Grindavík aftur á sigurbraut međ sigurkörfu á lokasekúndunni

  • Körfubolti
  • 8. desember 2017

Eftir rysjótt gengi í síðustu leikjum er Grindavík aftur komið á sigurbraut í Domino's deild karla eftir sigur á nýliðum Vals í Mustad-höllinni í gær. Í 39 mínútur eða svo var þó útlit fyrir að fjórði ósigur Grindavíkur í röð liti dagsins ljós en eftir ótrúlegar lokasekúndur lönduðu okkar menn sigri, 90-89. Dagur Kár var hetja Grindvíkinga að þessu sinni en hann skoraði sigurkörfuna þegar 0,44 sekúndur voru til leiksloka.

Karfan.is fjallaði um leikinn:

Dagur Kár stal sigrinum á lokasekúndunum

Mættur í sama leikskipulagi og fyrir viku (Fsu-Snæfell). Það markverðasta til að byrja með að sagan segir að í fyrsta skipti í sögu Úrvalsdeildar karla í körfu séu systkyni (hálf) að dæma saman, Georgía Olga Kristiansen og Davíð Tómas Tómasson! Þeim til aðstoðar er Gunnlaugur Briem (ekki trommarinn víst..... en þeir samt frændur - náskyldir)

Gengi liðanna æði misjafnt hingað til, spútnik liðs síðasta tímabils, Grindavík heillum horfnir það sem af er með 4/5 en andstæðingarnir Valsmenn, búnir að koma skemmtilega á óvart með sömu stöðu (4/5) en það sem meira er, Valsmenn hafa tapað nokkrum leikjum klaufalega og hafa yfir höfuð verið að spila mjög vel. Því má búast við hörku spennandi leik í Mustad-kvöld!

Mætingin á leikinn endurspeglar kannski gengi heimamanna, frekar fámennt en þó virðist vera góðmennt í stúkunni!

Gangur leiksins.

Fyrsti fjórðungur var jafn frá tip-off, heimamenn alltaf hænufetinu á undan en samt, mjög jafnt. Staðan eftir opnunina gaf það til kynna, 24-21.

Rashad Whack sem nokkuð hefur gustað um í grindvísku körfuboltasamfélagi, byrjaði sterkt með 2 þristum og var kominn með 9 stig eftir opnunina. Þorsteinn Finnboga kom líka sterkur af bekknum með 7 stig. Hjá Val var hinn frábæri Urald King með 8 stig og semi-landi hans, Austin Magnús Bracey með 5.

Valsmenn byrjuðu 2. leikhlutann betur og sérstaklega var Urald öflugur vararmegin og var eftir rúmar 2 mínútur kominn með 3 varða bolta. Whack kom síðan fljótlega inn á og hélt uppteknum hætti með fljótum 5 stigum og þar með kominn með 14 stig. Grindavík virtist ætla taka frumkvæðið en Valsmenn eins og skugginn þeirra og eftir rauðan þrist tók Jói leikhlé og las yfir hausamótunum á sínum mönnum! Hárþurrkan skilaði engu, þvert á móti sjóðhitnuðu Valsmenn og klikkuðu varla á skoti út hálfleikinn og m.a. var Gunnar Ingi Harðarson á fjölinni sinni. Valsmenn sigldu því með öruggt forskot inn í hálfleikinn, 45-54.

Undirritaður forðaði sér frá klefa Grindvíkinga í hálfleiknum því mig grunar að Jóhann hafi sett hárþurrkuna sína á fullt! Hún virtist virka til að byrja með en svo tóku Valsmenn aftur stjórnina og fljótlega var munurinn kominn í 11 stig. Heimamenn klóruðu aðeins í bakkann en Valsmenn með 8 stiga forskot fyrir lokabardagann, 61-69. Varla hægt að tala um einhvern besta mann Grindvíkinga en hjá Val var kóngurinn kominn með 20 stig, 12 stig og 5 varða bolta!

