Grindavík tók Íslandsmeistarana í kennslustund

  • Fréttir
  • 23. ágúst 2009

Grindavík gerði sér lítið fyrir og sigraði Íslandsmeistara FH á útivelli með þremur mörkum gegn engu í úrvalsdeild karla en þetta verður að teljast einhver sætasti útisigur Grindavíkurliðsins í gegnum tíðina. Leikmenn liðsins lögðu allt tal um svínaflensu og heilsuleysi að baki sér og lögðu sig allir fram í verkefnið og fóru á kostum allan leikinn.

Scott Ramsey skoraði fyrsta markið, Gilles Ondo bætti við öðru marki og staðan 2-0 í hálfleik. Jóhann Helgason skoraði svo þriðja markið. Eina skuggann sem bar á var að slakur dómari leiksins gaf Tor Erik Moen rautt spjald að ósekju.

Þetta var fjórði sigur Grindavíkur í röð og liðið hefur fengið flest stig í hús í seinni umferðinni í deildinni. Falldraugurinn vonandi úr sögunni og nú horfa menn bara fram á við.

,,Ef maður er ekki sáttur við þetta þá er maður aldrei sáttur. Ég veit ekki hvað er langt síðan ég hef komið hingað og náð í stig, þannig að þetta var frábært," sagði Óli Stefán Flóventsson sem átti fínan leik í vörn Grindvíkinga í dag.

Eins og flestir vita þá greindist hluti af hóp Grindavíkur með svínaflensu og fresta þurfti tveimur leikjum af þeim sökum. Óli sagði menn ekki haft hugann við það.

,,Nei það er bara að baki. Við ákváðum á fundi í gær að við ræðum ekkert um það meira. Það er að baki og við ætlum að einbeita okkur að fótboltanum. Nú er bara bein leið áfram. Við erum taplausir í seinni umferð og það mót erum við að vinna og höldum áfram að keppa í því," bætti Óli Stefán við.

Töluverðar breytingar voru gerðar á liði Grindavíkur frá því í síðasta leik og mátti sjá leikmenn í stöðum sem þeir eru ekki endilega vanir að spila.

,,Ég átti von á að það yrði meira vandamál að breyta þessu hjá okkur. Orri kom og spilaði eins og hann hefði aldrei gert annað en að spila hafsent, frábær leikur hjá honum. Við héldum hreinu í fyrsta skipti í langan tíma sem er afrek líka hjá okkur."

,,Þjálfararnir okkar voru búnir að kortleggja FH vel. Við höfum notað þennan litla tíma sem við höfðum til að vinna í færslum í vörninni og ég gat ekki séð betur en að það hafi heppnast fullkomlega í dag. Síðan þegar þú ert með leikmenn eins og Scotty, Ondo og Tor Erik í liðinu þá er alltaf möguleiki á að skora og þá er það bara hinna að gjöra svo vel að halda hreinu," sagði Óli Stefán.

Grindvíkingar eru komnir í þægilega fjarlægð frá fallsætunum, eru með 21 stig og eru nú 9 stigum frá Fjölnismönnum sem sitja í 11.sætinu.

,,Veistu það, ef ég á að segja alveg eins og er þá erum við ekkert að spá í fallinu lengur. Eins og ég sagði áðan þá erum við að keppa í Íslandsmótinu í seinni umferðinni og erum á toppnum þar. Við ætlum að vinna það mót og á meðan við vinnum leiki þá getum við ekki kvartað. Nú er það bara aðeins að anda og svo er hörkuleikur gegn Fram á miðvikudag. Við höfum ekkert efni á að fagna þessu í marga daga," sagði Óli Stefán Flóventsson að lokum í samtali við Vísi.

Staðan:

1. FH 18 14 1 3 49:20 43
2. KR 17 10 3 4 38:25 33
3. Fylkir 18 10 3 5 32:21 33
4. Fram 17 7 4 6 29:23 25
5. Breiðablik 18 7 4 7 30:30 25
6. Keflavík 18 6 7 5 26:31 25
7. Stjarnan 18 7 3 8 37:30 24
8. Valur 18 7 2 9 20:32 23
9. Grindavík 16 6 3 7 27:29 21
10. ÍBV 15 5 2 8 18:26 17
11. Fjölnir 18 3 4 11 22:38 13
12. Þróttur 17 3 2 12 20:43 11

Mynd: Grindavík fagnar á Kaplakrikavelli í gær. Myndin er fengin að láni frá fotbolti.net


Deildu ţessari frétt

AĐRAR FRÉTTIR

Fréttir / 9. apríl 2024

Pistill bćjarstjórnar 9. apríl

Fréttir / 5. apríl 2024

Zimna woda w Grindavík

Fréttir / 3. apríl 2024

Hlúum ađ heilsunni. Ókeypis kostir