Reglur um samskipti skólastofnana viđ trúar- og lífsskođunarfélög

  • Fréttir
  • 24. mars 2016

Bæjarstjórn Grindavíkurbræjar hefur samþykkt reglur um samskipti leik-, grunn- og tónlistarskóla í Grindavík við trúar- og lífsskoðunarfélög. Reglur þessar grundvallast á þeim viðmiðum sem fram koma í tillögu starfshóps mennta- og menningarmálaráðuneytisins, sem skipaður var 4. október 2012. Biskups-stofa, Heimili og skóli, Kennarasamband Íslands, Samband íslenskra sveitarfélaga og Siðmennt áttu fulltrúa í hópnum, auk fulltrúa ráðuneytisins.
Reglurnar eru eftirfarandi:

1. Hlutverk skóla er m.a. að fræða nemendur um ólík trúarbrögð og lífsskoðanir samkvæmt gildandi aðalnámskrá og námsefni.

2. Trúar- og lífsskoðunarfélög stunda ekki starfsemi sína innan veggja skóla bæjarins á skólatíma. Þetta á við allar heimsóknir í lífs-skoðunar- og trúarlegum tilgangi og dreifingu á boðandi efni. Með boðandi efni er átt við hluti sem gefnir eru eða notaðir sem hluti af trúboði, það er tákngripir, fjölfölduð trúar- og lífsskoðunarrit, bækur, hljóðrit, prentmyndir og kvikmyndir.

3. Heimsóknir á helgi- og samkomustaði trúar- og lífsskoðunarfélaga á skólatíma grunnskóla skulu eiga sér stað undir handleiðslu kennara sem liður í fræðslu um trú og lífsskoðanir, samkvæmt gildandi lögum og aðalnámskrá. Þar sem ekki er sérstaklega getið um vettvangsheimsóknir leikskólabarna á helgi- og samkomustaði trúar- og lífsskoðunarfélaga sem lið í fræðslu um trú og lífsskoðanir í aðalnámskrá leikskóla er eðlilegt að miða fjölda slíkra heimsókna við það sem fram kemur í aðalnámskrá grunnskóla til að gæta samræmis milli skólastiga. 

4. Heimsóknir í kirkjur í tengslum við stórhátíðir kristninnar telst hluti af fræðslu um trúarhátíðir og menningarlega arfleifð þjóðarinnar. Gæta þarf þess að foreldrar og skólaráð séu upplýstir tímanlega um námstilhögun, námsefni og vettvangsferðir.

5. Skólastjóri/kennari grunnskóla geta boðið fulltrúum trúar- eða lífsskoðunarfélaga að heimsækja kennslustundir í trúarbragðafræði/lífsleikni sem lið í fræðslu um trú og lífsskoðanir samkvæmt gildandi aðalnámsskrá og námsefni. Heimsóknin fer fram undir handleiðslu kennara.

6. Forðast skal eftir fremsta megni að nemendur og foreldrar séu settir í þá aðstöðu að þurfa að gera grein fyrir lífsskoðunum sínum.

7. Skólayfirvöld beina því til trúar- og lífsskoðunarfélaga að þau skipuleggi fermingarfræðslu og barnastarf með það að leiðarljósi að það trufli ekki lögbundið skólastarf um skemmri eða lengri tíma.

8. Ef áfall verður í skólum er unnið samkvæmt samþykktri áfallaáætlun viðkomandi skóla.

9. Um almenna kynningu eða auglýsingar á starfsemi trúfélaga í skólum skulu gilda sömu reglur og um kynningu annarra félagasamtaka.

 

 


Deildu ţessari frétt

AĐRAR FRÉTTIR

Fréttir / 9. apríl 2024

Pistill bćjarstjórnar 9. apríl

Fréttir / 5. apríl 2024

Zimna woda w Grindavík

Fréttir / 3. apríl 2024

Hlúum ađ heilsunni. Ókeypis kostir