Grindavík bikarmeistarar kvenna 2015

  • Körfubolti
  • 23. febrúar 2015

Grindavíkurstúlkur unnu glæstan sigur á Keflavík í úrslitum bikarkeppninnar núna á laugardaginn. Lokatölur leiksins urðu 68-61 en okkar konur fóru inn í 4. leikhluta með þægilegt 20 stiga forskot. Illa gekk að finna körfuna í loka leikhlutanum og það hefði sennilega orðið saga til næsta bæjar ef Grindavík hefði tekist að landa titlinum á þess að skora körfu síðust 10 mínúturnar. Undir lokin duttu þó nokkur víti og glæsilegur sigur staðreynd.

Mikil barátta einkenndi leik Grindavíkurliðsins og var grunnurinn að sigrinum lagður varnarmegin. Þær Pálína og Petrúnella drógu vagninn en allir leikmenn sem komu við sögu í leiknum skiluðu sínu og skiluðu góðri baráttu sem að lokum skóp þennan glæsilega sigur. Þær Petrúnella og Pálína áttu báðar hörku leik og King skilaði sínu og var stigahæst með 19 stig. Petrúnella var að lokum valin lykilmaður leiksins og var vel að því komin en hún kórónaði góðan leik sinn með rándýru blokki rétt fyrir leikslok og slökkti þar með endanlega í vonum Keflavíkur um endurkomu.

Karfan.is fjallaði ítarlega um leikinn:

„Grindavík fagnaði bikarmeistaratitli eftir glæsilega og nokkuð öruggan sigur á Keflavík í laugardalshöllinni í dag. Stuðningsmenn Grindavíkur fjölmenntu í höllina og var fögnuðurinn í leikslok ósvikinn. Pálína Gunnlaugs, Kristina King og Petrúnella áttu allar glæsilegan leik í dag og drógu vagninn fyrir Grindavík en lykilinn að sigrinum í dag var klárlega feiknarsterkur varnarleikur liðsins. Petrúnella Skúladóttir var útnefndur Lykilleikmaður leiksins en hún átti stóran þátt í glæsilegum varnarleik liðsins ásamt því að vera næst stigahæst í liðinu.

Það var Grindavíkurliðið sem setti fyrstu stigin í leiknum frá Maríu og Petrúnellu og voru þær því 5-0 yfir eftir tvær mínútur af leik. Bryndís og Carmen svöruðu þó um hæl og mínútu seinna var jafnt, 5-5. Það var jafnt á öllum tölum næstu mínúturnar, varnarleikurinn var sterkur á báða bóga og flest stigin komu úr hraðaupphlaupum. Grindavík náði mest þriggja stiga forskoti í stöðunni 14-11 en Keflavík svaraði um hæl með næstu fjórum stigum leiksins, 14-15, þegar tvær mínútur voru eftir af fyrsta leikhluta. Grindavík svaraði svo aftur um hæl og komust í 19-15 eftir flott hraðaupphlaup hjá Guðlaugu Björt Júlíusdóttur stuttu áður en flautan gall og kláraði fyrsta leikhluta.

Grindavík náði aftur góðum kafla í upphafi annars leikhluta og náðu forskotinu upp í 6 stig áður en Sigurður Ingimundarson tók leikhlé fyrir Keflavík, 25-19 og tvær og hálf mínúta liðin af öðrum leikhluta. Grindavík var að finna alltof auðveldar leiðir í gegnum svæðisvörn Keflavíkur og sáust nokkrar glæsilega fléttur þar sem boltinn fékk einfaldlega að ganga nokkrar sendingar og úr varð auðvelt sniðskot. Þegar þrjár og hálf mínúta var eftir af fyrri hálfleik var forksotið komið upp í 10 stig og varnarleikur Grindavíkur að halda ótrúlega vel, 33-23. Sigurður Ingimundarsson fékk hreinlega nóg um mínútu síðar og það hreinlega trylltist allt í gulu stúkunni þegar hann bað um leikhlé eftir að forskotið var komið upp í 14 stig, 37-23. Keflavík var þó ekki dautt úr öllum æðum og Carmen setti 5 stig á örstuttum tíma á lokamínútu fyrri hálfleiks til þess að laga stöðuna, það munaði því 10 stigum á liðunum þegar flautað var til hálfleiks, 40-30.

Stigahæst í liði Grindavíkur í hálfleik var Kristina King með 10 stig, 6 fráköst og 7 stoðsendingar. Petrúnella var næst á blað með 8 stig og 7 fráköst og þar á eftir Pálína Gunnlaugsdóttir með 7 stig. Í Keflavík var Carmen Tyson-Thomas stigahæst með 11 stig en næstar voru Bryndís Guðmundsdóttir með 9 stig og Sara Rún Hinriksdóttir með 6 stig.

