Forseti Íslands flutti hátíđarrćđuna á sjómannadaginn

  • Sjóarinn síkáti
  • 8. júní 2016
Forseti Íslands flutti hátíđarrćđuna á sjómannadaginn

Ræðumaður við upphaf hátíðarhalda á sjómannadaginn var sjálfur forseti Íslands, herra Ólafur Ragnar Grímsson. Ólafur lætur af störfum í sumar eftir 20 ára setu á forsetastóli, og verður því að teljast líklegt að þessi ræða verði eitt af hans síðustu embættisstörfum. Ræðuna má lesa í heild sinni hér að neðan:

Heiðruðu sjómenn, góðir Grindvíkingar.

Ég óska ykkur öllum til hamingju með daginn og þakka þann heiður að vera boðið að taka þátt í þessum glæsilegu hátíðarhöldum, að fagna sjómannadeginum með Grindvíkingum og verða enn á ný vitni að hinni kraftmiklu gleði sem jafnan setur hér svip á daginn.

Það hefur verið mér mikils virði að eiga á langri leið samfylgd með Grindvíkingum, sækja hingað ráð og visku, njóta þeirra hygginda sem einkenna viðhorf og lífssýn íbúanna, sjómanna og fiskvinnslufólks; birtast í samstöðu Grindvíkinga.

Þegar ég tók við embætti forseta Íslands urðu tengslin við Grindavík enn sterkari. Á fyrsta sjómannadeginum í forsetatíð minni var ég hér með ykkur í sólskininu og bátslíkanið sem þið færðuð mér hefur allar götur síðan prýtt Bessastaðastofu. Það er því skemmtilegt og við hæfi að verja síðasta sjómannadeginum sem forseti einnig í Grindavík, vera hér við höfnina og hafið, gleðjast á ný í vinahópi.

Saga Grindavíkur er í hnotskurn saga Íslands; sjávarplássið sem reis úr fátækt og basli, byggði upp tæknivæddan sjávarútveg og vinnslu, gerði fólkinu kleift að flytja í ný og betri húsakynni, reisa mannvirki fyrir íþróttir og félagsstarf, hlúa að farsæld og framförum.

Það er stundum snúið að útskýra fyrir erlendum gestum hvernig Íslendingum tókst á tuttugustu öldinni að komast í fremstu röð, segja skilið við eymd og erfiði fyrri tíðar, og þróa í krafti hins öfluga sjávarútvegs samfélag velferðar, heilbrigðis og mennta, nýta fengsæl fiskimið til að treysta grunn lýðveldis og hagsældar.

Þá hefur mér löngum reynst vel að koma með gestina til Grindavíkur, fara fyrst á Saltfisksetrið þar sem myndirnar af moldargötum, bárujárni og frumstæðri vinnslu, erfiðisfólki í daglegri önn lýsa tímanum til seinna stríðs. Fara svo um höfnina og nýju fyrirtækin, aka um bæinn, skoða veglegar byggingar helgaðar menntun og íþróttum æskufólksins. Á dagstund í Grindavík kynnast gestirnir í hnotskurn sigurgöngu Íslendinga.

Ég hef ekki lengur tölu á þeim erlendu þjóðhöfðingjum, forsetum, forystumönnum og öðru áhrifafólki sem ég hef komið með hingað til ykkar í Grindavík og þakka í dag hinar frábæru móttökur sem við höfum ávallt fengið. Minningarnar eru margar og leiftrandi. Má sem dæmi og til skemmtunar nefna þegar Ulmanis forseti Lettlands kom til Íslands, fyrstur forseta þessa Eystrasaltsríkis, og heimsótti þá að sjálfsögðu Grindavík; gekk út á gólfið í íþróttahúsinu í hóp ungra stráka sem létu körfuboltann ganga á milli. Forsetinn tók áskorun þeirra og skoraði öllum til undrunar körfu í hverju skoti; vann samstundis hug og hjörtu hinna ungu Grindvíkinga sem reyndar vissu ekki að Ulmanis hafði á yngri árum verið góður leikmaður í sínu heimalandi.

