Kvenfélagiđ međ stórafmćli í Gjánni

  • Fréttir
  • 12. mars 2019
Kvenfélagiđ međ stórafmćli í Gjánni

Það var stór dagur hjá kvenfélagskonum í Grindavík laugardaginn 2. mars síðastliðinn. Tilefnið var að Kvenfélag Grindavíkur var gestgjafi nítugasta aðalfundar Kvenfélagasambands Gullbringu- og Kjósarsýslu (KSGK) og 90 ára afmælis sambandsins og var hvort tveggja haldið í félagsheimili þeirra Gjánni.  Sólveig Ólafsdóttir, formaður Kvenfélags Grindavíkur var fljót að bregðast við beiðni vefsíðu bæjarins um efni og myndir. Gefum henni og formanni KSGK, Ágústu Magnúsdóttur orðið: 

Laugardagsmorgunn 2. mars 2019 rann upp heiðskýr og fagur, en kyrrðin var rofin þegar kvenfélagskonur fóru jafnt og þétt að týnast inn í bæinn.  Tilefnið var að Kvenfélag Grindavíkur var gestgjafi  nítugasta aðalfundar Kvenfélagasambands Gullbringu- og Kjósarsýslu (KSGK) og 90 ára afmælis sambandsins og var hvort tveggja haldið í félagsheimili þeirra Gjánni.  Aðildarfélögin innan KSGK eru tíu, Kvenfélag Grindavíkur, Kvenfélag Keflavíkur, Kvenfélagið Fjóla í Vogum, Kvenfélagið Gefn í Garði, Kvenfélagið Hvöt í Sandgerði, Kvenfélag Garðabæjar, Kvenfélag Álftaness, Kvenfélag Mosfellsbæjar, Kvenfélag Kjósarhrepps og Kvenfélagið Seltjörn, Seltjarnarnesi.  Félögin skiptast á að halda aðalfundinn.  Alls eru 616 konur í félögunum tíu.

Kvenfélögin dugleg að styrkja nærsamfélögin

Margir viðburðir voru á liðnu ári hjá kvenfélögunum, svo sem kaffisala, basar, bingó, jólasala, fjáröflunarkvöld, þorrablót og að efna til skemmtana í bæjarfélögunum, svo fátt eitt sé talið.  Félögin heimsækja hvort annað, skiptast á að skipuleggja sameiginlega vorgöngu á sínum svæðum á hverju ári, konur kynnast og sumar verða kærar vinkonur.  Kvenfélögin eru mjög dugleg að styrkja nærsamfélögin. Má nefna að á síðasta ári veittu þau samanlagt styrki til ýmissa verkefna, alls 7,5 milljónir.  Í tilefni 90 ára afmælis KSGK samþykktu Kvenfélögin að styrkja „Sumarbúðir fatlaðra barna í Reykjadal“ um fjárhæð kr. 900.- fyrir hverja félagskonu,  og verður andvirði söfnunarinnar notað til kaupa á tækjum í samráði við forstöðumann.  

Tvær góðar kvenfélagskonur, þær Ása Atladóttir og Sigríður Finnbjörnsdóttir voru sæmdar nafnbótinni „Heiðursfélagi Kvenfélagasambands Gullbringu- og Kjósarsýslu“.  Báðar höfðu þær gengt formannsstöðu og öðrum trúnaðarstörfum í KSGK og Kvenfélagasambandi Íslands, en KSGK er stofnaðili að KÍ. 


Að aðalfundi loknum bauð Kvenfélag Grindavíkur til móttöku og dýrindis  veitinga. Boðið var upp á söngatriði, þar sem Arney Ingibjörg Sigurbjörnsdóttir söng stórkostlega. Bæjarstjórahjónin Fannar Jónasson og Hrafnhildur Kristjánsdóttir mættu til að samfagna og fræddi bæjarstjóri konur um bæinn Grindavík.  Að lokum var honum þakkað innilega og formaður Kvenfélagsins Sólveig Ólafsdóttir, færði þeim hjónum gjafir, m.a. buff sem er merkt félaginu og benti hún bæjarstjóra á að næst þegar hún sæi hann á göngu þá ætti hann að vera með buffið á höfðinu.


Ég er kvenfélagsdrottning, ég brosi í gegnum tárin.     
Ég er kvenfélagsdrottning, ég græt af gleði   
Ég er kvenfélagsdrottning , á lúxuskvöldi á Gjánni.
Ó ég er svo happy, ú ú ó ég er svo happy. 

                                       Texti viðlags: Pálína Vagnsdóttir 

Að kvöldi dags gengu prúðbúnar kvenfélagskonur til afmælisfagnaðar í Gjánni.  Voru  þar samankomnar um hundrað og fimmtíu konur.  Salurinn glæsilega skreyttur, borðin fallega dekkuð og  við hvern disk voru gjafir sem afmælisnefndin, sem í voru 2 konur frá hverju félagi, hafði fengið frá fyrirtækjum.  Í  pokunum voru m.a. orkusteinar úr hrauninu í Grindavík og fylgdu þeim ljóð sem Bjarghildur Jóndóttir orti í tilefni fundarins.


„Orkan gefur okkur lit.
 Orkan myndar gleði. 
Orkan magnar allt þitt vit.
 Orkan lán þér léði.“
 
höf.:  B.J.


Orkusteinn
Orkan býr í bænum hér,
bjóðum þér að njóta.
Með orkustein í fórum þér,
munt gæfu hljóta.

höf.:  B.J.

Dýrindis veitingar voru í boði KSGK og komu þær frá Láka í Salthúsinu.  Kvenfélagskonur úr félögunum sýndu heimatilbúin skemmtiatriði við mikinn fögnuð gesta, happdrætti að hætti „Hollywood Oscar“, með miklum og skemmtilegum tilþrifum kynnisins Þórnýjar Jóhannsdóttur og auðvitað fengu vinningshafar að stíga á rauða dregilinn í myndartökunni.  DJ Kaleb lék undir borðhaldi og fyrir dansi.  Veislustjóri kvöldsins Pálína Vagnsdóttir sá til þess að allar konur skemmtu sér vel.  Mikið var sungið, klappað og hlegið allt kvöldið.  Þar sem konur koma saman er alltaf gaman.

Desert og fáni Grindavíkur


Mikil og óeigingjörn störf  kvenfélagskvenna eru ómetanleg og er sambandið gífurlega stolt og þakklátt af öllu því góða sem þær hafa unnið og eiga þær mikið hrós skilið.  Kærleikur, jákvæðni og samheldni eru aðalsmerki félagskvenna í KSGK.  

Töfrar
Þar sem samkennd, 
frelsi og sköpun 
fá að blómstra, gerast 
töfrar og úr verður
eitthvað alveg 
einstakt og magnað.

Samantekt:
Ágústa Magnúsdóttir, formaður KSGK
Sólveig Ólafsdóttir, formaður Kvenfélags Grindavíkur

Guðrún Þórðardóttir Forseti Kvenfélagasambands Íslands

 Borðin voru skreitt með grjóti úr Grindavíkurhrauni og Codland gaf okkur Öldu  kollagen heilsudrykk.

 

Kvenfélag Keflavíkur rappaði 

Ungfrú Gullbringu- og Kjósarsýslu var valin Auður Guðmundsdóttir úr kvenfélagi Garðabæjar

 Konur skemmtu sér vel og mikið var hlegið


Deildu ţessari frétt