Loðnubræðsla í Grindavík

  • Fréttir
  • 6. mars 2004

Endurnýjuð verksmiðja
komin í fullan gang

Fyrsti loðnufarmurinn á þessari vertíð kom til vinnslu í endurbættri og stækkaðri fiskimjölsverksmiðju Samherja í Grindavík 16. febrúar Afkastageta verksmiðjunnar hefur aukist verulega með nýjum þurrkara og öðrum búnaði. Bræðsla er þegar komin á fullt en Óskar Ævarsson, rekstrarstjóri Samherja í Grindavík, segir þó of snemmt að segja til um hvernig verksmiðjan reynist eftir breytingarnar.

Það var Bergur VE sem landaði mánudaginn 16. febrúar 1.200 tonnum af loðnu sem fengust í Litladjúpi austur af Berufirði. Verksmiðjan hafði þó áður fengið 200 tonn en það var loðna sem flokkaðist frá við frystingu um borð í Grindvíkingi.

Tækjakostur verksmiðjunnar hefur verið endurbættur verulega og hefur afkastageta hennar nær þrefaldast, úr 5-600 tonnum 1997 í 1.500 tonn nú á sólarhring. Veigamesta breytingin er uppsetning stærri þurrkara sem fenginn var frá Hornafirði. Hann hentaði ekki í bræðslunni þar og var því fenginn til Grindavíkur en þurrkari og eimingartæki úr bræðslu sem var í Sandgerði fóru til Hornafjarðar í staðinn.

Með þeim best búnu á landinu
?Við erum að stórbæta orkunýtinguna með því að við nýtum varmann frá gufuþurrkurunum betur. Verksmiðjan er í dag ein af þeim sem best er tækjum búin á landinu og  orkunýting með besta móti eftir þessar breytingar,? segir Óskar. Þegar þurrkarinn kom til landsins á sínum tíma, fyrir um þremur til fjórum árum, var hann sá stærsti af þessari gerð í heiminum en nú er kominn annar í Færeyjum að sögn Óskars. Sett hafa verið upp glatvarmaeimingartæki og glatvarmaforsjóðari og er varmi frá gufuþurrkurunum notaður til að hitunar. Einnig hefur verið bætt við nýrri 40 rúmmetra soðlýsisskilvindu og gerast skilvinduafköst verksmiðjunnar varla meiri á landinu.

Stærri skip ? stærri bræðslur
Ástæður þess að ráðist var í endurbætur og stækkun verksmiðjunnar eru nokkrar, að sögn Óskars, meðal annars sú þróun sem orðið hefur í skipakosti. ?Já, það er hluti af þessu. Þegar við komum að verksmiðjunni 1997 var ýmislegt sem þurfti að gera, bæði til að auka nýtingu, minnka lykt og fleira. Núna seinni árin hafa skipin stækkað mikið en verksmiðjurnar ekki þannig að það hefur tekið lengri tíma að bræða hvern farm og þá getur elsti hlutinn af farminum verið farinn að skemmast þegar hann loksins kemst í gegn. Þetta er lokahnykkurinn í endurnýjun tækjabúnaðar verksmiðjunnar sem hefur staðið síðan 1997.?

Óvenju seint af stað
?Bræðsluvertíð? í verksmiðjunni fer mun seinna af stað nú en oftast áður. Óskar kveðst hafa þurft að leita aftur til ársins 1998 til þess að finna sambærilega dagsetningu en þá hófst bræðsla 19. febrúar og varð sú vertíð reyndar endaslepp. Endurbætur verksmiðjunnar nú hafa auðvitað sett strik í reikninginn varðandi loðnubræðslu en Óskar segir að jafnframt spili þar inn í að staðan á mörkuðunum sé þannig að meiri verðmæti fáist með því að frysta loðnuna til manneldis en að bræða hana. Félagið skipuleggi vinnsluna einfaldlega út frá því hvernig ná megi mestu verðmæti út úr hráefninu. Það eru því aðallega fjölveiðiskip Samherja, Vilhelm Þorsteinsson og Baldvin Þorsteinsson, sem sjá um loðnuvinnsluna eins og staðan er núna. ?Menn skipta um gír eftir því hvernig árar og þess vegna höfum við fengið lítið af hráefni núna. Skipin hafa verið upptekin við að frysta og auk þess var upphafskvótinn mjög lítill en síðan er alltaf verið að bæta við hann. Það er gott að fá viðbót en hins vegar mjög erfitt að stýra vinnslunni þegar maður veit aldrei hvað maður hefur,? segir Óskar.

