Skýr markmiđasetning og ađgerđaáćtlun hefur skilađ Grindavík í fremstu röđ

  • Fréttir
  • 24. október 2016

Undanfarin 5 ár hafa einkennst af miklum vexti í Grindavík. Flest sveitarfélög gengu í gegnum erfiðleika í kjölfar hrunsins og eru að rétta úr kútnum þessi misserin, samhliða batnandi atvinnuástandi. Grindavíkurbær gekk í gegnum stutt erfiðleikatímabil 2009-2011, en með samstilltu átaki starfsmanna og kjörinna fulltrúa náðist góður árangur í rekstrinum strax árið 2012.

Við afgreiðslu fjárhagsáætlunar haustið 2010, sem gilti fyrir árin 2011-2014, voru sett skýr fjárhagsleg markmið og aðgerðir samþykktar. Þær ákvarðanir lögðu grunninn að þeirri frábæru stöðu sem Grindavíkurbær býr nú við. Greiningardeild Arionbanka birti nýverið skýrslu sína um sveitarfélög með yfir 1.500 íbúa. Þar kemur fram að Grindavíkurbær er annað af tveimur öflugustu sveitarfélögum landsins, sem er sama niðurstaða og þau hafa dregið fram allt frá árinu 2012. Skýrslur greiningardeild hinna bankanna sína sömu stöðu og Grindavíkurbær er hástökkvarinn á lista Vísbendingar um fyrirmyndar sveitarfélagið.

Samhliða þeim aðgerðum sem sveitarfélagið réðst í eftir hrun gekk mjög vel í atvinnulífinu, sérstaklega í sjávarútvegi og ferðaþjónustu. Störfum hefur fjölgað, tekjur hafa hækkað og arður aukist, sem aftur skapar auknar tekjur fyrir Grindavíkurbæ. Grindavík er eftirsóttur staður til að búa á og hingað sækir fjölskyldufólk í miklum mæli enda öll umgjörð fyrir börn og unglinga, bæði í skóla- og frístundstarfi, til fyrirmyndar.

Breytingin milli áranna 2011 og 2015 er mjög áhugaverð og í raun ótrúleg. Tekjur bæjarins hafa aukist um rúm 50%, þrátt fyrir að skattar hafi verið lækkaðir. Útsvar og fasteignaskattar eru með því sem lægst gerist á landinu. Rekstarafgangur Grindavíkurbæjar hefur aukist um rúm 300% á tímabilinu. Frá árinu 2012 hefur verið stöðugur rekstrarafgangur, 180-230 milljónir á ári. Fjárfestingar voru tæpar 1.900 milljónir á tímabilinu og allar fjármagnaðar með eigin fé! Engin lántaka, en á árunum 2008-2010 voru nýjar lántökur um 1.100 milljónir. Skuldir hafa lækkað um 70%, eða um 1.600 milljónir, og munar þar mestu um uppgreiðslur lána á árinu 2011. Þrátt fyrir mikinn vöxt og aukin verkefni hefur starfsmönnum aðeins fjölgað um 5% á meðan íbúum hefur fjölgað um 13%. Vert er að geta þess að við tókum við þjónustu við fatlað fólk í upphafi árs 2011. Samandregið þýðir þetta í raun að við erum að ná betri framlegð úr rekstrinum og hverjum starfsmanni. Þetta er eftirtektarverður árangur og raunar afar öfundsverður.

Þessi góði árangur gefur okkur þó enga ástæðu til að slá slöku við. Öll merki benda til þess að við séum nú að sigla inn í mikið þensluskeið og þá er mikilvægt að stjórnvöld haldi að sér höndum og eyði ekki um efni fram í verkefni sem þola bið. Stjórnvöld eiga ekki að auka á þensluna, heldur bíða og hafa svigrúm í verkefni þegar niðursveiflan kemur. Ábyrg fjármálastjórnun verður áfram stærsta verkefni starfsmanna og kjörinna fulltrúa og miðað við þann góða árangur sem náðst hefur frá 2011 er full ástæða til að ætla að árangur okkar verði áfram jafn góður og jafnvel betri.

Grindavíkurbær hefur á að skipa fjölmörgu hæfileikaríku starfsfólki sem hefur unnið mikið og óeigingjarnt starf fyrir
sveitarfélagið. Það er mikilvægt að við höldum vel utan um þann mannauð sem við búum yfir, því hann er bæði dýrmætur og alls ekki sjálfgefinn. Ein stærsta áskorunin sem við stöndum frammi fyrir núna er að tryggja okkar góða starfsfólki góð kjör og fyrsta flokks vinnuumhverfi. Við erum nefnilega öll í sama liðinu. Að vinna fyrir skattgreiðendur og íbúa í Grindavík.

Róbert Ragnarsson, bæjarstjóri.

Þessi pistill birtist upphaflega í 2. tbl. Járngerðar 2016


Deildu ţessari frétt

AĐRAR FRÉTTIR

Fréttir / 9. apríl 2024

Pistill bćjarstjórnar 9. apríl

Fréttir / 5. apríl 2024

Zimna woda w Grindavík

Fréttir / 3. apríl 2024

Hlúum ađ heilsunni. Ókeypis kostir