Menningarvika Grindavíkur - Líf og fjör á fyrsta degi

  • Fréttir
  • 13. mars 2015

Menningarvikan í Grindavík verður formlega sett á laugardag og fjörið byrjar strax um morguninn. Þrátt fyrir slæma veðurspá láta Grindvíkingar engan bilbug á sér finna og verður engu frestað vegna veðurs, nema annað verði tilkynnt hér á heimasíðunni. Dagskráin laugardaginn 14. mars er eftirfarandi: 

Kl. 08:00-23:30 Aðal-Braut. Ljósmyndir frá Einari Einarssyni í Krosshúsum, myndir í einkaeigu. Gripir úr Einarsbúð til sýnis, m.a höfuðbók frá 1902. Gamaldags ís á vægu verði.

Kl. 10:00-17:00 Safnahelgi á Suðurnesjum. Í tilefni Safna-helgar á Suðurnesjum er ókeypis á öll söfn, þar á meðal Kvikuna. Allir velkomnir á opnunartíma. 

Kl. 11:00-13:00 Leikskólinn Laut. Listaverkasala nemenda Lautar í leikskólanum.

Kl. 11:00-13:00 100 ár frá kosningarétti kvenna. Dagskrá í samkomusal nýja íþróttamannvirkisins við Austurveg.
Saga Kvenfélags Grindavíkur. Núverandi formaður ásamt fyrrum formönnum rekja 90 ára sögu félagsins í máli og myndum. Súpa og brauð í boði. Þóra Arnórsdóttir sjónvarpskona ávarpar.

Hljómsveitin Eva: Vala Höskuldsdóttir og Sigríður Eir Zophoníasdóttir flytja frumsamin lög sem eru einlæg og melódísk og kitla á sama tíma hláturtaugar og tárakirtla þeirra sem á hlýða.
Perlur festarinnar eru margvíslegar. Ávarp Birnu Þórðardóttur á þessum merku tímamótum. Í fjóra áratugi hefur Birna Þórðardóttir verið eins konar persónugervingur pólitískra mótmæla gegn misrétti og stríðsrekstri. Enn tekur hún virkan þátt í slíkum aðgerðum þegar við á. Jafnvel fólk sem ekki er sammála skoðunum hennar eða baráttuaðferðum getur varla annað en borið virðingu fyrir henni. Birna er frábær fyrirlesari með húmor þó undirtónninn sé alvarlegur.

Kl. 10:00-16:00 Bókasafnið í Iðu, Ásabraut 2. Málverkasýning. Pálmar Örn Guðmundsson kennari og frístundamálari opnar málverkasýningu í bókasafninu. Pálmar Örn dvaldi í nokkrar vikur á Kúbu í haust en þaðan kemur innblástur hans að hluta. Pálmar Örn verður með gítarinn og tekur lagið kl. 12:00. 
Handavinnusýningar Auðar Ármannsdóttur og Jónu Sigurjónsdóttur. 
Handverksfélagið Greip sýnir muni sem félagar hafa unnið.

Kl. 12:00-16:30 Málverkasýning í Framsóknarhúsinu. 
Sænski listamaðurinn Sture Berglund frá vinabænum Piteå með sýningu sem enginn ætti að láta fram hjá sér fara. Hann er einn virkasti og virtasti listamaður Svíþjóðar og kemur gagngert hingað til að sýna í Menningarvikunni. Hann hefur haldið fjölda sýninga síðan á áttunda áratug síðustu aldar og hefur hann jafnframt komið að hönnun sem tengist umhverfi og náttúru. Hann hefur kennt við fjölmarga listaskóla, er margverðlaunaður listamaður og var m.a. bæjarlistamaður Piteå 2013. Sjón er sögu ríkari.

Kl. 13:00-17:00 Handverksfélagið Greip með sýningu á ganginum í verslunarmiðstöðinni, Víkurbraut 62, á annarri hæð. Greip sýnir afrakstur af handgerðum minjagripum sem félagsmenn hafa hannað og skorið út í gjafaöskjur fyrir bæinn.

Kl. 13:00-15:00 Bakki til sýnis. Minja- og sögufélag Grindavíkur hefur fest kaup á hinni fornu verbúð Bakka við Garðsveg og stendur til að koma húsinu í upprunalegt horf. Húsið er byggt 1933 og er með eldri húsum í Grindavík. Þetta er jafnframt ein elsta sjóverbúð á Suðurnesjum og hefur því menningarsögulegt gildi. Húsið er almenningi til sýnis og allir velkomnir.