Bræðslurnar gegna mikilvægu hlutverki
Þrátt fyrir meiri verðmætasköpun við frystingu á loðnu um þessar mundir en við bræðslu eru loðnubræðslurnar engu að síður ómissandi hlekkur í vinnslukerfinu og mikilvægar sem slíkar. Vinnslan getur að sjálfsögðu ekki án bræðslunnar verið.

?Það er alltaf eitthvað sem þarf að flokka frá og nýta í mjöl, þannig að bræðslurnar eru nauðsynlegar. Á hrognavertíðinni er hlutverk bræðslunnar líka mikilvægt því við hrognavinnsluna eru ekki nýtt nema um 6-8% af loðnunni. Þá er yfir 90% af fiskinum sem fer í bræðslu og það er gríðarlegt magn,? segir Óskar. Þetta hlutverk bræðslunnar er hluti af ástæðu þess að ráðist var í stækkun verksmiðjunnar, nauðsynlegt þótti að hafa meiri afkastagetu á hrognatímanum. ?Oft hafa menn þurft að stoppa hrognatöku vegna þess að bræðslurnar hafa ekki haft undan að vinna úr því sem kemur úr hrognavinnslunni. Það hefur oft reynst vera erfið bið á meðan plássið er að losna aftur. Við höfum mjög gott tankapláss en erum að styrkja okkur enn frekar með því að stækka verksmiðjuna,? segir Óskar.

Tæplega 25 þúsund tonna framleiðsla
Starfsemin var með venjubundnum hætti í fyrra ef frá er talið að vinnsla lagðist af um tíma í fyrrahaust vegna endurnýjunar á tækjakosti sem áður er getið.
?Við tókum á móti tæpum 97 þúsund tonnum í fyrra, sem er um 14 þúsund tonnum minna en árið áður. Samdrátturinn er aðallega vegna þess að loðnukvótinn var minni en einnig barst eitthvað minna af kolmunna til okkar og svo höfðu framkvæmdirnar við verksmiðjuna áhrif því við vorum stopp um tíma vegna þeirra. Úr þessu hráefni framleiddum við tæp 18 þúsund tonn af mjöli og 6.600 tonn af lýsi.

Auk þessara umsvifa loðnubræðslunnar, sem eru mikilvæg fyrir hafnarstarfsemina hér í Grindavík, get ég nefnt að við erum með frystigeymslur sem auka enn við umsvif hafnarinnar. Skip Samherja lönduðu hér um 5.000 tonnum af frystum fiski í fyrra, aðallega síld, sem síðan voru flutt beint út héðan. Útflutningur á frosnum fiski beint frá Grindavík er ekki mikill að öðru leyti. Þegar allt er talið er Samherji því með umfangsmikla starfsemi hér í Grindavík, sem meðal annars skiptir miklu máli fyrir bæinn og hafnarstarfsemina hér,? segir Óskar Ævarsson, rekstrarstjóri Samherja í Grindavík. 


Deildu þessari frétt

AÐRAR FRÉTTIR

Fréttir / 10. apríl 2024

NIE ZAPOMINAJMY O OKAZJACH DO RADOSCI

Fréttir / 9. apríl 2024

Pistill bæjarstjórnar 9. apríl

Fréttir / 5. apríl 2024

Zimna woda w Grindavík

Fréttir / 3. apríl 2024

Hlúum að heilsunni. Ókeypis kostir

Fréttir / 3. apríl 2024

Höfum gleðina með!