Einstakur hellir fannst austan við Grindavík - fór undir Suðurstrandarveg

  • Fréttir
  • 29. janúar 2009

Þegar framkvæmdir hófust í maí 2006 við Suðurstrandarveg, austan Grindavíkur, nánar tiltekið milli Hrauns og Ísólfsskála, uppgötvaðist stór og mikill hellir sem að mati sérfræðinga var einstakur á heimsvísu. Hins vegar var mokað ofan í hellinn því hann lenti undir nýjum Suðurstrandarvegi. Frá þessu er greint á ferlir.is sem áhugafólk um útivist á Reykjanesi heldur úti.

,,Þegar Arnar Helgason, stjórnandi stórrar (65 tonna) gröfu verktakans Háfells var að grafa í Bjallarbrúnina vestan við Bólið, fyrrum fjárskjól frá Ísólfsskála, þar sem vegurinn á liggja niður hann samhliða og austan núverandi vegstæðis, greip skóflan skyndilega í tómt. Í ljós kom að hún hafði verið rekin niður í geysistórt holrúm og stóð grafan uppi á miðju hvolfþakinu. Arnari brá skiljanlega í brún, dró þó andann djúpt og færði gröfuna varlega á örugga undirstöðu. Þarna hefði getað farið illa.

Verktakinn tilkynnti atvikið til jarðfræðings Vegagerðarinnar, sem á eftir að skoða fyrirbærið. Vegfarandi, sem leið átti þarna hjá um það leyti er jörðin opnaðist undan gröfukjaftinum, hafði þegar samband við þá er einna mestan áhuga hafa sýnt á svæðinu.
 
Þegar Björn Hróarsson, jarð- og hellafræðingur, og einn FERLIRsfélaganna, áhugamaður um útivist, minjar og náttúru- og jarðfræðifyrirbæri á Reykjanesskaganum, komu á vettvang skömmu eftir atvikið, blasti gímaldið við, 12-15 metra djúpt. Angar virtust liggja til norðurs og suðurs, m.a. undir núverandi vegstæði.

Gímaldið hefur myndast sem holrúm í blöndu af gjósku, jökulruðningi og sjávarmöl. Það er í jaðri móberghryggs ofan við Bjallann. Giskað er á að það hafi myndast er gos varð undir jökli er myndaði Slöguna. Risastórt klakastykki hefur þá brotnað úr jöklinum og jarðefni safnast umhverfis það. Ísstykkið hefur síðan bráðnað hægt og skilið þetta mikla holrúm eftir. Sjávarstaðan hefur þarna í brúninni. Vegna ísfargsins hefur landið legið mun lægra en nú er, en það síðan lyft sér við bráðnun jökulsins.  Einnig gæti verið um gamlan sjávarhelli að ræða, en það mun væntanlega upplýsast við nánari skoðun. Reynt var að nota arm og skóflu gröfunnar til að koma manni til botns, en þrátt fyrir lengd hans náði hann einungis hálfa leið að botni.

Nokkrum dögum síðar var gýmaldið fyllt og þannig gert að engu. Líkast til var það óhjákvæmilegt, bæði vegna þess að ekki var um annað vegstæði að ræða á þessum stað og auk þess var um talsvert grjóthrun að ræða úr opi þess. Því var vettvangurinn varhugaverður og beinlínis hættulegur fyrir óvana."
 
Nánar má lesa um hellinn hér: http://www.ferlir.is/?id=4373
 
 


Deildu þessari frétt

AÐRAR FRÉTTIR

Fréttir / 10. apríl 2024

NIE ZAPOMINAJMY O OKAZJACH DO RADOSCI

Fréttir / 9. apríl 2024

Pistill bæjarstjórnar 9. apríl

Fréttir / 5. apríl 2024

Zimna woda w Grindavík

Fréttir / 3. apríl 2024

Hlúum að heilsunni. Ókeypis kostir

Fréttir / 3. apríl 2024

Höfum gleðina með!