Kvennahlaupiđ á laugardaginn - Í samstarfi viđ Krabbameinsfélagiđ

  • Fréttir
  • 18. júní 2009

Hið árlega Sjóvá Kvennahlaup ÍSÍ fer fram næsta laugardag um land allt en þetta er tuttugasta Kvennahlaupið. Í Grindavík verður hlaupið frá sundlauginni kl. 11:00. Þrjár vegalengdir eru í boði: 3,5 km,7 km og 10 km. Forskráning í sundlauginni. Boðið verður upp á súpu og brauð.

Að þessu sinni er hlaupið í samstarfi við Krabbameinsfélag Íslands. Þemað í ár er „Tökum þátt - Heilsunnar vegna" og er ætlað að vekja athygli á mikilvægi forvarna í heilbrigðu líferni og að minna konur á mikilvægi þess að fara reglulega í skoðun hjá Leitarstöð Krabbameinsfélagsins.

Markmið Kvennahlaupsins hefur frá upphafi verið að hvetja og styðja konur á öllum aldri til aukinnar hreyfingar og heilsueflingar, ekki aðeins þennan eina dag heldur sem flesta daga ársins.
Heilsa er allt í senn líkamleg, andleg og félagsleg og jákvætt hugarfar er því, ásamt hreyfingu og hollum matarvenjum, mikilvægur liður í daglegri heilsurækt. Regluleg skoðun er liður í heilbrigðum lífsstíl og getur bæði lengt og bætt líf kvenna.

20 ára í skoðun
Konur sem fæddust árið sem Kvennahlaupið var fyrst haldið eru nú boðaðar í sína fyrstu krabbameinsskoðun. Því er vel við hæfi að hlaupið í ár sé tileinkað forvörnum og reglulegri leit að krabbameini. Hollt mataræði, hreyfing og regluleg skoðun auka verulega líkur á löngu og heilbrigðu lífi. Einn af hverjum þremur Íslendingum fær krabbamein á lífsleiðinni, en með því að þekkja einkennin, stunda heilbrigt líferni og mæta reglulega í skoðun eykur þú verulega líkurnar á að sigrast á þessum erfiða sjúkdómi.

20 ár á hlaupum
Fyrsta hlaupið fór fram í Garðabæ árið 1990 og þá hlupu um 2.500 konur. Á þessum 20 árum hefur þátttakan margfaldast og er stefnt að því í ár að 20.000 konur taki þátt um land allt! Kvennahlaupið er einn vinsælasti almenningsíþróttaviðburður á landinu og hefur teygt anga sína víða, nú er hlaupið allt frá Íslandi til Ástralíu.

Kvennahlaupið hvetur allar konur, ungar sem aldnar,til að draga fram hlaupaskóna 20. júní og taka þátt í afmælishlaupinu - og að fylgjast vel með líkama sínum og mæta reglulega í skoðun!


Deildu ţessari frétt

AĐRAR FRÉTTIR

Fréttir / 9. apríl 2024

Pistill bćjarstjórnar 9. apríl

Fréttir / 5. apríl 2024

Zimna woda w Grindavík

Fréttir / 3. apríl 2024

Hlúum ađ heilsunni. Ókeypis kostir