Grindvíkingurinn og bakarinn Hrafnhildur Anna Kroknes Sigurðardóttir, mun keppa fyrir Íslands hönd á konditori-heimsmeistarakeppninni sem fer fram í München í Þýskalandi í september. Hrafnhildur Anna útskrifaðist sem bakari frá Menntaskólanum í Kópavogi og síðar konditor frá ZBC Ringsted á Sjálandi í Danmörku. Með Hrafnhildi í för verður Sigrún Ella Sigurðardóttir sem verður í hlutverki þjálfara á mótinu.
Mbl.is ræddi við Sigrúnu:
„Við erum að fara að keppa fyrir Ísland á heimsmeistarakeppni undir 25 ára í sætabrauði í München og þessi heimsmeistarakeppni er á vegum UIBC sem er samband bakara og konditora um allan heim,“ útskýrir Sigrún Ella. „Keppnin var fyrst haldin árið 2016 í Hollandi og er haldin í annað sinn núna í Þýskalandi samhliða stórsýningunni IBA í september 2018. Það er einnig gaman að segja frá því að þetta er í fyrsta skiptið sem Ísland sendir keppanda í þessa keppni.“