Hreyfing 2019 - CrossFit

  • Fréttir
  • 8. janúar 2019
Hreyfing 2019 - CrossFit

Líklega eru margir byrjaðir að hreyfa sig aftur eftir jólahátíðina. Aðrir kannski að hugsa með sér hvaða hreyfing henti best. Þrek, hlaup, jóga eða jafnvel dans? Næstu vikur mun verða umfjöllun um þá hreyfingu sem í boði er hér í Grindavík. Við byrjum umfjöllina á fyrirtæki sem opnaði í febrúar á síðasta ári og vakti mikla athygli.  Alhliða hreyfing þar sem tekið er það besta úr mismunandi líkamsrækt og sett saman í eina góða blöndu og úr verður hið vinsæla CrossFit. Lárus Guðmundsson, annar af eigendum CrossFit Grindavík tók að sér að svara nokkrum spurningum varðandi þessa vinsælu líkamsrækt. Óli Baldur Bjarnason er hinn eigandinn af stöðinni. 

Hvað er CrossFit?

"CrossFit er byggt á styrk og þreki og svo samtvinnað með liðleika, tækni, hreyfanleika, krafti og samhæfingu. Það sem einkennir CrossFit aðallega að okkar mati er félagsskapurinn og mælanlegur árangur. Það er fólkið sem dregur mann aftur og aftur á æfingu, fólk sækir í þennan góða og hvetjandi félagsskap og fær skemmtilega og árangursríka æfingu í leiðinni. Við erum svo með þjálfunarforrit þar sem fólk getur séð æfingu dagsins, tekið frá pláss í tíma og skráð árangur æfingarinnar." Lárus segir að það að mæla árangur sé lykilinn í því að ná árangri. "Það hljómar kannski ýkt en maður verður háður því að bæta sig og ég held að flest allir sem hafa verið í CrossFit séu sammála um það." Oft finnist manni eins og maður hafi ekki bætt sig neitt en þá sé auðvelt að kíkja í appið og sjá framfarirnar svart á hvítu. Þessir tveir þættir séu helsta ástæða þess að CrossFit er stærsta líkamsræktarsamfélag í heiminum í dag.
 

En hvað varð til þess að þið opnuðuð stöð í Grindavík?

"Við höfðum báðir verið í CrossFit í Reykjanesbæ og vorum mjög hrifnir af þessu æfingafyrirkomulagi. Eftir að hafa stundað líkamsrækt í mörg ár fundum við að þarna var eitthvað öðruvísi, eitthvað sem maður yrði seint leiður á. Það kannast flestir við að taka góða tveggja til þriggja mánaða rispu í einhverskonar hreyfingu sérstaklega í byrjun árs en svo kemur þreyta og maður hættir að mæta. Eftir nokkur ár í CrossFit hefur þessi þreyta ekki enn komið upp hjá okkur og höfum við ekki orðið varir við hana í stöðinni hjá okkur." 

Opnunin á CrossFit Grindavík átti sér í rauninni mjög stuttan aðdraganda að sögn Lárusar. Óli var búin að verða sér út um húsnæði eftir langa leit og var byrjaður að vinna að opnun líkamsræktarstöðvar sem hann hafði hugsað fyrst og fremst til þess að nota fyrir einkaþjálfun. "Við munum ekki alveg hvernig þetta atvikaðist en við ræddum saman líklegast í nóvember 2017 um hvernig staðan væri á þessari nýju stöð hjá honum og hvað hann sæi fyrir sér að gera með hana og þá kom þessi hugmynd upp. Á tveimur mánuðum vorum við búnir að verða okkur út um öll tilskilin leyfi og hófust fyrstu æfingar 8. febrúar 2018."

Lárus segir að allt frá því að þeir tilkynntum um opnunina í lok árs 2017 hafi þeir fengið svakalega góðar viðtökur. Fólk sem hafði komið til þeirra í þjálfun væri mjög ánægt með það sem þeir væru að gera og talaði vel um þá úti í bæ.  "Það skiptir öllu máli í svona rekstri. Við erum mjög þakklátir fyrir alla þá sem hafa komið að þessu með okkur og erum virkilega spenntir fyrir komandi ár."

