Ekki tjaldađ til einnar nćtur í Pepsi-deildinni í sumar

  • Knattspyrna
  • 3. apríl 2017

Nú þegar innan við mánuður er í fyrstu leiki í Pepsi-deildum karla og kvenna er ekki úr vegi að við birtum viðtal við þá Óla Stefán Flóventsson og Róbert Haraldsson, þjálfara meistaraflokka Grindavíkur í knattspyrnu. Viðtalið birtist áður í 1. tbl. Járngerðar sem kom út í byrjun mars.

Eftir nokkurra ára hlé mun Grindavík eiga lið í efstu deildum karla og kvenna í knattspyrnu í sumar. Við tókum púlsinn á þjálfurum liðanna, þeim Óla Stefáni Flóventssyni og Róberti Haraldssyni, og ræddum við þá um komandi knattspyrnusumar. Það er mikill hugur í þeim félögum og ljóst að framundan er skemmtilegt knattspyrnusumar.

Það liggur sennilega beinast við að byrja á spurningunni, hver er Róbert Haraldsson?

„Ég er Kópavogsbúi að uppruna og bý þar núna. Ég er kennari í Smárskóla og hef starfað við kennslu í yfir 20 ár. Ég hef hins vegar bæði spilað og þjálfað fótbolta útum allt land sem og erlendis. Ég bjó lengi vel á Siglufirði og þjálfaði m.fl.karla hjá KF, Hvöt og Tindastól. Ég tók mér svo frí frá þjálfun fyrir tveim árum síðan og flutti til London, Watford, þar sem sonur minn var í akademíunni þeirra, og hann varð þá þriðji ættliðurinn í röð sem spilaði með Watford. Eftir að hafa fylgst með æfingum og starfinu hjá Watford fór mig að langa aftur í þjálfun og í dag er ég hér."

Undanfarnar vikur hafa sterkir erlendir landsliðsmenn bæst í leikmannahópinn kvennamegin. Þið eruð ekkert að fara að mæta í deildina bara til að vera með sýnist manni?

„Það er ekkert leyndarmál að landsbyggðarliðin hafa ekki úr miklu að moða þegar kemur að því að styrkja sig. Innlendi markaðurinn er nánast lokaður, hvað þá fyrir nýliða. Við höfum því sótt styrk erlendis en markmiðið er alltaf að sækja leikmenn sem eru áberandi sterkari en þeir sem fyrir eru, en líka góðir liðsfélagar. Það verða þrjár erlendar áfram hjá okkur, þær Emma Higgins, Lauren Brennan og Linda Eshun. Svo höfum við bætt við tveimur sterkum leikmönnum frá Brasilíu, einni frá Portúgal og markverði frá Svíþjóð.

Við höfum nokkrar sterkar heimastúlkur í hópnum og nokkrar til viðbótar sem eru efnilegar og hafa tekið miklum framförum bara síðan að ég tók við liðinu. Fyrir þessar ungu stelpur er sennilega svolítið skrítið að vera allt í einu farnar að æfa með erlendum landsliðskonum en þær eru þarna að fá ómetanlega reynslu, að fá að æfa og spila með þessum sterku leikmönnum.

Litið til framtíðar vil ég sjá að við eigum í það minnsta 8-10 sterkar grindvískar stelpur sem eiga heima í byrjunarliði Grindavík í Pepsi-deildinni. Vonandi munum við færast nær því markmiði í sumar."

Hverjar eru væntingar fyrir sumarið?

Róbert: „Fyrsta markmiðið er að sækja 18 stig sem fyrst og vinna svo út frá því. Annað mikilvægt markmið er að gera íslensku stelpurnar okkar að sterkari leikmönnum. Það mun mæða töluvert á þeim í sumar og þær þurfa að taka skref fram á við og koma sér og liðinu á næsta level."

Óli: „Við erum núna á þriðja árinu af fimm ára planinu sem ég lagði upp með þegar ég kom. Markmiðið okkar er að vera stöðugur topp sex klúbbur að því loknu. Í ár ætlum við að stimpla okkur inn sem alvöru úrvalsdeildarklúbbur og festa okkur í sessi í deildinni."

Hvernig standa leikmannamálin hjá strákunum?

Eins og staðan er núna erum eru átta farnir út en tveir inn. Mesta blóðtakan er að missa þrjá heimamenn, þá Jobba, Óla Baldur og Markó. Við viljum byggja upp sterkan kjarna af heimamönnum og fá svo réttu púsluspilin inn í kringum hann til að mynda sterkt lið.

Við eigum efnilega stráka í 2. flokki. Ég hef átti mjög gott samstarf við Ægi, yfirþjálfara yngri flokka og núna er 28 nöfn í 2. flokki sem er fáheyrt í Grindavík. Það er mjög efnilegur fjöldi leikmanna að koma upp í 1999 og 2000 árgöngunum, þar er uppskera sem við verðum að nýta. En þetta eru ungir strákar, það er smá gat í aldursbilinu. Við horfum til þess að styrkja liðið með 2-3 leikmönnum en ungu strákarnir banka á dyrnar og eru sumir farnir að æfa reglulega með okkur.

Enn að reyna að endurvekja ástríðuna

Óli Stefán talaði um það í viðtali við Járngerði 2015 að hann vildi endurvekja ástríðuna í grindvískum fótbolta.

„Við vitum alveg að þessi neisti er til hérna hjá okkur í bæjarfélaginu. Við þurfum bara að fá fólkið aftur á völlinn, og fá stuðninginn. Það munar öllu fyrir leikmenn að fá góðan stuðning og við viljum fá fólkið með okkur aftur."

Róbert skýtur inn í samtalið: „Mér finnst stundum að félagslegi parturinn sé svolítið horfinn úr boltanum í dag, og okkur vantar að fá hann aftur. Hér áður fyrr voru alltaf allir boðnir og búnir til að vinna sjálfboðastarf fyrir boltann og taka þátt í viðburðum." Óli tekur undir en segir að þetta viðhorf sé ennþá til staðar, við sjáum það t.d. í knattspyrnuskólanum okkar. Þar leggjast allir á eitt til að láta hlutina ganga upp. Óli endar viðtalið á þessum orðum: „Ég vil fá meiri samheldni í allt. Að við vinnum öll saman sem bæjarbúar á öllum sviðum. Við þurfum að snúa bökum saman og sameinast um markmiðin. Þannig náum við árangri saman."

Við látum það vera lokaorðin, sjáumst á vellinum í Pepsi-deildinni í sumar.
Áfram Grindavík!

 

 


Deildu ţessari frétt

AĐRAR FRÉTTIR

Fréttir / 9. apríl 2024

Pistill bćjarstjórnar 9. apríl

Fréttir / 5. apríl 2024

Zimna woda w Grindavík

Fréttir / 3. apríl 2024

Hlúum ađ heilsunni. Ókeypis kostir