Búsetumál eldri borgara í Grindavík

  • Fréttir
  • 27. mars 2014

Á íbúafundi um fjármál Grindavíkurbæjar í nóvember 2013 var talsverð umræða um búsetumál eldri borgara. Með vísan til þeirrar umræðu samþykkti bæjarstjórn á fundi sínum 29. janúar að skipa 5 manna nefnd til að fara yfir búsetumál eldri borgara í Grindavík. 

Skal nefndin afla gagna til að meta þörf fyrir íbúðir og þjónustu fyrir eldri borgara í bænum til næstu 10 ára, með hliðsjón af íbúaþróun. Nefndin skal framkvæma könnun meðal eldri borgara um búsetuóskir þeirra. Í nefndina voru skipaðir eftirfarandi
• f.h. félagsmálanefndar: Anna Sigríður Jónsdóttir
• f.h. félags eldri borgara í Grindavík: Loftur Jónsson
• f.h. Miðgarðs: Stefanía Sigríður Jónsdóttir
• f.h. minnihluta bæjarstjórnar: Hjálmar Hallgrímsson
• f.h. meirihluta bæjarstjórnar: Bryndís Gunnlaugsdóttir Holm

Nefndin hefur þegar tekið til starfa og tekið saman gögn um íbúaþróun og spá um fjölda eldri borgara í Grindavík til 2024. Jafnframt vinnur nefndin að undirbúningi viðhorfskönn-unar sem hefur það að markmiði að afla upp-lýsinga um þarfir og óskir eldri borgara í Grindavík um íbúðir og þjónustu.

Íbúaþróun

Samfélagið í Grindavík er frekar ungt og hlutfall eldri borgara af íbúafjöldanum hefur verið lágt í samanburði við mörg önnur sveitarfélög og landsmeðaltal. 

Á meðfylgjandi mynd (sjá ofan) má sjá íbúaþróun í Grindavík frá 1998-2013 og spá um þróun frá 2014-2024, sem byggð er á spá Aðalskipulags Grindavíkur 2010-2024. Þar er gert ráð fyrir að íbúum fjölgi um 1,5% á ári. Árið 2024 er áætlað að í Grindavík búi tæplega 3.400 manns, en í dag eru íbúar tæplega 2.900.

Rauða línan sýnir þróun fjölda eldri borgara frá 1998 og spá um þróun til 2024. Sú spá byggir á upplýsingum um stærð árganga frá 1948 til 1957, en þeir eru að jafnaði mun fjölmennari en árgangarnir næstu 10 árin þar á undan. Í ljósi þess er spáð að íbúum eldri en 67 ára muni fjölga um 7% á ári á tímabilinu. Árið 2024 er áætlað að íbúar eldri en 67 ára verði um 500 í samanburði við um 270 í dag. Hlutfall eldri borgara af íbúafjöldanum hækkar þannig úr um 9% í um 15% á tímabilinu. Árið 2024 er áætlað að um 300 af um 500 eldri borgurum í Grindavík verði yngri en 80 ára. Af því leiðir að viðbúið er að þjónusta við eldri borgara muni í auknum mæli byggjast á félagslegum þörfum, tómstundum og virkniúrræðum, frekar en hjúkrunar- eða læknisþjónustu. 

Eitt af verkefnum nefndarinnar er að leggja mat á þörf fyrir uppbyggingu íbúða í Grindavík, með hliðsjón af þeirri þróun sem vænta má.

Í aðalskipulagi er gert ráð fyrir að fjölgun eldri borgara muni leiða til aukinnar eftirspurnar eftir sérhæfðu húsnæði fyrir eldri borgara. Gert er ráð fyrir að þeirri þörf verði mætt með skipu-lagi íbúðasvæðis í Víðigerði með séreignar-íbúðum fyrir fólk 50 ára og eldri. Gert er ráð fyrir að Grindavíkurbær stuðli að þeirri þróun með skipulagsvinnu og uppbyggingu þjónustu í Víðihlíð og Miðgarði. Fyrirliggjandi er tillaga að deiliskipulagi við Víðigerði og undanfarin 3 ár hefur verið unnið að uppbyggingu þjónustu í Miðgarði og nú síðast með breytingu á heima- og búsetuþjónustu.

Búsetumöguleikar fyrir eldri borgara í Grindavík

Eldri borgurum standa ýmsir búsetukostir til boða. Mikilvægt er að gera greinarmun á búsetu í sérstökum þjónustuúrræðum fyrir eldri borgara sem rekin eru á ábyrgð ríkisins og almennum íbúðum sem geta ýmist verið í eigu einstaklinganna sjálfra, á almennum leigumarkaði eða félagslegum leigumarkaði. 

Í lögum og reglugerðum hafa verið skilgreind ýmis sérúrræði fyrir eldri borgara. Skiptast þessi úrræði í dvalarheimili, sambýli og íbúðir, sérhannaðar fyrir þarfir aldraðra sem ekki eru færir um að annast heimili þrátt fyrir heimaþjónustu. Þar að auki eru hjúkrunar-heimili eða hjúkrunarrými á öldrunarstofn-unum sem eru ætluð öldruðum einstaklingum sem eru of lasburða til að dveljast á dvalarheimilum eða sambýlum. Þessi úrræði eru á grundvelli laga um málefni aldraðra og eru rekin á ábyrgð ríkisins en ekki sveitarfélaga.

Fyrir utan þessi sérúrræði búa eldri borgarar í húsnæði sem þeir ýmist eiga sjálfir eða leigja, á almennum markaði eða félagslegum. Þeir eldri borgarar geta eftir atvikum átt rétt á heimaþjónustu frá Miðgarði.
Í Grindavík er rekið hjúkrunarheimili í Víði-hlíð, en ekki er rekið dvalarheimili, sambýli eða þjónustuíbúðir fyrir eldri borgara. 

Grindavíkurbær á og rekur 12 íbúðir fyrir eldri borgara í Víðihlíð. Íbúðirnar eru reknar með búseturéttarfyrirkomulagi. Íbúi greiðir búsetu-réttargjald sem er 20% af kaupverði, en greiðir auk þess leigu sem stendur undir fjármagns-og rekstrarkostnaði. Íbúðirnar eru ekki skilgreindar sem þjónustuíbúðir, en nálægð íbúa við þjónustu Miðgarðs er mikil og hefur m.a. verið horft til heilsufars, auk annarra þátta, við mat á umsóknum um íbúðirnar.

Grindavíkurbær á einnig og rekur 19 íbúðir sem skilgreindar eru sem félagslegar. Til að eiga rétt á félagslegri íbúð þarf umsækjandi að uppfylla ákveðin skilyrði, svo sem um eigna- og tekjumörk. 

Þar að auki eiga og reka húsnæðissamvinnufélagið Búmenn 30 íbúðir í Grindavík. Íbúðirnar eru í tveimur kerfum þ.e. íbúðir með kaupskyldu félagsins, þar sem búseturétti fylgir vísitölu neysluverðs og svo yngra kerfi frá 2006 þar sem ekki er kaupskylda á búseturétti en búseturétturinn er seldur á markaðsverði sem eigandi réttarins ákveður. Alls eru 9 íbúðir í Búmannakerfinu í Grindavík til sölu eða leigu þegar þessi orð eru rituð.


Deildu ţessari frétt

AĐRAR FRÉTTIR

Fréttir / 9. apríl 2024

Pistill bćjarstjórnar 9. apríl

Fréttir / 5. apríl 2024

Zimna woda w Grindavík

Fréttir / 3. apríl 2024

Hlúum ađ heilsunni. Ókeypis kostir