Fjórđa iđnbyltingin hafin í sjávarútvegi

  • Fréttir
  • 9. maí 2019
Fjórđa iđnbyltingin hafin í sjávarútvegi

Vísir og Marel skrifuðu undir samstarfssamning um RoboBatcher innleiðingu á sjávarútvegssýningunni í Brussel. Sjávarútvegssýningunni lauk í dag en hún fór fram f 7. – 9. maí og er stærsta alþjóðlega sýning sinnar tegundar í heiminum.  

Vísir og Marel undirrituðu samstarfssamning um innleiðingu á róbot búnaði á sjávarútvegssýningunni á þriðjudaginn. Fyrirtækin tvö hafa unnið að sameiginlegri þróun á vélvæddri pökkun afurða í fiskvinnslu Vísis frá því í september en samningurinn gerir ráð fyrir uppsetningu á allt að 12 róbótum í starfsstöð Vísis í Grindavík.

Einn róbot hefur nú þegar verið í prufukeyrslu hjá Vísi síðastliðinn mánuð. Ómar Enoksson, yfirmaður tækniþróunar hjá Vísi segir að róbotinn hafa farið langt fram úr væntingum, en hann raðar fiskbitum í kassa af mikilli nákvæmni, eftir meðalþyngd og umbeðnum stykkjafjölda.

Pétur Hafsteinn Pálsson, framkvæmdastjóri Vísis segir þetta „eðlilegt framhald af þróuninni með skurðarvélarnar og við erum mjög bjartsýn á að þessar breytingar skili okkur góðum árangri.“ Það eru því spennandi tímar framundan og óhætt að segja að fjórða iðnbyltingin sé hafin í sjávarútveginum.

Heimasíðan fór í vikunni í heimsókn í frystihús Vísis við Miðgarð og ræddi við Ómar um róbótinn. Nánar verður fjallað um það í næsta tölublaði Járngerðar auk þess sem myndband verður birt á vefsíðunni í kjölfarið þar sem sjá má róbótinn að störfum. 

Á myndinni efst má sjá frá vinstri: Sigurður Ólason framkvæmdastjóri fiskiðnaðar hjá Marel, Pétur Hafsteinn Pálsson framkvæmdastjóri Vísis og Óskar Óskarsson sölustjóri hjá Marel handsala samninginn

Frá vinstri: Sigurður Ólason framkvæmdastjóri fiskiðnaðar hjá Marel, Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegsráðherra og Pétur Hafsteinn Pálsson framkvæmdastjóri Vísis

Starfsfólk Vísis í Brussel ásamt starfsfólki Marels


Deildu ţessari frétt