Uppbygging fiskeldisstöđvar Matorku viđ Grindavík ađ hefjast

  • Fréttir
  • 15. ágúst 2016

Undirbúningur fiskeldisstöðvar Matorku við Húsatóftir er nú vel á veg kominn. Við greindum frá samningum Matorku og íslenska ríkisins síðastliðið vor um uppbyggingu 3000 tonna fjöleldisstöðvar. Með samningi við HS orku er affall frá Svartsengi nýtt til framleiðslu. Vatnstakan er hreint og ómengað sjóblandað vatn sem rennur undan hrauninu og því er ekki þörf fyrir sýklalyf né önnur varnarefni gegn laxalús. Jarðhitinn frá Svartsengi mun gera félaginu kleift að framleiða mikið magn af hágæða laxfiski við kjörhitastig allan ársins hring.

 

Síðastliðinn föstudag greindi vefsíðan kvótinn.is frá því að uppbygging eldisstöðvarinnar væri senn að hefjast:

„Nú loksins eftir mikinn undirbúning er fjármögnun fiskeldisfyrirtækisins Matorku til verulegar uppbyggingar fiskeldisstöðvar í Grindavík lokið. Búið er að bjóða út verkið og verið er að vinna í verksamning við verktaka um mannvirkin. Stefnt er að því að byrja framkvæmdir á næstunni. Hin nýja eldisstöð mun fullbyggð búa til 40 ný störf og afla um 20 milljóna dollara í erlendum gjaldeyri fyrir þjóðarbúið," segir Árni Páll Einarsson, framkvæmdastjóri Matorku, í samtali við kvotinn.is

Nú nýverið lauk félagið við sölu á rúmlega 5,5 milljónum dollara af hlutafé, sem mun gefa félaginu burði til þess að byggja fyrri hluta nýju eldisstöðvarinnar, en í viðbót við þetta nýja hlutafé hefur félagið einnig tryggt sér aðgang að lánsfjármögnun. Meirihluti fjárfestana í þessu hlutafjárútboði eru erlendir fagfjárfestar.
Skapa leiðandi umhverfisvænt eldisfyrirtæki

Áætlað er að fyrstu ker nýju stöðvarinnar verði tilbúin í byrjun 2017, og að slátrun hefjist seinna sama ár. Nýverið keypti Matorka einnig eldistöðina við Húsatóftir í Grindavík til að auðvelda uppbyggingu og betrumbæta framleiðslukerfi félagsins á Reykjanesi.

„Við erum fiskeldisfélag sem var stofnað 2010 en kom undir sameiginlegt erlent eignarhald 2012. Félagið hefur verið rekið í þessu formi frá árinu 2012 en hefur í rauninni allar götur síðan verið að vinna í því að auka framleiðslu á sinni helstu eldisafurð, sem er bleikja og bæta við eldi á Atlantshafslaxi og skapa þannig alvöru eldisfyrirtæki," segir Árni Páll.
Matorka í dag er í rauninni lítið félag með seiðastöð í Fellsmúla í Landssveit og takmarkaða framleiðslu á bleikju. Fiskeldi almennt byggist á seiðaframleiðslu og síðan áframeldi seiðanna. Þetta eru í raun nokkuð ólíkir þættir. Annars vegar er verið að klekja út hrognum og koma seiðunum á „sporð" og svo hins vegar áframeldi sem er mikil fóðrun á fiski til að ná sláturstærð og markaðssetja hann.

Góð staðsetning í Grindavík

„Okkur hefur alltaf vantað góða áframeldisstöð sem hefur aðgang að nægu fersku vatni, jarðsjó fyrir laxinn og jarðvarma. Maður vill svo vera vel tengdur góðu samgönguneti. Þetta allt fundum við koma saman í Grindavík, sér í lagi með samningi okkar við HS Orku um affallið úr virkjuninni í Svartsengi. Þar fengum við jarðvarmann og svo er mikið vatn á svæðinu. Samgöngur eru mjög góðar, stutt í Sundahöfn og upp á Keflavíkurflugvöll til flutninga um heiminn og svo greitt aðgengi að þjónustu og aðföngum úr Reykjavík og af Reykjanesi."

Stöðin verður vestan Grindavíkurbæjar nálægt golfvellinum að Húsatóftum. Þar er búið að skipuleggja iðnaðarsvæði þar sem uppbygging Matorku hefur bæði verið samþykkt í deili- og aðalskipulagi.
„Undanfarin ár höfum við verið með lítið áframeldi fyrir útflutning og innanlandsmarkað rétt hjá seiðastöðinni okkar í Landssveit. Við höfum verið að framleiða 30 til 50 tonn á ár, en höfum ekki séð góða möguleika til frekari uppbyggingar þar, því þar er ekki allt til alls. Þar skortir nægan jarðvarma og jarðsjó. Þess vegna höfum við einbeitt okkur að uppbyggingu nýs áframeldis í Grindavík.