Það var Pálína sem átti fyrstu orð seinni hálfleiks með þrist eftir misheppnaða fyrstu sókn Keflavíkur. Keflavík áttu svo næstu fjögur stig áður en Petrúnella setti niður baráttu stig eftir flotta pressuvörn Grindavíkur og Ingimundur tók leikhlé fyrir Keflavík, 45-34. Spennan var farin að gera vart við sig og Bryndís Guðmunds lét Petrúnellu finna fyrir sér og ýtti henni duglega frá sér eftir baráttu um boltan þegar þriðji leikhluti var að klárast. Pressuvörn Grindavíkur var mjög áköf og skilaði sér oft í þvinguðu mistökum hjá Keflavík. Það munaði 13 stigum á liðinum þegar leikhlutinn var hálfnaður, 49-36. Ingibjörg Jakobsdóttir var studd af vellinum og fór til búningsklefa með sjúkraþjálfara Grindavíkur þegar þrjár mínútur voru eftir af þriðja leikhluta. Ingibjörg hafði þá spilað 19 mínútur af þeim 27 sem búnar voru og því mikil blóðtaka fyrir Grindavíkurliðið. Þær létu þetta þó ekki á sig fá heldur settu næstu stig og Sigurður tók aftur leikhlé fyrir Keflavík í stöðunni 55-40. Á meðan það virtist hreinlega ekkert ganga upp hjá Keflavík fóru allir boltar ofaní hjá Grindavík, Jeanne Sicat setti stóran þrist þegar ein mínúta var eftir af leikhlutanum og jók forskot Grindavíkur í 20 stig, 60-40. Það var svo munurinn þegar einn leikhluti var eftir og stuðningsmenn Grindavíkur stóðu allir á fætur þegar flautað var til loka þriðja leikhluta, 62-42.

Keflavík setti fyrstu 6 stig fjórða leikhluta og ætluðu greinilega að gera eitt loka áhlaup á forskot Grindavíkur í leiknum. Sverrir Þór tók þá leikhlé fyrir Grindavík í stöðinni 62-48. Grindavík hafði ekki ennþá skorað í fjórða leikhluta þegar fjórar mínútur voru liðnar og ljóst að áherslur Sigurðar og Keflavíkurliðsins voru loksins að virka sem skyldi. Keflavík var hins vegar í álíka vandræðum og Grindavík að koma boltanum ofaní og því gekk lítið að minnka forskot Grindavíkur. Þegar fjórar mínútur voru til leikskola munaði ennþá 14 stigum á liðunum, 62-48. Carmen bætti við tveimur stigum af línunni og sniðskoti stuttu seinna þannig að þegar rúmlega tvær mínútur voru eftir munaði aðeins 10 stigum á liðunum, 62-52. Sverrir Þór tók þá annað leikhlé fyrir Grindavík. Birna Valgarðs setti næstu tvö stig Keflavíkur strax í kjölfar leikhlésins og spennan var farin að magnast all svakalega. Það var svo ekki fyrr en ein og hálf mínúta var til leikskloka að Grindavík kom loksins stigum á töfluna þegar Kristina King fór á vítalínuna og setti bæði ofaní, 64-54. Það trylltust svo allir Grindvíkingar þegar Petrúnella varði þriggja stiga skottilraun Ingunnar Emblu þegar um það bil ein mínúta var eftir og stuttu seinna byrjuðu stuðningsmenn Grindavíkur að syngja "bikarmeistarar". Keflavík tókst að skera forskotið ennþá meira niður á lokamínútunni og þegar 37 sekúndur voru eftir tók Grindavík aftur leikhlé í stöðunni 65-59, Keflavík var þá að vinna fjórða leikhluta 17-3 og Grindavíkruliðið orðið sjáanlega stressað. Keflavík þurfti að fara að brjóta og sendu Kristinu King á línuna með 28 sekúndur eftir, hún setti annað vítið. Carmen minnkaði muninn svo i næstu sókn en það kom of seint því Grindvíkingar fögnuðu titlinum vel og innilega stuttu seinna, 68-61.

Stigahæst í liði Grindavíkur í dag var Kristina King með 19 stig og 12 fráköst en næstar voru Petrúnella Skúladóttir með 17 stig og 10 fráköst og Pálína Gunnlaugsdóttir með 14 stig. Í liði Keflavíkur var Carmen Tyson Thomas stigahæst með 23 stig og 10 fráköst en næstar voru Bryndís Guðmundsdóttir með 14 stig og Birna Valgarðsdóttir með 8 stig“

Viðtöl eftir leik á karfan.is

 


Deildu ţessari frétt

AĐRAR FRÉTTIR

Fréttir / 3. apríl 2024

Hlúum ađ heilsunni. Ókeypis kostir

Fréttir / 3. apríl 2024

Höfum gleđina međ!

Fréttir / 2. apríl 2024

Ađstođ viđ fjármál

Fréttir / 27. mars 2024

Loftgćđi og mengun