Umtalsverđ fjölgun gistirýma

  • Fréttir
  • 14. janúar 2015

Síðustu ár hefur orðið mikil uppbygging í ferðaþjónustu á Íslandi og hafa Grindvíkingar eflaust tekið eftir síauknum straumi ferðamanna í bænum og á svæðinu í kringum Grindavík. Þess má geta í þessu samhengi að Bláa Lónið reiknar með að fjöldi gesta í ár verði í kringum 700.000.

Hérna rétt hinu megin við bæjarfjallið okkar fagra rennur íslenska þjóðin tvisvar í gegn á einu ári. Skortur á gistirýmum hefur lengi staðið í vegi fyrir að túrisiminn blómstri hér í Grindavík. Hingað til hefur ekkert hótel verið starfrækt í Grindavík og gistiheimilin anna aðeins takmörkuðum fjölda. En nú og á næstu misserum er að verða ansi stór breyting á þessum málum hér í okkar bæjarfélagi. Eitt hótel hefur þegar tekið til starfa, annað mun væntanlega opna í maí og framkvæmdir voru að hefjast við nýtt lúxushótel við Bláa Lónið. Þá er hótelið við Lækningalind Bláa Lónsins einnig að stækka. Næsta sumar munu því væntanlega verða 69 ný hótelherbergi í Grindavík, og munar heldur betur um minna.

Mar Guesthouse

Við Hafnargötu 28, í húsnæðinu sem áður hýsti lagmetið og seinna líkamsræktarstöð, hefur Mar Guesthouse nú þegar tekið til starfa. Eins og nafnið gefur til kynna er Mar ekki hefðbundið hótel, en 9 mánuði ársins er stærstur hluti hússins frátekinn fyrir starfsfólk Vísis. Fjögur herbergi eru þó leigð út allt árið og yfir sumarið er stefnan á að leigja öll herbergi út til ferðamanna. Öll aðstaða í Mar er hin glæsilegasta og litlu hefur verið til sparað við framkvæmdir og endurbætur á húsnæðinu. Alls eru 18 stúdíóíbúðir í húsinu og 15 tveggja manna herbergi sem öll eru ríkulega búin öllum nauðsynlegum innanstokksmunum og rúmlega það. 

Festi

Flestum Grindvíkingum fannst án vafa mjög erfitt að fylgjast með okkar gamla félagsheimili Festi standa umkomulaust í hjarta bæjarins og grotna þar niður hægt en örugglega. Það var því mjög ánægjulegt að sjá framkvæmdir við húsið loksins fara af stað í sumar eftir langa bið. Nýr eigandi hússins og framkvæmdaaðili er Ágúst Gíslason sem sjálfur vildi fara fyrr af stað með framkvæmdir en þær stoppuðu einfaldlega á þeirri staðreynd að grindvískir verktakar voru uppteknir í öðrum verkefnum! Aðspurður um það hvernig framkvæmdum miðaði sagði Ágúst:

„Þær ganga svona þokkalega. Auðvitað vill maður alltaf að það gangi hraðar en þetta gengur ágætlega, svona eftir að ég náði loks iðnaðarmönnum inn í húsið. Þó þetta hafi verið erfitt fyrir mig er þetta í sjálfu sér jákvætt fyrir bæjarfélagið og segir okkur bara að hér er nóg að gera. Ég hef meira að segja ekki ennþá fengið grindvíska rafvirkja í verkið, þeir eru bara allir uppteknir. En þar fyrir utan er ég með góðan mannskap í framkvæmdunum og þær ganga ágætlega. Við erum að klára að klæða loftin og veggir að rísa á mánudaginn."

Utanfrá hefur nánast verið hægt að sjá dagamun á húsinu og varla líður sá dagur þar sem ekki eru menn að vinna við húsið eða við lóðina. Ágúst sagði að framkvæmdir við lóðina væru nánast búnar og vinnan væri að færast meira og meira inn í húsið. Hann stefnir að sögn að því að allt verði klárt og hótelið og 36 herbergi þess opni 1. maí 2015.

Bláa Lónið

Svo er það ekki hér innanbæjar sem gistirýmum er að fjölga umtalsvert því við Bláa Lónið eru miklar framkvæmdir og menn þar á bæ stórhuga. Í sumar hófust framkvæmdir við hótelið við Lækningalindina sem stækkar úr 15 herbergjum í 30. Þann 9. desember var svo fyrstu hraunhellunni lyft á því svæði sem nýtt lúxus hótel mun rísa. Nýtt upplifunarsvæði verður byggt inn í hraunið vestur af núverandi lóni, og mun svæðið tengja núverandi lón og lúxushótel. Með tilkomu hótelsins verður fyrsta flokks gisting hluti af upplifun Bláa Lónsins. Í hótelinu er gert ráð fyrir 60 herbergjum, veitingastað og fjölnota fundarsal. Jarðvegsframkvæmdir eru að fara af stað og áætluð verklok eru árið 2017.

Efsta mynd: Mar Guesthouse við Hafnargötu 28. Er frátekinn fyrir starfsfólk Vísis níu mánuði ársins en fjögur herbergi leigð út allt árið.
Verið er að breyta Festi í glæsilegt 36 herbergja gistihús og verður það tekið í notkun næsta vor.
Mikil uppbygging er fram undan hjá Bláa Lóninu.


Deildu ţessari frétt

AĐRAR FRÉTTIR

Fréttir / 10. apríl 2024

NIE ZAPOMINAJMY O OKAZJACH DO RADOSCI

Fréttir / 9. apríl 2024

Pistill bćjarstjórnar 9. apríl

Fréttir / 5. apríl 2024

Zimna woda w Grindavík

Fréttir / 3. apríl 2024

Hlúum ađ heilsunni. Ókeypis kostir

Fréttir / 3. apríl 2024

Höfum gleđina međ!