Ondo: Ísland góđur stökkpallur

  • Fréttir
  • 11. september 2009

Gilles Mbang Ondo hefur verið einn besti leikmaður Íslandsmótsins í sumar, þá sérstaklega í síðari hluta mótsins. Alls hefur hann skorað tíu mörk í átján deildarleikjum með Grindavíkurliðinu sem hefur verið á góðu skriði að undanförnu. Ondo segist ánægður hjá Grindavík og í íslenska boltanum, í viðtali við Fréttablaðið í dag.

„Ég hef verið ánægður með mína frammistöðu og hef tekið stefnuna á að komast að í sterkari deild, til að mynda á Norðurlöndunum. Mér líður þó vel í Grindavík enda er deildin sterk og fótboltinn sem hér er spilaður er góður," segir Ondo.

Hann segir að hann hafi ákveðið í samráði við sinn umboðsmann að koma til Íslands þar sem það væri góður stökkpallur fyrir stærri deildir í Evrópu.

„Ég er með sænskan umboðsmann og okkur leist vel á að koma til Íslands. Hér fá leikmenn góðan undirbúning fyrir að spila í stærri deildum auk þess sem það er vel fylgst með íslenska boltanum, þá sér í lagi á öðrum Norðurlöndum.

Ég mun reyna allt sem ég get til að komast að í sterkari deild og erum við þá að miða við Norðurlöndin. Ég hef eitthvað heyrt af áhuga annarra liða en þó er ekkert fast í hendi enn. Ég vona þó að ég komi ekki til Íslands næsta sumar en það er aldrei að vita hvað gerist."

Eiginkona Ondo er þar að auki sænsk og segir hann því upplagt fyrir sig að reyna fyrir sér þar.

Ondo fæddist í Afríkuríkinu Gabon en aðeins tíu mánaða gamall fluttist hann til Frakklands með fjölskyldu sinni. Hann ólst upp í París og spilaði með unglingaliði PSG áður en hann flutti sig um set, til Auxerre. Þar spilaði hann bæði með U-19 liði félagsins sem og varaliðinu.

Áður en hann kom til Grindavíkur var hann á mála hjá austurríska neðri deildar liðinu Eisenstadt sem reyndar fór á hausinn um það leyti sem hann kom til Grindavíkur á síðasta ári.

Ondo er 23 ára gamall en þó að hann hafi aðeins spilað í neðri deildunum í Austurríki og hér á Íslandi á hann þó að baki sex landsleiki með Gabon en hann hefur skorað í þeim eitt mark.

„Landsliðið hefur verið á mikilli uppleið undanfarin ár enda fjölmargir knattspyrnumenn frá Gabon sem hafa verið að spila í sterkum deildum í Evrópu. Ég tel að það muni styrkjast enn frekar á næstu 2-3 árum og þá munum við láta enn meira að okkur kveða," sagði Ondo en Gabon er í 35. sæti heimslistans, 61 sæti fyrir ofan Ísland á listanum.

Gabon hefur verið að gera góða hluti í undankeppni HM í Afríku en liðið tapaði þó fyrir sterku liði Kamerúns nú í tvígang í mánuðinum og á fyrir vikið minni möguleika á að komast á HM í Suður-Afríku á næsta ári.
Ondo stefnir þó ótrauður á að vinna sér sæti í landsliðinu á nýjan leik.

„Árið 2012 fer Afríkumótið fram í Gabon og þar ætla ég mér að vera með og í fremstu víglínu liðsins. Ég hika ekki við að setja markið hátt."


Deildu ţessari frétt

AĐRAR FRÉTTIR

Fréttir / 10. apríl 2024

NIE ZAPOMINAJMY O OKAZJACH DO RADOSCI

Fréttir / 9. apríl 2024

Pistill bćjarstjórnar 9. apríl

Fréttir / 5. apríl 2024

Zimna woda w Grindavík

Fréttir / 3. apríl 2024

Hlúum ađ heilsunni. Ókeypis kostir

Fréttir / 3. apríl 2024

Höfum gleđina međ!