Tungumálanámskeiđ í Piteĺ

  • Fréttir
  • 6. október 2015

Piteå í norður Svíþjóð hefur verið vinabær Grindavíkur síðan 1977. Þráðurinn var tekinn upp aftur fyrir nokkrum misserum og vinna bæjarfélögin nú að ýmsum samstarfsverkefnum. Í fyrra fóru þær Fríða Egilsdóttir og Kristín Gísladóttir á sænskunámskeið til Piteå en þetta var samstarfsverkefni vinabæjanna. Í sumar var ákveðið að endurtaka leikinn í samvinnu við Norræna félagið í Grindavík og var ákveðið að bjóða ungu fólki upp á að fara á 10 daga sænskunámskeið.

Í auglýsingu um námskeiðið sagði: „Norræna félagið í Grindavík, í samstarfi við Grindavíkurbæ, vinabæinn Piteå í Svíþjóð og Norðurlandaráð, býður upp á endurmenntunarnámskeið í sænsku sem sérstaklega er ætlað fyrir vinabæi Piteå. Námskeiðið fer fram dagana 27. júlí til 5. ágúst n.k. Innifalið er flug, gisting og námskeiðið sjálft. Í boði eru tvö sæti á námskeiðinu, allt frá nemendum á unglingastigi grunnskólas og eldri. Skilyrði er að viðkomandi starfsmaður hafi einhvern bakgrunn í sænsku tungumáli.

Undirrituð og Jón Þór Arnarsson vorum svo heppin að vera valin úr góðum hópi umsækjenda. 26. júlí síðastliðinn lögðum við Jón af stað til Piteå, vinabæjar Grindavíkur í Svíþjóð. Bæði höfum við búið í Svíþjóð í einhvern tíma og vorum með smá grunn áður en við fórum. 

Ferðalagið gekk vel og enduðum við á háskólagarði rétt fyrir utan Piteå þar sem skólinn og íbúðirnar voru á sama staðnum sem var afskaplega þægilegt. Næstu 10 dagana var farið eftir námsáætlun sem var búið að gera fyrir okkur. Hefðbundinn dagur var að vakna klukkan 8, kennslutímar til hádegis og svo var farið eða gert eitthvað fram að kvöldmat og eftir mat var horft saman á sænska bíómynd.

Kennslutímarnir voru með hefðbundnu sniði, mjög líkir dönskutímum hérna heima nema miklu meiri áhersla á að tala. Dæmi um það sem við gerðum eftir hádegi var að einn daginn fórum við á sænskan gamlan búgarð þar sem fólk hafði erft frá ættingjum sínum í áraraðir. Þar kemur fólk með fjölskyldum sínum á mánaðarfresti og á góðan dag saman og eru allir velkomnir. 

Við fórum einnig niður í miðbæ og helstu staðirnir skoðaðir. Einn daginn hittum við krakka frá Piteå og spiluðum við saman blak, fótbolta eða Kubb og enduðum svo á að grilla sykurpúða við varðeld, sungum saman og spilað var á gítar. Við skoðuðum foss sem heitir Storforsen og var það nú ekkert nýtt fyrir okkur Íslendingana en náttúran í kring var mjög falleg og skemmtilegt að sjá. 

Eitt kvöldið kom eldra fólk frá Piteå og borðaði með okkur kvöldmat, svo sungum við saman nokkur lög á sænsku, finnsku og íslensku. Krakkarnir frá Finnlandi leyfðu okkur svo að smakka ekta finnskt nammi, sýndu dansatriði og leyfðu okkur prófa að segja nokkur erfið orð á finnsku. Ég og Jón Þór komum líka með nammi og leyfðum þeim að prófa að segja eitthvað á íslensku líka.

Í frítímanum gerðum við ýmislegt. Böðuðum í vatninu, fórum niður í miðbæ, í gufubað, á flóamarkað og margt fleira. Krakkarnir voru mjög skemmtilegir og var hópurinn mjög samheldinn. Við vorum 23 alls og voru þau næstum öll frá Finnlandi nema við Jón Þór og svo tveir aðrir frá Svíþjóð. Gaman er að segja frá því að aðalkennarinn á námskeiðinu kom svo til Íslands viku eftir að við komum heim og heilsaði uppá mig í vinnunni þegar hún fór í Bláa Lónið. Þetta voru virkilega skemmtilegir og lærdómsríkir 10 dagar og gaman að fá að prófa eitthvað nýtt og öðruvísi. 

Guðný Dröfn Guðbjartsdóttir

Greinin birtist fyrst í Járngerði, fréttabréfi Grindavíkurbæjar

 

 


Deildu ţessari frétt

AĐRAR FRÉTTIR

Fréttir / 5. apríl 2024

Zimna woda w Grindavík

Fréttir / 3. apríl 2024

Hlúum ađ heilsunni. Ókeypis kostir

Fréttir / 3. apríl 2024

Höfum gleđina međ!

Fréttir / 2. apríl 2024

Ađstođ viđ fjármál