Vaxandi ţjónusta í vaxandi bć

  • Fréttir
  • 21. mars 2016

Við leggjum mikið upp úr því að hér í Grindavík sé góð þjónusta, hvort heldur litið er til opinberrar þjónustu eða þjónustu á vegum einkaaðila. Í Járngerði er umfjöllun um árlega könnun Gallup á þjónustu meðal 19 sveitarfélaga á Íslandi. Grindavíkurbær tók þátt vegna ársins 2014 og aftur núna vegna ársins 2015. Afar ánægjulegt er að sjá að við hækkum á flestum mælikvörðum.

 

Þegar á þjónustu sveitarfélagsins á heildina er litið hækkum við okkur um 7 sæti, úr því 12 í 5. Sem við getum verið afar stolt af. Starfsfólk Grindavíkurbæjar leggur sig fram um að gera vel. Það eru líka tækifæri til úrbóta, og erum við að vinna í þeim. Þar er helst litið til þjónustu við eldri borgara og ánægju með svörun og afgreiðslu mála. Ánægja með þjónustu grunnskólans er vaxandi, og munum við halda áfram á þeirri braut sem vörðuð var með úrbótaáætlun skólans. Í mars verður haldinn íbúafundur um þjónustu við eldri borgara, og stjórnendur hafa þegar gripið til ráðstafana til að auka hraða við svörun og afgreiðslu erinda.

Þjónusta ríkisins ekki nógu góð

Alveg á sama hátt og við gerum kröfur til okkar sjálfs, þá gerum við kröfur til annarra þjónustu-veitenda. Í könnuninni kemur fram að Grindvíkingar vilja bæta heilbrigðisþjónustu í bænum, en hún er rekin af Heilbrigðisstofnun Suðurnesja. Grindavíkurbær hefur um árabil lýst yfir áhuga á því að taka yfir rekstur hjúkrunarheimilsisins í Víðihlíð og heimahjúkrunar, án þess að þær viðræður við ríkið hafi borið árangur. 

Grindvíkingar gera líka athugasemdir við samgöngumál, og vísa þá fyrst og fremst til Grindavíkurvegar. Sá vegur er fjölfarnasti ferðamannvegur landsins, en um 1 milljón gesta fer árlega í Bláa Lónið. Ríkið hefur miklar tekjur af ferðaþjónustu í Grindavík, sem eðlilegt er að gera kröfu um að skili sé til viðhalds og uppbyggingar helstu innviða. Svo sem Grindavíkurvegar. Jafnframt gera Grindvíkingar athugasemdir við skort á vetrarþjónustu á Suðurstrandarvegi milli Reykjanessvita og Þorlákshafnar.

Þjónusta einkaaðila vaxandi með auknum íbúafjölda og ferðamönnum

Íbúar í Grindavík eru rúmlega 3.100. Þar að auki fara að jafnaði um 2.000 ferðamenn um bæinn daglega. Við íbúarnir, og okkar gestir, gerum kröfur um góða þjónustu. Undirritaður hefur átt fundi og símtöl með nokkrum þjónustuaðilum í bænum og óskað eftir breytingum á þjónustunni. Bæði vöruframboði og opnunartíma. Skemmst er frá að segja að Nettó brást vel við þeim óskum og hefur þegar aukið opnunartíma og gert breytingar í versluninni. Vínbúðin hefur jafnframt tilkynnt að í sumar verði gerð tilraun með aukinn opnunartíma á föstudögum og laugardögum. Mikið hefur verið kvartað yfir því að þjónusta olíufélaganna sé lítil og vöruframboð takmarkað. Olíufélögin hafa því miður ekki enn verið tilbúin að bæta þá þjónustu við íbúa og ferðamenn, þó þau séu í gríðarlega miklum viðskiptum við útgerðarfélög í Grindavík. Við íbúar verðum að standa saman um að þrýsta á þá aðila sem ekki standa sig, um að bæta þjónustuna. 
Undanfarin misseri hefur þjónusta við ferðamenn farið vaxið hratt í bænum, en sá vöxtur gagnast íbúum líka vel. Gistirými í Grindavík eru um 170, hér eru 10 veitingastaðir og mjög vaxandi verslun og þjónusta. 
Það er afar mikilvægt að þjónustuveitendur í vaxandi sveitarfélagi eins og Grindavík séu vakandi fyrir óskum og þörfum viðskiptavina sinna og bregðist skjótt við í breyttum aðstæðum. 

Róbert Ragnarsson, bæjarstjóri

Greinin birtist fyrst í 1. tbl. Járngerðar 2016, fréttabréfi Grindavíkurbæjar.


Deildu ţessari frétt

AĐRAR FRÉTTIR

Fréttir / 5. apríl 2024

Zimna woda w Grindavík

Fréttir / 3. apríl 2024

Hlúum ađ heilsunni. Ókeypis kostir

Fréttir / 3. apríl 2024

Höfum gleđina međ!

Fréttir / 2. apríl 2024

Ađstođ viđ fjármál