Kl. 13:00-17:00 Verslunarmiðstöðin. Heilsuleikskólinn Krókur og Leikskólinn Laut sýna verk nemenda sinna:
Sýning Króks heitir Laufblöð á sama trénu, er sýnd í húsnæði gamla Sparisjóðsins. Á sýningunni má sjá listaverk og tónlistar-myndband barnanna eftir þemavinnu síðustu vikur, sem endurspeglar jákvæð viðhorf gagnvart fjölbreytileika samfélagsins. 
Ljósmyndasýning leikskólabarna frá Leikskólanum Laut á ganginum. Viðfangsefni: „Bærinn minn". 
Sýning á verkum nemenda 4. bekkjar. Sjálfsmyndir sem verða til sýnis í verslunarmiðstöðinni. Um er að ræða skemmtilegar sjálfsmyndir sem unnar voru í samstarfi textíl- og myndmenntar.

Kl. 13:00-17:00 Málverkasýning Helgu Kristjánsdóttur og þriggja útlendra málara, í gamla bókasafninu á 2. hæð í 
verslunarmiðstöðinni. Þeir eru; Serhiy Savchenko frá Úkraníu, Eduard Belsky frá Úkraníu og Alexandr Zabavchik frá Hvíta Rússlandi. Helga hefur kynnst þeim í gegnum sýningar og nám sitt erlendis. Tveir af þeim hafa komið til Íslands og haldið sýningu í Anarkíu listasal í Kópavogi. Allt eru þetta frábærir listamenn. 

Kl. 13:00-17:00 Ljósmyndasýning í verslunarmiðstöðinni, 2. hæð. Tinna Hallsdóttir sýnir myndir frá samfélaginu og umhverfinu í Grindavík sem henni finnst afar heillandi. Tinna er 25 ára og býr á Ítalíu eftir að hafa stundað ljósmyndanám í Englandi í Art University of Bournemouth. Hún kemur gagngert til Grindavíkur til þess að setja upp ljósmyndasýninguna.

Kl. 17:00 Formleg setning Menningarviku í Grindavíkurkirkju. 
Ávarp formanns bæjarráðs og formanns frístunda- og menningarnefndar. Vísiskórinn syngur. Karlakór Grindavíkur syngur.
Svíarnir Peter O. Ekberg gítarleikari og Alicia Carlestam söngkona frá vinabænum Piteå flytja sænska tónlist.
Nemendur úr Tónlistarskóla Grindavíkur leika. 
Afhending Menningarverðlauna Grindavíkur 2015 - Harpa Pálsdóttir danskennari.
Eftir setninguna er gestum boðið í safnaðarheimilið í FJÖL-MENNINGARLEGT VEISLUHLAÐBORÐ í nýrri félagsaðstöðu í 
íþróttamannvirki Grindavíkurbæjar við Austurveg. Grindvískir íbúar frá Filippseyjum, Tælandi, Póllandi og Serbíu kynna og bjóða upp á rétti frá sínum heimalöndum.

Kl. 21:00 Fjölmenningarhátíð á Salthúsinu. 
Í Grindavík búa um 3.000 manns og þar af eru rúmlega 300 með erlent ríkisfang. Sá hópur hefur skipað fjölmenningarráð sem verður með fjölmenningarhátíð þar sem kynnt verða fjögur lönd sem eiga það sameiginlegt að talsverður fjöldi íbúa þeirra búa í Grindavík. Löndin sem kynnt verða eru Pólland, gamla Júgóslavía og Serbía, Tæland og Filippseyjar. Fulltrúar þessar landa kynna sögu þeirra, menn-ingu og tónlist og í lok hverrar kynningar verða fyrirspurnir. Þessi kynning er ekki síður hugsuð fyrir Grindvíkinga, þarna fá þeir einstakt tækifæri til þess að kynnast menningu þessara þjóða. Allir velkomnir, enginn aðgangseyrir.


Deildu ţessari frétt

AĐRAR FRÉTTIR

Fréttir / 10. apríl 2024

NIE ZAPOMINAJMY O OKAZJACH DO RADOSCI

Fréttir / 9. apríl 2024

Pistill bćjarstjórnar 9. apríl

Fréttir / 5. apríl 2024

Zimna woda w Grindavík

Fréttir / 3. apríl 2024

Hlúum ađ heilsunni. Ókeypis kostir

Fréttir / 3. apríl 2024

Höfum gleđina međ!