Slökkvilið Grindavíkur fékk á dögunum veglega gjöf frá Lionsklúbbi Grindavíkur, Kvenfélagi Grindavíkur og nokkrum fyrirtækjum í bænum. Um er að ræða rafknúnar klippur sem notaðar eru til að losa klemmt fólk eftir ýmis konar slys, svo sem umferðaslys. Klippurnar eru afar léttar og meðfærilegar og því afar kærkomin viðbót í tækjabíl slökkviliðsins.
Víkurfréttir fjölluðu um gjöfina en prufukeyrsla tækjanna var í beinni útsendingu á Facebook-síðu Grindavíkurbæjar. Hér að neðan má lesa og sjá frétt Víkurfrétta um gjöfina:
Slökkvilið Grindavíkur fékk þráðlausar klippur
Lionsklúbbur Grindavíkur og Kvenfélag Grindavíkur lögðust á árarnar með slökkviliðinu í Grindavík þegar kom að því að búa tækjabíl slökkviliðsins nýjustu björgunartækjum sem eru notuð til að losa fólk úr bílflökum eftir umferðarslys.
Lionsklúbburinn leiddi verkefnið en leitað var til fyrirtækja í Grindavík með að fjármagna kaupin á björgunartækjunum sem í daglegu tali eru kölluð klippur.
Nýju klippurnar eru knúnar áfram með rafhlöðum en eldri búnaður var tengdur við vökvakerfi og ekki eins meðfærilegur og nýju tækin.
Búnaðurinn kostaði á sjöttu milljón króna en hann var formlega afhentur á dögunum.
Við það tækifæri var notagildi tækjanna sýnt og eigulegur Toyota-bíll klipptur niður í búta.
Nokkrar myndir frá athöfninni:
Fjölmargir gestur mættu við athöfnina og sáu tækin prufukeyrð á þessari glæsilegu grænu Toyota bifreið
Ámundínus Öfjörð, formaður félags slökkviliðsmanna í Grindavík, bauð gesti velkomna en félagið bauð uppá léttar veitingar við athöfnina
Tveir góðir og annar í fríi
Reynir Gunnarsson, formaður Lionsklúbbs Grindavíkur, hélt stutta tölu og sagði frá samtakamætti fyrirtækja og félagasamtaka í Grindavík
Hilmar Bragi, fréttamaður Víkurfrétta, ræðir við slökkviliðsstjórann