú félög hafa haft samband við Óla Stefán en þau leika í annarri og þriðju deild og er líklegt að hann gerist spilandi þjálfari hjá einhverju þeirra.

Óli Stefán verður 34 ára síðar á þessu ári en hann gekk aftur í raðir Grindavíkur í júlí síðastliðnum eftir að hafa leikið með Vard Haugesund í Noregi í nokkra mánuði.

Í fyrra lék Óli Stefán með Fjölni en þess fyrir utan hefur hann leikið nánast allan sinn feril með Grindavík.

 


Deildu ţessari frétt

AĐRAR FRÉTTIR

Fréttir / 9. apríl 2024

Pistill bćjarstjórnar 9. apríl

Fréttir / 5. apríl 2024

Zimna woda w Grindavík

Fréttir / 3. apríl 2024

Hlúum ađ heilsunni. Ókeypis kostir