Vinnuskólinn gekk vel

  • Fréttir
  • 12. október 2015

Líkt og undanfarin ár var Vinnuskól-inn starfræktur fyrir ungmenni sem voru að ljúka 8., 9. og 10. bekk grunnskólans auk fyrsta bekkjar framhaldsskólans. Hjalti S. Guðmundsson umsjónarmaður grænna og opinna svæða var verkstjóri Vinnuskólans í sumar og Kristín Karlsdóttir aðstoðarverkstjóri.

Nokkrar breytingar voru gerðar í starfsemi Vinnuskólans í sumar, þá aðallega gagnvart vinnu flokksstjóranna sem unnu að ýmsum nýjum verkefnum. Í fyrra var vinnutími nemenda aukinn talsvert frá því sem áður var og hélst sá vinnutímafjöldi. Um 100 nemendur voru í Vinnuskólanum í sumar og fækkaði um 38 á milli ára en mesta fækkunin var hjá elsta aldurshópnum. Flokksstjórar voru 12.

Starf Vinnuskólans gekk í heildina mjög vel. Flokksstjórar og nemendur fóru á námskeið til að efla þau í starfi og þá var þriðja sumarið í röð stórskemmtilegt samstarf við Codland sem nánar er fjallað um á síðunni við hliðina. Þá var haldinn sameiginlegur vinnuskóladagur í Grindavík með Garði, Vogum og Sandgerði. Boðið var upp á forvarnarfyrirlestra um netnotkun og svo farið í leiki. Var þetta virkilega skemmtilegur dagur með nágrönnum okkar.

Verkefni Vinnuskólans sumarið 2015:

Sláttur: Gekk í heild sinni vel. Traktorinn hjá Þjónustumiðstöðinni var reyndar bilaður í lang-an tíma og einnig fór hann of lítið út vegna manneklu. Traktorinn sér um að slá öll stóru svæðin í sveitarfélaginu. Færri voru í slátturhóp eða 10 strákar og sáu þeir um að slá allt sveitarfélagið og 50 heimilisgarða, þ.e. fyrir eldri borgara og öryrkja. Í ljósi þessa þá gekk bara mjög vel í sumar og tókst að slá meira og minna allt sem var á dagskrá.
Víkurbraut: Farið var í að rífa upp aspir í eyjum. Einnig tókum við svæðið fyrir utan grunnskólann og gerðum það fínt með grasi, blómabeðum, hellulögn og settum bekk þar. Þetta verkefni kom mjög vel út.
Sumarblóm: Sumarblómin áttu erfitt líf þar sem við tókum þau til okkar fyrir Sjóarann síkáta, sem er í allra fyrsta lagi. Mörg blóm lifðu það ekki af. Loks kom svo smá hiti og bjargaði þessu. Margar blómaskreytingar voru mjög fallegar eins og stóru hringlaga pottanir og hringtorgið.
Víðihlíð: Mikil gróðursetning átti sér stað í Víðihlíð.
Skipting hópa í hverfi: Það fór mikill tími í sumar í að hreinsa úr gangstéttum og niðurföllum í sumar. Við skiptum hópum í hverfi þar sem verkefnið var að gera sitt hverfi fallegt og flott. Það var allt frá því að gogga og að gróðursetja sumarblóm o.fl.
Málun: Það var mikið málað í sumar og tók það mikið frá öðrum verkefnum sökum þess að ekki hafði gefist veður að mála síðustu sumur vegna votviðris. Nú var tækifærið nýtt vel í góðviðrinu og nánast allt málað. Það gekk mjög vel, öll leiktæki voru máluð nema á tjaldstæðinu þar sem ekki var þörf á. Kantsteinar voru málaðir, ekki náðist þó að fara í allar götur. Borið var á palla o.fl.
Skógræktarfélagið: Við fórum að aðstoða Skógræktarfélagið við að gera stíg upp Þorbjörn. Þetta var erfið vinna fyrir krakkana en þau stóðu sig vel í þá viku sem þetta starf fór fram sem fólst í aðstoð við sjálfboðaliða hjá Seeds.
Tjaldsvæði: Það fór mikil vinna í tjaldstæðið að vanda. Arfahreinsa og kantskera. Fjarlægja beð úr mönum og tyrft í staðinn. Fara þarf í endurbætur á gróðri og að moka upp beð og gróðursetja uppá nýtt á næstu árum.
Litluvellir: Settar voru niður stórar aspir sem komu frá íþróttamiðstöðinni. Mikil vinna fór fram þarna. Það hefur sennilega ekki verið mikið gert þarna í nokkur ár en teljum við að við höfum náð gróðrinum vel af stað í sumar.
Hólavellir (Gerðavellir): Ekki náðist að klára þetta fallega svæði í sumar en það verður gert á næsta ár.
Hópskóli: Það var ekki mikið hægt að gera þar því þar eru öll beð yfirfull af hófblöðku sem er eitt af því versta sem hægt er að fá í beð. Ákveðið var að fá verktaka í verkefnið og er unnið að því nú.
Ýmis verkefni: Vinnuskólinn fékkst einnig við ýmis önnur verkefni og aðstoðaði m.a. eldri borgara við að flytja billardborð úr bláu útistofunni við grunnskólann í aðra útistofu. Þá voru ýmis tilfallandi verkefni eins og aðstoð við Ungmennagarðinn, mikill tími fór í aðstoð við leikjanámskeiðið, sérstaklega sundferðir, og svo margt fleira.

Skoðanakönnun

Send var út skoðanakönnun á alla foreldra/forráðamenn þeirra sem áttu unglinga í Vinnu-skólanum í sumar og þeir beðnir að svara spurningunum með unglingunum. Aðeins 26 svöruðu af um 100 sem rýrir talsvert gildi á niðurstöðunum en gefa vonandi einhverja vísbendingu.

Niðurstöðurnar voru frekar jákvæðar, 69% voru mjög ánægð eða frekar ánægð með skipu-lag og starfsemi Vinnuskólans. Um 23% voru hvorki ánægðir né óánægðir og aðeins tveir einstaklingar voru frekar óánægðir.
Þá ríkti mikil ánægja með flokksstjórana. Um 70% voru mjög ánægðir eða frekar ánægðir með þá, um 20% voru hlutlausir og aðeins tveir einstaklingar voru frekar eða mjög óánægðir.

Spurt var út í laun og voru tæp 24% frekar eða mjög ánægð, um 30% hlutlaus og um 55% frekar eða mjög óánægð. Þá komu fram ýmsar ábendingar um hvernig hægt er að efla starf Vinnuskólans næsta sumar.

Greinin birtist fyrst í Járngerði, fréttabréfi Grindavíkurbæjar


Deildu ţessari frétt

AĐRAR FRÉTTIR

Fréttir / 9. apríl 2024

Pistill bćjarstjórnar 9. apríl

Fréttir / 5. apríl 2024

Zimna woda w Grindavík

Fréttir / 3. apríl 2024

Hlúum ađ heilsunni. Ókeypis kostir