Matthías Örn íslandsmeistari í pílukasti 501 áriđ 2020

  • Fréttir
  • 8. júlí 2020

Matthías  Örn Friðriksson er fyrrum leikmaður meistaraflokks karla í knattspyrnu. Eftir að hann lagði takkaskóna á hilluna hellti hann sér út í pílukastið og hefur verið að gera góða hluti á þeim vettvangi. Í byrjun mars varð hann í  fyrsta sinn Íslandsmeistari í pílukasti í 501 sem er algengasti leikur pílukastsins. Matti eins og hann er kallaður segir að æfingin skili sér í góðum árangri. Matti var í viðtali í síðasta tölublaði Járngerðar sem lesa má í heild sinni hér. 

Matti er 33 ára innkaupastjóri hjá HS Orku og núverandi Íslandsmeistari í pílukasti. Ég er giftur Gerði Rún og eigum við saman tvær dætur; Líf sem dó 5 daga gömul í janúar 2018 og Ósk sem fæddist í apríl í fyrra og er því alveg að verða eins árs. Við eigum einnig tvo hunda og einn kött; Boston, Maximus og Herkúles.

Hvenær byrjaðir þú að spila pílukast og hvað hafði áhrif á það val?
Ég byrjaði að fylgjast með og kasta pílu sumarið 2012 eftir að Scott Ramsay kynnti mig fyrir henni en fyrir það hafði ég ekki hugmynd um íþróttina og hversu vinsæl hún væri útí heimi. Við leigðum húsnæði á Gerðavöllum á þessum tíma og það var gamalt píluspjald í bílskúrnum sem ég hengdi upp og byrjaði að kasta pílum sem ég keypti í Intersport að mig minnir.

Eru hæfileikarnir meðfæddir eða er þetta æfingin sem er að skila sér?
Hæfileikarnir eru langt í frá meðfæddir, þetta er allt æfingin sem er að skila sér. Ég er með árunum búinn að prófa óteljandi kaststíla, pílur og grip. Ég er alltaf að reyna að finna hvað virkar best og því lítið í mínum stíl sem gæti kallast meðfætt. Við leigðum í Lautinni þegar ég var að byrja og veggurinn þar sem píluspjaldið hékk var vel merktur pílum sem hittu ekki spjaldið.

Hefur reynsla í boltanum áhrif? 
Ég var nú ekki þekktur í boltanum fyrir markaskorun enda var ég meira í því að reyna að varna því að andstæðingurinn skoraði. En þótt þetta séu gjörólíkar íþróttir þá hefur sú reynsla sem ég hef öðlast í boltanum klárlega nýst í pílunni. Keppnisskapið fer þar fremst í flokki sem og að geta verið rólegur þótt mikið sé undir. Í fótboltanum þá viltu vera með adrenalínið á fullu en þú þarft að læra að slökkva alveg á því í pílunni en einbeitingin þarf að vera til staðar í báðum íþróttunum.

Hvernig hefur pílukastsferilinn verið? 
Það byrjaði frekar rólega enda var fótboltinn í fyrsta sæti en eftir að ég hætti í boltanum þá hafði ég meiri tíma til að kasta og seinasta ár var mjög gott og þetta ár einnig, en í byrjun mars varð ég í fyrsta skiptið Íslandsmeistari í pílukasti en það er eitthvað sem ég er gríðalega stoltur yfir og nú er tíminn til þess að reyna fyrir sér fyrir utan landsteinana og sjá hversu langt maður kemst þar.

Það hefur orðið sprenging á áhuga pílukasts, t.d. hérna í Grindavík. Hvað veldur?
Grindavík hefur alltaf verið mikill pílubær og við eigum margfalda Íslandsmeistara í greininni en aðstöðuleysi hefur valdið því að við höfum ekki getað verið með reglulegar æfingar og menn frekar hist í bílskúrum hjá hver öðrum og kastað. Það eru yfir 50 skráðir meðlimir í dag í Pílufélagi Grindavíkur og verandi komin með fasta aðstöðu þá mun það bara hjálpa til og laða að nýja spilara. En það kom mér þvílíkt á óvart að sjá þann mikla fjölda af konum sem mættu á kvennakvöldið sem við héldum um daginn en yfir 30 konur mættu og kynntu sér íþróttina sem er frábært. Með tilkomu Live Darts Iceland hefur einnig orðið bylting en nú geta allir fylgst með íslensku pílukasti í beinum útsendingum á Facebook og YouTube.

Eitthvað að lokum?
Vil bara hvetja alla til að mæta á æfingar hjá okkur í Pílufélagi Grindavíkur og skrá sig í félagið en við erum með barna- og unglingaæfingar á mánudögum og föstudögum og æfingar fyrir fullorðna sömu daga um kvöldið. Við erum einnig með sér kvennaæfingar á miðvikudagskvöldum. 

Matthías Örn ásamt Gerði Rún konu sinni og dóttur þeirra Ósk


Deildu ţessari frétt

AĐRAR FRÉTTIR

Fréttir / 10. apríl 2024

NIE ZAPOMINAJMY O OKAZJACH DO RADOSCI

Fréttir / 9. apríl 2024

Pistill bćjarstjórnar 9. apríl

Fréttir / 5. apríl 2024

Zimna woda w Grindavík

Fréttir / 3. apríl 2024

Hlúum ađ heilsunni. Ókeypis kostir

Fréttir / 3. apríl 2024

Höfum gleđina međ!