1.500 tonn í fyrsta áfanga

Fyrsti áfangi verður 1.500 tonn, en þegar uppbyggingu verður lokið miðað við núverandi leyfi verður afkastagetan 3.000 tonn, bæði lax og bleikja. Seiðaframleiðslan verður áfram að Fellsmúla þar sem smávegis selta er í vatninu í Grindavík, sem hentar einkar illa fyrir seiðaeldi," segir Árni Páll.

Á Íslandi eru nú framleidd rúm 4.000 tonn af bleikju á ári, en miðað við fyrsta áfangann hjá Matorku verður framleiðslan 750 tonn. Þannig verður aukningin á framleiðslu á bleikju í landinu um 15% með tilkomu eldis Matorku í Grindavík. Þessi viðbót kemur inn á markaðinn á næstu tveimur árum. Aðrir bleikjuframleiðendur virðast einnig ætla sér að auka framleiðslumagn því eftirspurn eftir bleikju er mikil en framboð er mjög takmarkað.

Keyptu eldisstöð að Húsatóftum

„Við höfum einnig keypt gamla eldisstöð við Húsatóftir við Grindavík og við setjum seiði í þá stöð í næstu viku til áframeldis. Þá verðum við með tiltölulega stór seiði sem koma úr Húsatóftum í nýju stöðina. Fyrstu kerin í henni ættu að vera tilbúin strax í byrjun næsta árs, líklega febrúar. Þá setjum við stór seiði í nýju stöðina og getum byrjað að slátra úr þeirri stöð seinnihlutann á næsta ári. Þar sem við erum nú þegar með seiðastöð í gangi verður uppbyggingin hjá okkur hröð miðað við önnur eldisfyrirtæki, sem þurfa í raun og veru að hefja starfsemina með því að byggja sér seiðaeldisstöð og svo að fara að ala seiðin. Við höfum þarna það forskot að vera fyrir löngu byrjaðir á seiðaeldinu fyrir stöðina sem nú er að fara að rísa.

Dýr fiskur

Bleikjan er mjög eftirsóttur fiskur bæði vestan hafs og í Evrópu og er stærri fiskur sérstaklega eftirsóttur. Eftirspurn eftir smárri bleikju er minni en það er oft sem framleiðendur leggja upp með að fá stóran fisk út úr eldinu en sitja svo uppi með tiltölulega smáa bleikju. Fyrir vikið er mun minna um stóra og fallega bleikju. Þá er ég að tala um bleikju sem er komin upp í 1,5 kíló eða meira við sláturstærð.

Bleikjan er bæði seld í sérhæfðum góðum fiskbúðum og betri stórmörkuðum, og fer einnig á fínni veitingastaði svo og í hráneyslu. Þetta er dýr fiskur og það er einmitt þess vegna sem við erum að framleiða hana.
Okkur er mjög annt um umhverfismálin, en í því felast engar öfgar. Markaðurinn er einfaldlega alltaf að gera kröfu um umhverfisvæna framleiðslu og við erum einfaldlega að svara þeim. Markaðurinn fyrir umhverfisvænar vörur borgar betur og sjálfbærni verður síaukin krafa. Eins krefst markaðurinn þess að fóðrið sé laust við lyf og aukaefni sem geti setið eftir í fiskinum. Með landeldi er mun auðveldara að verða við þessari kröfu kúnnans sem vill jú vita hvað hann er að láta ofan í sig," segir Árni Páll Einarsson.

Stórir markaðir fyrir laxfiska

Heildar laxfiskamarkaðurinn er í dag um 3 milljónir tonna, og þar eru atlantshafslax, urriði og kyrrahafslax stærstir. Bleikja og chinook lax eru mun smærri hlutar af laxfiskamarkaðnum. Markaðssvæðin eru í raun um allan heim. N-Ameríka, Evrópa, Rússland, Asía, Eyjaálfa og Latneska Ameríka eru allt markaðir sem hafa tileinkað sér töluverða neyslu á undanförnum áratugum. Eldislaxfiskur er orðinn meirihlutinn af framboði á laxfiskamarkaðnum, en þó nokkuð er um villtan lax úr Kyrrahafi.


Deildu ţessari frétt

AĐRAR FRÉTTIR

Fréttir / 9. apríl 2024

Pistill bćjarstjórnar 9. apríl

Fréttir / 5. apríl 2024

Zimna woda w Grindavík

Fréttir / 3. apríl 2024

Hlúum ađ heilsunni. Ókeypis kostir