Sjómannadagurinn - hátíđ í bć

  • Fréttir
  • 31. maí 2019

Í maí 1989 ritaði Margrét Sighvatsdóttir fallega kveðju í Bæjarbót, tileinkaða sjómönnunum okkar. Það er því við hæfi að endurbirta hana hér enda mikill sannleikur í hennar skrifum. Margrét var gift útgerðarmanninum Páli H. Pálssyni og áttu þau útgerðarfélagið Vísi hf. 

Í kveðjunni vonar Margrét að ljóminn í kringum sjómannadaginn haldist alltaf. Það má segja að henni hafi orðið að ósk sinni. A.m.k. er sjómannahátíðin okkur Grindvíkingum mjög kær og við leggjum metnað okkar í að halda upp á daginn yfir heila helgi. Sjómönnum okkar til heiðurs. 

Sjómannadagurinn hátíð í bæ

1. sunnudag í júní ár hvert er haldin hátíð sem nefnist "Sjómannadagurinn" og eins og nafnið bendir til er sá dagur helgaður sjómönnum okkar um allt land. 

Í mínum huga er þessi dagur sérstakur og telst með meiri hátíðsdögum hjá mér og minni fjölskyldu. Tel ég að flestum Grindvíkingum finnist eins, þar sem Grindavík er sjávarpláss og afkoma manna byggist á hvað mikið kemur af fiski á land, það og það árið. En það er sama hvort fiskast mikið eða lítið, Sjómannadagurinn er alltaf á sínum stað, sem betur fer. Fólk fer í fínu fötin, drífur sig niður að höfn, horfir þar á skemmtiatriði og alls konar keppni, flýtir sér ósköp upp í Festi til þess að fá nú pláss við borð, og fá sér kaffi og með því, en þá hafa flestar frúr bæjarins bakað flottustu kökur sem nokkurn tíma sjást í henni Grindavík! Já, svo voru það nú böllin í dentíð, - eða eru þau enn? Jú líklega, en ég er víst bara farin að eldast!

Já, vonandi helst ljóminn kringum Sjómannadaginn okkar alltaf. 

Svo ég víki nú að sjómönnunum okkar. Metum við vinnu þeirra eins og skyldi? Gerum við okkur fyllilega grein fyrir þeirra miklu vinnu og hættu, sem þeir óneitanlega leggja á sig í misjöfnum veðrum og sjógangi úti á hinu stóra hafi? Ég tel að við getum og gerum það alls ekki. En það er eitt sem við getum gert, það að hugsa hlýlega til sjómanna okkar, biðja Guð að vernda þá gegn hættunum og vísa þeim veginn gegnum brimið heim. 

Góðir Grindvíkingar! Ég vona að þið vitið og sjáið, hvað við eigum góðan og bjartan bæ, á strönd, sem úthafsöldurnar falla að, ýmist dökkbláar eða hvítfrissandi. Bæ, sem er með stórar og fallegar bryggjur, þar sem elsku bátarnir okkar leggjast að, þegar þeir koma siglandi af hafi (mér hefur alltaf fundist bátarnir hafa sálir). Og sjómennirnir okkar, þeir eru hamingjusamir yfir að vera komnir heim, eftir giftursamlega ferð, og eru glaðir yfir að geta lagt bátunum í góða höfn. 

Ég vil hvetja fólk til að fara út og gæta að hvort þetta sé ekki rétt hjá mér. Lítum okkur nær og látum málsháttinn: "Fjarlægðin gerir fjöllin blá og mennina meiri" sem vind um eyru þjóta. 

Að lokum: Sjómenn og fjölskyldur! Höldum Sjómannadaginn hátíðlegan af alhug. Til hamingju með daginn og gæfan fylgi ykkur alla tíð!

 

Vorið 2010 kom út hljómdisk­ur­inn „Lög­in henn­ar mömmu“, með lög­um og textum sem Mar­grét hafði samið í Kefla­vík og Grinda­vík. Margrét lést fyrir rúmum sjö árum en hún og Palli áttu sex börn. Fimm af þeim búa hér í Grindavík. Öll sex eru meðlimir í Bakkalábandinu en Margrét söng hér áður með börnunum sínum í bandinu, m.a. við opnun menningarvikunnar í Grindavík 2009. 

Bakkalábandið kemur fram á Bryggjunni á laugardaginn og mun syngja gömlu góðu sjómannalögin ásamt hljómsveit milli 15:00-18:00. 

 


Deildu ţessari frétt

AĐRAR FRÉTTIR

Fréttir / 9. apríl 2024

Pistill bćjarstjórnar 9. apríl

Fréttir / 5. apríl 2024

Zimna woda w Grindavík

Fréttir / 3. apríl 2024

Hlúum ađ heilsunni. Ókeypis kostir