Djammari.is ósáttur viđ vinnubrögđ lögreglunnar

  • Fréttir
  • 24. nóvember 2003

Sett inn þann 27.01.03
Aðstandendur vefsíðunnar djammari.is, sem hefur fylgst með skemmtanalífinu á Suðurnesjum undanfarið ár, lokaði nýlega á aðgang allra embætta undir Dómsmálaráðuneytinu að síðu sinni. Upphaflega hugðust þeir þó aðeins loka á Sýslumanninn og Lögregluna í Keflavík. Þar sem það var ekki tæknilega mögulegt þá varð þrautalendingin sú að loka á allt batteríið.


Styrmir Barkarson, einn aðstandenda síðunnar, segist hafa fullan rétt á að loka svona á ráðuneytið. “Alveg eins og ég ræð því hverjum ég býð inn heima hjá mér þá ræð ég því hver má skoða mín verk á netinu. Nú undanfarið hefur lögreglan í Keflavík verið að nota myndirnar af síðunni okkar til að kæra skemmtistaði fyrir að hafa fólk undir lögaldri inni á stöðunum. Með þessu áframhaldi fer fólk að hætta að hleypa okkur inn á skemmtistaði og enginn vill leyfa okkur að taka mynd af sér. Þannig er grundvöllurinn fyrir síðunni horfinn,” segir Styrmir.

“Þetta er eingöngu áhugamál hjá okkur og við erum ekkert að hafa upp úr þessu. Hingað til höfum við mætt miklum velvilja hjá skemmtistöðum og erum að reka síðuna nánast eingöngu með hjálp frá góðu fólki í bæjarfélaginu. Lögreglan er að eyðileggja þetta allt fyrir okkur. Það sem við erum að gera er að kynna skemmtanalífið hér í bænum og vonumst til að geta att okkar þátt í að láta það blómstra eins og hægt er. Eins og staðan er í dag þá er skemmtanalífið hér ekki upp á marga fiska, þannig að við reynum að bjarga því sem bjargað verður. Við erum með fullt af hugmyndum um hvernig hægt er að fá fólk til að koma til Keflavíkur til að skemmta sér, en ef við getum ekki haldið síðunni úti, þá getum við ekki komið þeim hugmyndum í framkvæmd,” segir Styrmir enn fremur. “Mér finnst þetta lúaleg vinnubrögð. Ef lögreglunni væri virkilega svona annt um að of ungir krakkar séu ekki inni á skemmtistöðum bæjarins, þá myndu þeir leggja meiri vinnu í að fylgjast með því um helgar. Þess í stað þá sitja þeir yfir vefsíðunni okkar og hanka skemmtistaðina á því eftir á.”

 


Deildu ţessari frétt

AĐRAR FRÉTTIR

Fréttir / 9. apríl 2024

Pistill bćjarstjórnar 9. apríl

Fréttir / 5. apríl 2024

Zimna woda w Grindavík

Fréttir / 3. apríl 2024

Hlúum ađ heilsunni. Ókeypis kostir