Grindvíkingar ađ missa af Pepsi-lestinni?

  • Knattspyrna
  • 30. júlí 2015

Það voru fínustu aðstæður til knattspyrnuiðkunar á Vivaldivellinum á Seltjarnarnesi í gær. Hægur andvari og völlurinn iðagrænn, sem hann er reyndar allt árið. Bæði lið þurftu á sigrinum að halda, Grindavík til að blanda sér í toppbaráttuna og Grótta til að spyrna við fæti í botnbaráttunni. Á upphafsmínútunum leit allt út fyrir að Grindavík myndi skora og var hálfgerð einstefna að marki Gróttu.

Á 20. mínútu átti Jósef Kristinn algert dauðafæri eftir að Grindvíkingar léku varnarmenn Gróttu sundur og saman en boltinn fór hárfínt framhjá markinu. Skömmu seinna fengu Grindvíkingar svo ískalda og blauta tusku harkalega í andlitið þegar Grótta skoraði umdeilt mark uppúr engu. Eftir klaufagang í vörninni kom slakt skot á markið sem Grindvíkingar björguðu á línu. Línuvörðurinn Rúna Kristín Stefánsdóttir var þó ekki á sama máli og dæmdi markið gott og gilt. Leikmenn Grindavíkur mótmæltu harðlega en markið stóð.

Grindvíkingar héldu áfram að sækja og sóttu nánast án afláts allan leikinn, voru sennilega með boltann um 90% af leiknum en það var lítill broddur í sóknarleiknum. Sóknarleikurinn einkenndist af miklu hnoði og hálffærum. Í þau skipti sem liðið kom sér í ákjósanleg færi brást leikmönnum liðsins algjörlega bogalistin og boltinn fór ýmist framhjá eða rúllaði í fangið á markmanni Gróttu. Tomislav Misura tók út leikbann í þessum leik en hann hefur skorað 35% marka liðsins í sumar, eða 7 stykki af 20.

Grindvíkingar gáfust þó aldrei upp og reyndu sitt besta til að setja mark og settu þunga pressu á Gróttu síðustu mínúturnar. Markvörður þeirra varði nokkrum sinnum mjög vel í blálokin og bjargaði sennilega sigrinum með tilþrifum sínum. Grindvíkingar létu dómarann fara töluvert í taugarnar á sér, en Gróttumenn fengu að nota hendurnar töluvert meira en eðlilegt getur talist í fótboltaleik. Það er þó ekki hægt að kenna honum um þetta tap.

Grindvíkingar sitja eftir leikinn sem fastast í 6. sæti og allt útlit fyrir að Pepsideildin sé ekki lengur í kortunum í ár. Enn eru þó 24 stig í pottinum og tölfræðilegur möguleiki til staðar og fyrirliðinn Ásgeir Ingólfsson sagði í viðtali eftir leik að Grindavík myndi að sjálfsögðu fara í alla leikina sem eftir eru til að vinna þá.

Næsti leikur Grindavíkur er að viku liðinni, en það er heimaleikur gegn Selfossi þann 6. ágúst.

Myndasafn hjá fótbolta.net - myndina tók Eyjólfur Garðarson


Deildu ţessari frétt

AĐRAR FRÉTTIR

Fréttir / 10. apríl 2024

NIE ZAPOMINAJMY O OKAZJACH DO RADOSCI

Fréttir / 9. apríl 2024

Pistill bćjarstjórnar 9. apríl

Fréttir / 5. apríl 2024

Zimna woda w Grindavík

Fréttir / 3. apríl 2024

Hlúum ađ heilsunni. Ókeypis kostir

Fréttir / 3. apríl 2024

Höfum gleđina međ!