Komin í öruggt skjól

  • Fréttir
  • 27. mars 2014

Járngerður tók hús á hjónunum Kristni B. Kristinssyni (76 ára) og Hrönn Árnadóttur (74 ára). Þau hjónin búa í íbúð í Víðihlíð, og hafa gert í rúmt ár. Þau bjuggu í eigin húsnæði þangað til í febrúar 2013 þegar þau fluttu í Víðihlíð. Kristinn er hress og enn að vinna en hann keyrir fiskflutninga-bíl fyrir Einhamar í hlutastarfi. Hrönn aftur á móti hefur glímt við lungnaveikindi síðustu ár og þess vegna skráði hún þau hjónin á biðlista eftir íbúð og þau komust að mun fyrr en þau áttu von á. 

„Þetta bar nokkuð fljótt að", segir Kristinn. „Ég hafði í raun lítið pælt í þessum möguleika og vissi eiginlega ekki af þessu. Ég hélt að fólk þyrfti að vera orðið fársjúkt til að fá hér inni en það kom heldur betur annað á daginn. Ég held að almennt viti Grindvíkingar ekki nógu vel af þeirri þjónustu sem er í boði hérna í Víðihlíð."

- Voru það ekki ákveðin viðbrigði að fara úr eigin húsnæði og yfir í þjónustuíbúð?
Kristinn er fljótur til svara: „Jú vissulega en þetta vandist mjög fljótt og mér leið nánast strax eins og heima hjá mér. Það eina sem maður saknar er bílskúrinn! Íbúðin er bæði stór og rúmgóð, þó að hér sé áberandi skortur á forstofu og í raun gæti íbúðin verið opnari, og þar af leiðandi bjart-ari og enn rúmbetri. Eitthvað sem bæjarfulltrúar mættu hafa á bakvið eyrað þegar ráðist verður í stækkun.

Hrönn tekur í svipaðan streng: „Ég var strax mjög sátt við að vera hér. Hér er góður andi og starfsfólkið allt mjög jákvætt og allt mjög persónulegt. Það eru allir tilbúnir að leggja aðeins meira á sig en stendur í starfslýsingunni þeirra."

- Hvaða þætti þjónustunnar eruð þið að nýta ykkur?
„Við fáum þrif einu sinni í viku sem er afar kærkomið. Við höfum líka aðgang að góðu þvottahúsi með topp aðstöðu, þetta er í raun allt yndislegt," segir Hrönn og Kristinn bætir við að „það sé í raun ótrúleg búbót að geta gengið á innskónum í alla þessa afþreyingu og þjónustu" og nefnir þar sérstaklega félagsstarfið í Miðgarði, eins og leikfimi, föndur, bingó, dans og í raun svo til allt félagsstarf eldri borgara. 

Þau hjónin eru enn nokkuð brött til heilsunnar og hugsa að mestu leyti um sig sjálf, en nefna að það sé vissulega ákveðin öryggistilfinning að vera komin á þennan stað.

„Það er mjög gott að vita af hjúkrunarfræðingum og öðru fagfólki handan við hornið. Það má segja að maður sé kominn í öruggt skjól hérna" segir Hrönn og Kiddi bætir við að einnig losni maður við ákveðnar áhyggjur sem fylgja því að búa í eigin húsnæði. „Við fórum erlendis um jólin og þurftum ekki að hafa áhyggjur af húsbrotum eða álíka uppákomum. Hér er í raun allt til alls í göngufæri. Þetta er svolítið eins og að vera á litlu hóteli!"

- En er eitthvað sem mætti betur fara?
Það stendur ekki á svari og þau svara nánast samhljóða: „Maturinn"
Þau hjónin elda flesta daga sjálf en borða gjarn-an um helgar matinn með öðrum íbúum Víði-hlíðar. Hrönn heldur áfram: „Það er ekki hægt að bjóða fólki upp á upphitaðan mat. Það er alveg ótrúlegt að það sé ekki hægt að reka þetta glæsilega eldhús sem við erum með hérna í húsinu. Þarna eru allar græjur og allt til alls og hálfgerður skandall að það sé ekki hægt að bjóða fólki uppá mat eldaðan á staðnum. Maturinn var virkilega góður meðan Sússa var hér að elda fyrir okkur. Maturinn sem við fáum sendan er oft einfaldlega ekki nógu góður né heldur nógu fjölbreyttur. Stundum er matur sem kemur á föstudegi upphitaður á sunnudegi og meðlætið er ekki gott og fremur einhæft. Stundum veltir maður því hreinlega fyrir sér hvort að við séum flokkuð sem annars flokks þegnar þegar kemur að matnum. En það er ekki við Grindavíkurbæ að sakast, þau bera ekki ábyrgð á matnum. Maður veltir því samt fyrir sér hvort það færi einfaldlega ekki betur á því að bærinn tæki eldhúsið yfir eða greiddi þjónustuna að minnsta kosti niður." 

Þetta var þó það eina sem Kristinn og Hrönn gátu fundið að þjónustunni í Víðihlíð. Til að enda þetta á ögn jákvæðari nótum þá tók Kristinn það sérstaklega fram að honum finnst vert að það kæmi fram hversu ánægður hann væri með störf Sirrýjar „Sirrý er gríðarlega jákvæð. Ég hef aldrei heyrt hana segja nei, hún alltaf til í að leysa öll vandamál. Allt starfsfólkið hér er jákvætt og duglegt."


Deildu ţessari frétt

AĐRAR FRÉTTIR

Fréttir / 9. apríl 2024

Pistill bćjarstjórnar 9. apríl

Fréttir / 5. apríl 2024

Zimna woda w Grindavík

Fréttir / 3. apríl 2024

Hlúum ađ heilsunni. Ókeypis kostir