Hann segir aðstöðuna sem þeir séu komnir í sé eins og best verður á kosið í þessum bransa. Staðsetningin sé á annarri hæð fyrir ofan veiðafæraþjónustuna með frábært útsýni út á haf og það hljómi kannski eins og klisja en það gefi auka kraft á erfiðri æfingu. 

En hvaða tímar eru vinsælastir?

"Það er ótrúlegt hvað það er mikið af fólki hérna í Grindavík sem vill æfa fyrir vinnu og eru tímarnir klukkan 6:00 á morgnana búnir að vera vinsælir alveg síðan að við opnuðum." Lárus segir að það séu þrír tímar í borði alla virka daga einn á laugardögum. Stundataflan sé í rauninni ákveðin af meðlimum CrossFit. "Við erum reglulega með könnun á síðunni hjá okkur þar sem meðlimir velja þann tíma dags sem hentar þeim best til þess að æfa og það hefur gengið mjög vel. Svo tókum við upp þá nýjung núna í haust að auk þeirra fjölda tíma sem við bjóðum uppá í stundatöflu að þá hafa meðlimir okkar aðgang að stöðinni alla virka daga frá 6:00-21:00 og 10:00-16:00 um helgar og finnum við mikla ánægju hjá meðlimum með það."

En er CrossFit fyrir alla?

"Þetta er uppáhalds spurningin okkar því það er svo auðvelt að svara henni játandi. Já CrossFit er fyrir alla og það þarf ekki að fara í stóran rannsóknarleiðangur á internetinu til að komast að því hvað margir hafa notið góðs af CrossFit, fólk á öllum aldri með misjafnan bakgrunn úr íþróttum og hreyfingu almennt."

Síðan CrossFit Grindavík opnaði í febrúar síðastliðnum hafa í kringum 200 manns farið í gegnum grunnnámskeið hjá stöðinni. "Lang flestir af þeim voru frekar stressaðir fyrir fyrsta tímann því CrossFit átti að vera svo erfitt að þau gætu aldrei gert. Það eru margir hræddir við CrossFit nafnið vegna þess að þegar maður googlar CrossFit sér maður myndir af fólki sem er í besta formi í heiminum en það er einungis 0.01% af fólkinu sem stundar CrossFit í heiminum. Staðreyndin er hins vegar sú að meðalaldur þess sem stundar CrossFit er í kringum fertugt og lang flestir sem byrja í CrossFit hafa ekki stundað hreyfingu í mörg ár. Sumar æfingar eru flóknari en aðrar en æfingarnar eru aðlagaðar að þörfum hvers og eins."  

Einhver skilaboð til þeirra sem langar að koma til ykkar í CrossFit en hafa sig ekki af stað?

"Bara skrá sig á næsta námskeið, ekki spurning. Námskeiðið sem byrjar núna í janúar er reyndar orðið fullt en við erum byrjuð að taka niður skráningar fyrir námskeið í febrúar. Það þekkja líklegast allir í Grindavík einhvern sem hefur komið til okkar á námskeið svo að ef þið hafið einhverjar efasemdir þá bara að spyrja vin eða vinnufélaga sem hefur komið til okkar."

Hér að neðan eru svo tenglar inn á facebook og instagram síðu CrossFit Grindavík fyrir þá sem vilja vita meira.
https://www.facebook.com/Crossfitgrindavik/
https://www.instagram.com/crossfitgrindavik/


 

 

 


Deildu ţessari frétt

Nýjustu fréttir

Tónleikar međ Kela á Fish House

  • Fréttir
  • 27. maí 2020

Listasmiđja barna á Húllinu

  • Fréttir
  • 26. maí 2020

Sumargleđi í Sjómannagarđinum

  • Grunnskólafréttir
  • 19. maí 2020

Kristinn Pálsson til Grindavíkur

  • Körfubolti
  • 16. maí 2020