Tónlistarskólinn í Grindavík - skólaáriđ 2014-2015 yfirlit

  • Fréttir
  • 13. júní 2015

Nú er að baki vetur sem hefur bæði verið mjög spennandi og afar lærdómsríkur. Tónlistarskólinn flutti í þetta nýja og glæsilega húsnæði í haust og var það formlega vígt 16. október sl. og hefur gjörbylt allri starfsaðstöðu bæði nemenda og kennara.

Í vetur bauð tónlistarskólinn upp á einkakennslu á fiðlu, klarínett, klassískan gítar, píanó, rafbassa, rafgítar, söng, trommur, trompet, horn og þverflautu. Einnig var boðið upp á hóptíma í fræðigreinum fyrir alla nemendur skólans ásamt opnum tímum í tónlist og tölvum í tölvuveri skólans. 

Í samstarfi við Grunnskólann var eins og áður öllum 6, 7 og 8 ára börnum boðið upp á forskólakennslu en fer sú kennsla nú fram í húsnæði Hópskóla. Kennsla 5. bekkja í hljóðfæranámi hélt líka áfram. Sú kennsla fór fram í 2 - 3 manna hópum þar sem að hálfur bekkur kom í tónlistarskólann í senn og skiptist þar niður á þau hljóðfæri sem að þau höfðu valið. Þessari hljóðfærakennslu er skipt niður á þrjár annir þannig að eftir veturinn hafa nemendurnir fengið að prófa 3 mismunandi hljóðfæri. Einnig var Tónlist og tölvur kennd sem valgrein í 7. - 10. bekkjum grunnskólans.

Þann 21. október skall svo á verkfall félags tónlistarskólakennara sem stóð í nærfellt fimm vikur eða til 25. nóvember og setti það mark sitt á haustönnina. Þrátt fyrir það kom tónlistarskólinn víða við í vetur. Nemendur komu t.a.m. fram á opnunarhátíð Iðunnar, á þrettándanum og í friðargöngu. Jólatónleikum skólans í Grindavíkurkirkju var aflýst og þess í stað haldnir tvennir tónleikar og "litlu jól" á sal tónlistarskólans sem féll í góðan jarðveg.

Þann 16. febrúar héldum við upp á dag tónlistarskólanna með opnu húsi frá kl. 10:00 - 13:00 og voru nemendur með uppákomur á heila og hálfa tímanum heitt var á könnunni djús og kex. Þetta var lærdómsríkt og skemmtilegt og við eigum eflaust eftir að prófa fleiri útfærslur á opnu húsi í framtíðinni.

Nemendur tónlistarskólans spiluðu við opnun menningarviku þann 14. mars sl. og var skólinn einnig með tónleika í tilefni þeirrar viku.

Tónlistarskólinn sendi verðugan fulltrúa sinn til að spila á stóru upplestrarkeppninni sem haldin var í mars í Vogunum. Einnig spiluðu nemendur í æskulýðsmessu, á samkomu eldri borgara í Eldborg og á samkomu Lions í nýjum sal íþróttamannvirkisins.

Fastir liðir skólans voru á sínum stað eins og mánaðarlegir tónfundir, tvennir jólatónleikar og nú síðast þrennir vortónleikar. Einnig komu nemendur fram á vorgleðinni, og skólaslitum Grunnskólans í júní.

Leikskólarnir heimsóttu tónlistarskólann eins og undanfarin ár. Í þeim heimsóknum fá börnin að prófa öll hljóðfæri skólans og hlýða á nemendur tónlistarskólans spila fyrir þau á ýmis hljóðfæri. Þetta eru einstaklega ánægjulegar heimsóknir. Fulltrúi tónlistarskólans heimsótti einnig Leikskólann Krók í menningarvikunni.

Um áramót hófst innleiðing nýrrar kennsluaðferðar, Eftirfylgniaðferðin sem er aðlöguð og útfærð aðferð úr speglaðri kennslu sem ætluð er til að styðja nemandann í heimanámi í fræðigreinum og við hljóðfæraæfingar. Kennarar skólans eru komnir mislangt í þessari innleiðingu en stefnt er að því að þessi aðferð verði orðinn fastur hluti af kennslunni þegar að innleiðingarferlinu lýkur um næstu áramót.

Kær kveðja og gleðilegt sumar, 

Inga Þórðardóttir


Deildu ţessari frétt

AĐRAR FRÉTTIR

Fréttir / 9. apríl 2024

Pistill bćjarstjórnar 9. apríl

Fréttir / 5. apríl 2024

Zimna woda w Grindavík

Fréttir / 3. apríl 2024

Hlúum ađ heilsunni. Ókeypis kostir