Jenný Geirdal á góđar minningar frá Piteĺ

  • Fréttir
  • 14. janúar 2020
Jenný Geirdal á góđar minningar frá Piteĺ

Jenný Geirdal er 17 ára Grindvíkingur sem fór í sumar á sænskunámskeið í vinabæ Grindavíkur, Piteå. Frá árinu 1977 hefur bærinn verið vinabær Grindavíkurbæjar en á hverju sumri er boðið upp á tungumálanámskeið í Piteå fyrir nemendur úr grunnskólanum.

Jenný stundar nám við Menntaskóla Reykjavíkur en síðasta sumar fór hún utan til vinabæjar Grindavíkur, Piteå og sótti þar sænskunámskeið. 

Hvað kom til að þú ákvaðst að sækja um að fara í sænskunámskeið til Piteå?
“Ég sá auglýsingu um að hægt væri að fara á sænskunámskeið á vegum  Grindavíkurbæjar.  Fannst það áhugavert og ákvað að sækja um. Hafði aldrei farið til Svíþjóðar áður og mig langaði að kynnast öðru fólki frá öðrum stöðum. Endaði á því að vera ein sem sótti um.” 

Hvernig var dvölin? 
Dvölin var mjög góð. Ég lenti í Stokkhólmi þann 28. júlí og flaug þaðan til Luleå sem er í um það bil 40 mínútna fjarlæg frá Piteå þar sem ég var sótt. Þegar við komum til Framnäs var okkur komið fyrir í herbergjum og farið var yfir dagskrá næstu daga. Daginn eftir hófst námskeiðið. Á þessum tíu dögum sem við vorum þarna gerðum við margt. Við heimsóttum Svensbylijda á menningarþriðjudag þar sem viðfengum  að smakka Filmjölk sem er eins konar sænsk súrmjólk ásamt því fengum við að sjá hvernig brauð var búið til og hvernig búfjárhaldi var háttað. Hittum ungmenni frá Piteå og tókum við þátt í allskonar afþreyingu. Dansarinn Jenny Jungebro kom einn etirmiðdaginn og kenndi okkur nokkur skemmtileg dansspor. Þegar námskeiðið var um það bil hálfnað kom blaðakona og tók viðtal við mig og tvo aðra fyrir Piteå Tidningen um sænskunámskeiðið. Við fórum í skoðunarferð til  Smurfit Kappa, stærsta framleiðanda iðnaðarpappírs í heimi. Þeir framleiða um 7.5 miljónir tonna af pappír ár hvert ásamt því að endurvinna um 6,2 miljónir tonna af pappír. Við fengum að fara að skoða bæinn og sjá mannlífið. Hægt var að kaupa allskonar mat og hluti. Á kvöldin þegar við komum til baka fengum við Kvällsfika sem á íslensku þýðir kvöldsnarl eða kvöldkaffi. Á síðasta kvöldinu var komið að kveðjustund. Daginn eftir var heimferð. Dvölin í Svíðþjóð þessa daga var æðisleg og á ég fullt af góðum minningum þaðan. 

Hvað fannst þér koma mest á óvart?
“Það sem kom mér mest á óvart var hversu vel og fljótt ég náði tökum á sænskunni og hjálpaði það mjög mikið að hafa grunninn í dönskunni.” 

Myndir þú mæla með þessu fyrir aðra?
“Já, alveg hiklaust. Endilega ef þið hafið áhuga á því að fara ekki hika við það. Skapið ykkar eigin minningar. Ég á eftir að meta þessar minningar um ókomna tíð.”

Eitthvað að lokum?
“Ég vil bara þakka Grindavíkurbæ fyrir að gera það mögulegt að ég kæmist út og gefið mér möguleika á að kynnast nýju fólki og menningu.” 

Viðtalið við Jennýju birtist fyrst í Járngerði en nálgast má blaðið í heild sinni hér.

 

 


 

 


Deildu ţessari frétt