Heimamenn ætluðu sér greinilega ekki að leggjast flatir og komu sterkir inn í 4. leikhlutann og sérstaklega var Óla Ól nóg boðið og setti troðslu og þrist og kveikt þetta smá neista. Valsmenn bara ansi heitir í skotunum og ljóst á þessum tímapunkti að heimamenn urðu að fara fá nokkur stopp en vörnin var meira og minna úti á túni allt þetta kvöld. Merkilegt nokk, þetta gerðist og áður en varði var munurinn kominn í einungis 2 stig, 80-82 en þá tók Ágúst þjálfari Vals leikhlé. Æsispennandi lokamínútur framundan. Eins og kom fram í opnuninni á þessum pistli, þá hafa Valsmenn tapað nokkrum leikjum undir það síðasta og virtist stefna í endurtekningu.

Heimamenn komust svo yfir með öðrum þristi frá Óla en Valsmenn svöruðu með öðrum slíkum, þvílíkur leikur! Þegar Valsmenn komust 4 stigum yfir, 85-89 tók Jói leikhlé. Whack setti þrist, Valsmenn klikkuðu og heimamenn því með leikinn í sínum höndum! Ingvi braust flott í gegn og lagði boltann í spjaldið en á einhvern ótrúlegan máta rúllaðist boltinn upp úr en Kanarnir börðust um boltann og því uppkast, Grindavík átti örina og ljóst að þessi leikur myndi ráðast á lokaskotinu. Heimamenn glutruðu innkastinu og Valur tók leikhlé með 8 sekúndur á klukkunni. Þar sem Grindavík voru bara komnir með 3 villur þá var ljóst að 2 villur þyrftu til að koma rauðum á vítalínuna!

Ótrúlegt, Bracy steig aftur fyrir miðlínu og heimamenn fengu því enn einn sénsinn! Dagur Kár tók boltann og tók mjög erfitt skot með Valsara í andlitinu og boltinn snerti ekkert nema net! Ennþá 0,44 sekúndur eftir, þvílíka ruglið þessi leikur! Valsmenn náðu skoti fyrir utan sem geigaði. Sorglegur endir fyrir nýliðana sem tapa enn og aftur jöfnum leik!

Tölfræðin lýgur ekki

Ef ég verð að tikka í þetta box þá vekur einna mesta athygli mína 3-stiga nýting Gunnars Inga Harðarsonar en hann setti 6/8 sem flokkast alltaf sem klassa hittni! Eins vekur athygli mína að Urald King endaði „bara" með 22 stig en eins og þið munið þá var hann kominn með 20 eftir 3 leikhluta. Hjá heimamönnum var enginn einn sem look-aði vel á tölfræðiblaðinu.

Hetjan

Ekki þarf að efast um hver hlýtur þennan eftirsótta titil, Dagur Kár Jónsson sem setti glæsilega niður sigurskotið.

Kjarninn

Eins og fram kom í viðtali við Jóhann þjálfara þá virðist Rashad Whack standa hálf höllum fæti. Inn á milli flottur leikmaður, sérstaklega sem skytta utan af velli en honum er oft á tíðum ansi mislagðar hendur þegar hann keyrir upp að körfu og eins þegar hann stýrir leiknum, tapaði m.a. 2 boltum í lokafjórðungnum. Ef Grindavík skiptir þá verður fróðlegt að sjá hvernig leikmaður velst í staðinn en stúkan talar um leikmann allt frá 1 upp í 4!

Grátlegt tap fyrir flotta Valsara en það þýðir ekkert mehe fyrir þá heldur bara út með kassann, upp með hausinn og áfram gakk!

Tölfræði leiksins
Myndasafn (Benóný Þórhallsson)




Deildu ţessari frétt

AĐRAR FRÉTTIR

Fréttir / 5. apríl 2024

Zimna woda w Grindavík

Fréttir / 3. apríl 2024

Hlúum ađ heilsunni. Ókeypis kostir

Fréttir / 3. apríl 2024

Höfum gleđina međ!

Fréttir / 2. apríl 2024

Ađstođ viđ fjármál