Jákvćđni hefur einkennt hópinn

  • Fréttir
  • 31. október 2014

Miklar breytingar hafa staðið yfir hjá Vísi í sumar og á haustmánuðum, en það hefur sennilega ekki farið framhjá neinum sem á annað borð fylgist með fréttum að stefnt er að því að flytja alla landvinnslu fyrirtækisins til Grindavíkur. Fyrir þá sem hafa átt leið um hafnarsvæði Grindavíkur hafa breytingarnar einnig verið mjög áberandi en Vísir hefur tekið yfir húsnæðið sem áður hýsti Fiskmarkað Suðurnesja og tekið það algjörlega í gegn og stækkað og er fiskvinnsla nú farin af stað í því húsi. Jafnframt hefur verið ráðist í miklar framkvæmdir í íbúðarhúsnæði í bænum til að koma hinum nýju íbúum fyrir.

Alls fluttu 62 starfsmenn til Grindavíkur frá Húsavík og Djúpavogi. 43 komu frá Húsavík og 19 frá Djúpavogi. Þar af voru 52 Pólverjar og 10 Íslendingar. Nú starfa því alls 125 manns hjá Vísi í Grindavík og í fyrsta sinn hér í Grindavík eru erlendir starfsmenn fleiri en íslenskir, eða 56% starfsmanna.

Áður en lagt var í þessar gríðarmiklu breytingar á starfseminni lögðust Vísismenn í ákveðna greiningu á starfsmannahópi sínum þar sem í ljós kom að mikill meirihluti starfsmanna voru Pólverjar sem þeir litu svo á að ættu auðveldara með að flytja á milli þessara staða. Horfðu þeir t.a.m. jákvætt til þess að komast nær alþjóðaflugvelli og afþreyingu og þjónustu á suðvestur horninu. 

Járngerður tók Ágústu Óskarsdóttur, starfsmannastjóra Vísis, tali og hún fræddi okkur um þessar miklu breytingar og vinnuna sem Vísir hefur lagt í vegna þeirra.

„Meginstefið hjá okkur í þessum breytingum var að vinna þetta með starfsfólkinu. Að halda þeim vel upplýstum í öllu ferlinu eins og mögulegt var, og þannig að breytingarnar yrðu auðveldari. Því við vitum það alveg að svona stórar breytingar eru erfiðar og ekki hægt að gera nema í samvinnu við fólkið. Það er því afar ánægulegt hversu vel hefur tekist til við komu fólksins til Grindavíkur. Jákvæðni hefur einkennt hópinn og allir eru í sama liði, tilbúnir að takast á við ný og spennandi verkefni."

Ágústa segir líka að mikil áhersla hafi verið lögð á að hjálpa nýjum starfsmönnum að aðlagast samfélaginu hér í Grindavík, þannig að þeir geti verið virkir þátttakendur í því. „Sem lið í því buðum við öllum erlendu starfs-mönnunum upp á að fara á íslensku-námskeið. Og þar sem að nýja verksmiðjan var ekki tilbúin alveg á réttum tíma gátum við nýtt tímann og boðið starfsfólki upp á að sækja námskeið á dagvinnutíma og sóttu það allir aðfluttu pólsku starfsmennirnir."
Ágústa og starfsfólk Vísis hefur haldið vel utan um hina nýju liðsmenn fyrirtækisins, meðal annars með svokölluðu fóstrakerfi, þar sem 10 sjálfboðaliðar úr starfsliði fyrirtækisins tóku það að sér að fóstra 6 manna hópa af nýliðum, sýna þeim og leiðbeina og vera tengiliðir um ýmis mál. Þessir 10 sjálfboðaliðar voru svo hópstjórar í ratleik sem farið var í á kynningardögum sem haldnir voru dagana 1.-3. september og teygði sig hér um allan bæ og þótti takast einstaklega vel.
Að lokum bætir Ágústa því við að þetta hafi verið verkefni sem þau sem atvinnurekendur hafi lært margt af og þroskast. Það hafi tekið tíma og þolinmæði en allir hafi verið tilbúnir að leggjast á eitt til að láta það ganga.

Verkefninu er ekki lokið, enn er t.d. verið að vinna að því að koma öllum starfsmönnum í endanlegt húsnæði og að ganga frá hinni nýju verksmiðju. En það er ljóst að framtíðin er björt og spennandi tímar framundan hjá Vísi sem mun fagna 50 ára afmæli næsta vor.


Í haust var Vísir með ratleik og fjölskyldugrill sem haldið var fyrir alla starfsmenn Vísis í Grindavík. Starfsmönnum var skipt upp í 10 lið sem fengu stig fyrir að taka myndir af fyrirfram ákveðnum hlutum eða athöfnum og ynni það lið sem flest stig fengi. Liðin fóru á kostum í keppninni og einstaklega margar skemmtilegar myndir litu dagsins ljós. Litlu munaði á efstu liðum en svo fór að vinningsliðin þrjú voru fjólubláa liðið, dökkbleika liðið og bláa liðið. Að loknum ratleik gæddu starfsmenn sér á grilluðum hamborgurum frá bílnum Tuddanum frá Matarbúrinu á Hálsi í Kjós. Það var mál manna að fjölskyldudagurinn hafi heppnast afar vel og gaman hafi verið að sjá hversu vel fór á með öllu samstarfsfólkinu. Þá gerði veðrið góðan dag enn betri.

Myndirnar sem fylgja voru einmitt teknar í tengslum við ratleikinn og fjölskyldugrillið.


Deildu ţessari frétt

AĐRAR FRÉTTIR

Fréttir / 9. apríl 2024

Pistill bćjarstjórnar 9. apríl

Fréttir / 5. apríl 2024

Zimna woda w Grindavík

Fréttir / 3. apríl 2024

Hlúum ađ heilsunni. Ókeypis kostir