Íþróttirnar hafa löngum, líkt og sjómannadagurinn, birt samstöðu íbúanna hér við hafið, bærinn fóstrað fjölda liða í fremstu röð sem att hafa kappi um helstu titla, eflt stoltið og gleðina í hugum allra. Þegar Grindvíkingar fjölmenna á heimaleik mega gestirnir hafa sig alla við að missa ekki kjarkinn og sami baráttuandi ríkti á hinum fræga úrslitaleik á Laugardalsvelli. Sagt er að þótt leikmennirnir héðan hafi lotið í lægra haldi hafi Grindvíkingar með glæsibrag unnið hvatningarköllin úr stúkunni.

Já, það eru margar gleðistundirnar sem Grindvíkingar hafa veitt sjálfum sér og góðum gestum; en þó vitum við öll að lífsbaráttan hér hefur líka verið hörð; mannfórnir miklar; áhafnir ekki allar snúið heim; hetjur hafsins barist í brimgarðinum; hin vota gröf örlög margra. Fjölskyldur, vinir, ættingjar, byggðarlagið allt lotið höfði í djúpri sorg.

Hafið er ekki aðeins gjöfult heldur líka harður húsbóndi; dagurinn helgaður minningu þeirra sem látið hafa lífið í glímunni við Ægi; minningu sem setur svip á sjómannadaginn í öllum plássum; minningu sem er samgróin sögu Íslendinga og vísar á þá staðreynd að árangur okkar hefur kostað miklar fórnir. Minnisvarðar um drukknaða sjómenn um landið allt bera vitni um að sorgin hefur líka verið förunautur á vegferðinni til hagsældar.

Á sjómannadaginn hyllum við einnig þá sem á fyrri tíð voru í fararbroddi við útfærslu landhelginnar og þökkum þá einörðu samstöðu sem á ögurstundu færði þjóðinni sigur. Andstaða hinna erlendu ríkja var ærið hörð; löndunarbann í Bretlandi þegar fyrst var fært út um eina mílu; síðan herskipin þegar farið var í tólf, fimmtíu og tvö hundruð; hildarleikir sem virðast nú vera fjarri en úrslitin engu að síður forsenda þess að lýðveldið hélt velli efnahagslega; átök sem voru á sínum tíma einstæð í sögu Evrópuríkja. Hin fámenna, vopnlausa þjóð vann sigur á heimsveldinu. Hún trúði á eigin málstað og bar gæfu til að standa saman. Síðar komu aðrar þjóðir siglandi í kjölfarið og stefnan um tvö hundruð mílna fiskveiðilandhelgi varð að allsherjarreglu í veröldinni.

Á þessum sigrum hvílir hin einstæða uppbygging íslensks sjávarútvegs; árangurinn sem vakið hefur athygli um allan heim. Ásamt vernd fiskistofna, tæknibyltingu í veiðum og vinnslu, nýtingu upplýsingatækni til að tryggja gæði, markvissri ræktun á tengslum við neytendur í öðrum löndum hefur forræði Íslendinga sjálfra á auðlindum hafsins gert þjóðinni kleift að byggja trausta innviði samfélagsins, hlúa að hagsæld og velmegun; sjávarútvegurinn lengst af sú uppspretta gjaldeyris sem gerði okkur kleift að greiða fyrir aðföng til uppbyggingar á mörgum sviðum.

Þótt aðrar atvinnugreinar hafi á hinni nýju öld gengið í lið með sjávarútveginum og orðið burðarásar í efnahag okkar þá hefur sjávarútvegurinn algera sérstöðu í þessari löngu sögu. Hann er fjárhagsleg forsenda þess að Íslendingum tókst að festa hið unga lýðveldi í sessi, verða þjóð meðal þjóða.

