Kvótinn.is heimsótti Stakkavík

  • Fréttir
  • 12. nóvember 2014

Í gær birtist á kvótinn.is áhugavert viðtal við þá Stakkavíkurbræður, Gest og Hermann Ólafssyni, þar sem þeir tala um m.a. breytingar á sinni vinnslu, frá saltfiskverkun og yfir í ferskfiskvinnslu en í dag selja þeir nær allan fisk ferskan með flugi.

Greinin á kvótinn.is er nokkuð löng og hana má lesa í heild sinni í heild sinni þar en við birtum hér nokkra valda kafla:

Veiddur í gær, unninn í dag, í verslun ytra á morgun

Stakkavík í Grindavík er eitt þeirra fyrirtækja sem reiðir sig á línuveiðar í krókakerfinu til að tryggja sér jafnt og gott hráefni allt árið um kring til útflutnings á ferskum fiski. Nú nýlega fékk Stakkavík afhentan stærsta bát krókakerfisins, Óla á Stað, og er með annan slíkan í smíðum hjá Seiglu hf. á Akureyri. Bræðurnir Gestur og Hermann Ólafssynir eru við stjórnvölinn hjá Stakkavík og kvotinn.is skrapp í heimsókn til þeirra.

Stakkavík vinnur nú að segja má eingöngu ferskan fisk til útflutnings með flugi. Söltun er orðin afgangsstærð hjá þeim bræðrum. Það er Gestur sem verður fyrst fyrir svörum, þegar spurt er um vinnsluna. „Þetta er mikil breyting frá því þegar við vorum í saltinu, miklu meira lifandi að vera svona í flugfiskinum. Við erum að taka um 5.000 tonn í gegnum húsið á ári. Það er bæði af okkar eigin bátum en við kaupum líka fisk á mörkuðum. Við kaupum á mörkuðunum þegar það eru brælur og vantar fisk eða fisk af ákveðnum stærðum. Við seljum líka á mörkuðunum það sem við notum ekki sjálfir en við hægjum einfaldlega á bátum ef þess þarf, ef þeir eru að fiska meira en við höfum samninga fyrir.

Við erum hátt í 3.000 þorskkvóta í báðum kerfunum, rúm 2.000 í krókunum og rúm 700 í því stóra auk annarra tegunda, eins og ýsu og steinbít. Það eru um 100 manns í allt sem vinna hjá Stakkavík, á sjó, í vinnslu í landi, í beitningu og á skrifstofunni," segir Gestur.

Fiskurinn fer í súpermarkaði og veitingahús

Fiskurinn frá okkur fer inn á súpermarkaði og veitingastaði og þann fisk verða menn að fá daglega. Til að geta orðið við því verðum við að dreifa veiðunum hjá nokkuð jafnt yfir allt árið í stað þess að byggja veiðarnar nánast á vetrarvertíð eins og Norðmenn gera og taka megnið af kvóta sínum á þremur til fjórum mánuðum í upphafi árs. Til að geta staðið að verki eins og við gerum er það frumskilyrði að eiga greiðan aðgang að hráefni. Þá verða menn að eiga kvóta og vera í útgerð. Hitt er reyndar hægt, en þetta er öruggara. Þess vegna höfum við keypt kvóta og erum að styrkja útgerðina hjá okkur með nýjum bátum. Við tökum allan okkar fisk á línu, ýmist beitta í landi eða úr beitningarvélum um borð.

Fiskurinn fer nánast allur utan með flugi, en við erum aðeins að setja fersku flökin í gáma og senda með skipi til Bretlands og Frakklands. Flutningskostnaður er þá lægri en það er fiskverðið líka, því þá hefur góður hluti geymsluþols flakanna verið nýttur í flutningstíma. Yfirleitt er nóg pláss í fluginu, en það koma dagar þegar það dugir ekki. Það á aðallega við þegar kaupendur eru með kynningar á fiskinum ytra, því þá þurfa þeir meira af fiski," segir Gestur.

Umdeild stærðarmörk

Það hefur líka staðið styr um stærðarmörk báta í krókakerfinu. Stakkavík hefur nú tekið á móti stærsta bát landsins í krókakerfinu Óla á Stað og er með annan í smíðum hjá Seiglu á Akureyri. Stærðarmörkin í kerfinu hafa verið færð upp nokkrum sinnum og síðast var leyft með reglugerð að fara með bátana upp í 15 metra að lengd og 30 tonn eins og Óli á Stað er. Landssamband smábátaeiganda var á móti þeirri stækkun í upphafi.Reynt var að stöðva smíði bátanna eftir að hún var hafin þrátt fyrir að stærðarmörk þeirra væru innan þeirra marka sem reglugerð um stærðina leyfði, þegar smíðin var hafin. Málið fór í lögfræðinga en Siglingastofnun hafði farið fram á að þeir yrðu minnkaðir. Niðurstaðan var sú að smíði bátanna yrði leyfð og þeir færu inn í krókakerfið, en framvegis yrðu bátarnir að vera minni.

„Þessi niðurstaða er stórslys að mínu mati, þó okkar bátar hafi farið í gegn. Ég skil ekki svona. Við erum að tala um að fá að byggja bát sem tekur 25 600 lítra kör og 15 400 lítra kör í lest. Í honum eru blóðgunarkör og ískrapavél og fín aðstaða frammí fyrir karlana þannig að það fer vel um menn og fisk. Svona bátar fiska vel og eru grundvöllur þess að hægt sé að sækja í verri veðrum og stuðla að meira jafnvægi í hráefnisöflun. Auðvitað eiga menn að fá að byggja góða báta til að tryggja betur öryggi áhafnar og aðbúnað. Bátarnir eru með kvóta og það á ekki að skipt máli hve stórir þeir eru innan eðlilegra marka eins og ég tel að þessa báta vera," segir Hermann.

Lesið greinina í heild sinni á kvótinn.is


Deildu ţessari frétt

AĐRAR FRÉTTIR

Fréttir / 9. apríl 2024

Pistill bćjarstjórnar 9. apríl

Fréttir / 5. apríl 2024

Zimna woda w Grindavík

Fréttir / 3. apríl 2024

Hlúum ađ heilsunni. Ókeypis kostir