Heilsuleikskólinn Krókur í erlendu samstarfi um heilsueflingu í leikskólum

  • Fréttir
  • 5. desember 2016

Heilsuleikskólinn Krókur er að vinna að þróunarverkefni sem styrkt er af Nordplus junior í samstarfi við fimm aðrar þjóðir; Litháen, Lettland, Finnland, Danmörk og Eistland, sem stjórnar verkefninu. Verkefninu er ætlað að innleiða 5 þætti heilsueflingar samkvæmt kenningum Sebastian Kneipp sem taldi að hreyfing, næring, jafnvægi, vatn og jurtir væru þættir sem stuðla að almennri heilsu og fyrirbyggja jafnvel sjúkdóma.

Um manninn og kenninguna
Sebastian Kneipp var austurrískur prestur frá 19. öld sem fékk mikinn áhuga á náttúrlegum lækningum s.s. vatni og jurtum. Hann var kallaður „vatns læknirinn" og er talið að hann hafi verið upphafsmaður að köldum böðum eins og við þekkjum í dag. Hann taldi sig hafa læknast af berklum með því að fara daglega í kalt bað og var talsmaður þess að kalt vatn hefði lækningamátt. Sýn hans grundvallast á heildrænum aðferðum og að það væri eðli mannsins að vera heilbrigður. Hann lagði áherslu á að tengsl mannsins við náttúru og umhverfi væri órjúfanlegur þáttur heilsu.

Um verkefnið
Verkefnið fellur vel að heilsustefnu skólans og verður því auðvelt að aðlaga kenningar S.Kneipp við það sem við erum að gera í heilsueflingu. Viðbótin við okkar starfshætti er vatn og jurtir og verður áhugavert að innleiða ýmsar aðferðir tengdar þeim þáttum eins og t.d. vatnsnudd með þvottapokum, lauga líkamsparta úr köldu vatni og drekka jurtate. Þar sem við erum með mjög vel skilgreinda stefnu í hinum þáttunum þremur getum við miðlað til hinna skólanna auk þess að bæta við nýjungum. Í verkefninu er lögð áhersla á þátttöku foreldra í heilsusamfélaginu sem er mjög jákvætt.

Allir skólarnir eru með einn ákveðinn áhersluþátt sem hann mun miðla af reynslu sinni til hinna skólanna. Krókur er með JAFNVÆGI og munum við miðla aðferðum í okkar samskiptastefnu, Rósemdar og umhyggju með áherslu á tilfinningastjórnun og núvitund. Í maí koma kennarar frá hinum skólunum í heimsókn til okkar í fimm daga þar sem við munum miðla af okkar reynslu um jafnvægi ásamt heilsu almennt.



Skólarnir hafa hist einu sinni í Litháen þar sem við kynntumst aðferðum S. Kneipp og kynntum fyrir hvert öðru landi og þjóð, námsumhverfi leikskóla og námskrá leikskólana okkar. Núna í desember hittumst við í Danmörku þar sem við munum halda áfram að læra saman og kynnast og í maí munu skólarnir síðan heimsækja Ísland og læra um okkar siði og námsaðferðir.

Hér má sjá bloggsíðu verkefnisins 

Erlent samstarf á Króki
Auk þessa verkefnis vinnur skólinn að þremur öðrum þróunarverkefnum í samstarfi við kennara í Evrópu í gegnum Erasmus+ og E-Twinning. Sérkennslustjóri er að læra um tauga-, skyn- og hreyfiþroska barna, tveir kennarar eru að vinna að verkefni um ævintýri og svo munu kennarar frá Svíþjóð koma í starfskynningu í skólann í vor. Erlent samstarf er mjög lærdómsríkt og er liður í að efla starfsþróun kennara og þróa námsaðferðir skólans.


Deildu ţessari frétt

AĐRAR FRÉTTIR

Fréttir / 9. apríl 2024

Pistill bćjarstjórnar 9. apríl

Fréttir / 5. apríl 2024

Zimna woda w Grindavík

Fréttir / 3. apríl 2024

Hlúum ađ heilsunni. Ókeypis kostir