Grindavík birtir okkur í hnotskurn þessa sögu, byggðin ykkar eins konar skuggsjá af árangri Íslendinga. Sjómannadagurinn því helsta hátíð ársins.

Bærinn er líka, eins og þjóðin, að færa út kvíar; Bláa lónið orðið ásamt Þingvöllum og Gullfossi helsti áfangastaður erlendra gesta; búist við rösklega milljón manns á þessu ári. Hver hefði trúað því þegar bæjarstjórnin ákvað fyrir áratugum að ráðast í hitaveitu? Svo eru fyrirtæki í nýsköpun og hátækni; orkuverin dæmi fyrir heimsbyggð alla um hvað duga mun best í baráttunni gegn umturnun á loftslaginu.

Sjávarbyggðin í Grindavík er á margvíslegan hátt orðin dæmasafn í hinu nýja hagkerfi þessarar aldar; lærdómurinn á komandi tímum ekki aðeins fólginn í nútímalegum sjávarútvegi heldur líka í sjálfbærri nýtingu auðlinda á öðrum sviðum; Grindavík og nágrenni áfangastaður þar sem ungt fólk frá Evrópu, Asíu, Ameríku og öðrum álfum fær nýja sýn á Móður Jörð.

Saga byggðarinnar heldur því áfram að vera ævintýri; öðrum fyrirmynd til eftirbreytni; sönnun þess að samstaða og samtakamáttur fólksins getur lyft Grettistaki; verið bjargið sem ekki brotnar þótt áföll og erfiðleika beri að garði.

Kæru Grindvíkingar. Þið hafið löngum veitt mér vináttu og gott veganesti; verið mér einatt sú jarðtenging sem best reyndist; á ögurstundum og í glímu við erfiðar ákvarðanir; stuðningur Grindvíkinga jafnan vísbending um rétta leið.

Þegar litið verður um öxl, skoðuð sú tíð þegar hin æðsta ábyrgð hvíldi á mínum herðum, þá er órofa hluti af þeirri mynd sú gæfa mín að taugin til Grindavíkur var ætíð römm, álit ykkar jafnan hollt og heillavænlegt.
Þessa einstöku samfylgd þakka ég ykkur hér í dag og óska Grindavík, byggðinni og íbúum öllum, gæfu og gengis um ókomna tíð.

Mynd: Eyjólfur Vilbergsson

Deildu ţessari frétt

AĐRAR FRÉTTIR

Grunnskólafréttir / 16. nóvember 2018

Fyrsti bekkur heimsćkir leikskólann Krók

Fréttir / 15. nóvember 2018

Matseđill nćstu viku í Víđihlíđ

Fréttir / 1. nóvember 2018

Atvinna - Upplýsinga og markađsfulltrúi

Fréttir / 6. nóvember 2018

Íbúđ í Víđihlíđ er laus til umsóknar

Fréttir frá Ţrumunni / 12. nóvember 2018

Félagsmiđstöđva- og ungmennahúsadagurinn á miđvikudaginn

Grunnskólafréttir / 9. nóvember 2018

Popplegur lestrarsprettur

Fréttir / 9. nóvember 2018

Lokun viđ Stamphólsveg 4

Lautafréttir / 7. nóvember 2018

Lestrarátaki Lautar lokiđ

Fréttir / 6. nóvember 2018

Opinn fundur í Framsóknarhúsinu

Fréttir / 5. nóvember 2018

Lokun viđ Stamphólsveg 4

Fréttir / 8. nóvember 2018

Matseđill nćstu viku í Víđihlíđ

Grunnskólafréttir / 2. nóvember 2018

Barnaheill bođa símalausan sunnudag

Bókasafnsfréttir / 2. nóvember 2018

Ţetta vilja börnin sjá 2018

Fréttir / 2. nóvember 2018

Matseđill nćstu viku í Víđihlíđ

Íţróttafréttir / 31. október 2018

Leikjaskrá körfunnar er komin út